Sjálfstæðisflokkurinn er vígvöllur - sakir heimsku forystunnar

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru yfirgnæfandi gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Meðal kjósenda flokksins er aðeins 3-5 prósenta fylgi við aðild. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn vígvöllur milli fullveldissinna og ESB-sinna. Hvers vegna?

Jú, vegna heimsku og dómgreindarleysis forystu flokksins sem rífur gat á ESB-víglínu ríkisstjórnarinnar með því að bjóða stjórnarandstöðunni upp á samninga um afturköllun umboðslausu umsóknarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn mun tætast í sundur ef forystan nær ekki vopnum sínum og fylgir landsfundarsamþykktum af staðfestu. Fullveldissinnar eiga trausta bandamenn í Framsóknarflokknum sem verður raunhæfur kostur í staðinn fyrir huglausa og dómgreindarlausa forystu Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is „Það hefur ekkert verið ákveðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB niðurlægt á Krímskaga

Evrópusambandið studdi götuofbeldið sem leiddi til afsagnar löglega kjörins forseta Úkraínu. Evrópusambandið, með stuðningi Bandaríkjanna, fór í kaldastríðsham þegar Rússar tóku málstað forsetans og tryggðu stöðu sína á Krímskaga, sem áður tilheyrði Rússlandi enda íbúarnir yfirgnæfandi rússneskumælandi.

Liam Halligan í Telegraph dregur upp dökka mynd af stöðu Evrópusambandsins gagnvart Rússum. Hann segir hótanir ESB um efnahagslegar refsiaðgerðir skot langt yfir markið og grafi undan pólitískum áhrifum ESB í austurvegi.

Fréttir eru um að samstaða Evrópusambandsins sé að riðlast og yrði það ekki fyrsta sinn sem Brussel brotnar á ögurstundu. Hvort heldur sem er að ESB standi við hótanir sínar um viðskiptaþvinganir eða lúffi á lokametrunum verður sambandið fyrir álitshnekki. ESB beinlínis hvatti til þess að lögmæt stjórnvöld í Úkraínu yrðu flæmd frá völdum og ber þess vegna siðferðilega ábyrgð á eftirleiknum. Úkraína er klofin á milli vestur- og austurhluta og til að halda friðinn þarf að finna jafnvægi sem báðir landshlutarnir geta unað við.

Pútín er ekki með frítt spil gagnvart Úkraínu. Fjöldamótmæli í Moskvu sýna svart á hvítu að rússneskur almenningur ætlar ekki að láta teyma sig út í stríð vegna Úkraínu.

Sáralítil hætta er á að stríð brjótist út í Úkraínu - ekkert annað stórveldi en Rússland á harða hagsmuni að verja á þessum slóðum. Afl Rússa gagnvart Úkraínumönnum er yfirþyrmandi og því munu Úkraínumenn ekki grípa til vopna til að verja Krímskaga.

Deilan um Krímskaga er diplómatískt stríð sem Rússar munu sigra, ekki síst vegna þess að þeir njóta stuðnings Kínverja. Evrópusambandið verður niðurlægt og mun tapa áhrifavaldi í alþjóðastjórnmálum og þó ekki úr háum söðli að detta. Bandaríkjamenn munu sitja hjá enda eru þeir afar smeykir við efnahagslegan mátt Kínverja og spyrja sig hvort nýleg lækkun á kínverska gjaldmiðlinum sé hluti af viðskiptastríði Kína eða þáttur í alþjóðavæðingu hagkerfisins þar austur frá.

Efnahagakerfi Evrópusambandsins stendur á brauðfótum vegna evrunnar, sem gerði jaðarríki álfunnar að bónbjargarfólki. Ef Kínverjar fella gengið sitt til að auka útflutning mun það bitna hart á veikum evru-ríkjum sem glíma við verðhjöðnun og atvinnuleysi upp á 20 til 40 prósent.

Evrópusambandið stendur frammi fyrir tvöfaldri ógn úr austri; pólitískri og efnahagslegri. Evrópusambandi mun lúta í gras, spurningin er aðeins hve stórt tapið verður og hvaða afleiðingar það hefur fyrir samheldni ESB-ríkja.


mbl.is Kosning hafin á Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturköllun með eða án þingvilja

Ísland er sem stendur umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Við það verður ekki unað enda kaus þjóðin sér við síðustu kosningar meirihluta sem er andvígur aðild að ESB.

Á síðasta kjörtímabili veitti þingið utanríkisráðherra heimild til að sækja um aðild að ESB. Eðlilegt er að þingið afturkalli þá heimild, í samræmi við þjóðarviljann eins og hann birtist í síðustu þingkosningum.

Ef alþingi lamast í þessu máli og meirihlutavilji þings og þjóðar nær ekki fram að ganga þá getur ríkisstjórnin afturkallað ESB-umsóknina án atbeina alþingis.

Samskipti Íslands við Evrópusambandið fara í gegnum stjórnarráðið en ekki alþingi. Mestu skiptir að Ísland sé með formlegum hætti dregið úr aðlögunarferlinu sem hófst 16. júlí 2009 - án þess að raunverulegur vilji hafi verið til þess að Ísland yrði aðildarríki ESB, hvorki á alþingi né meðal þjóðarinnar.

 


mbl.is Eiga ekki að hreyfa við ESB-málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband