Bjarni Ben. er ekki sigurvegari

Ríkisstjórnin er með gjörunna stöðu í ESB-málinu. Nokkrir tugir mótmæla á Austurvelli, RÚV getur ekki lengur kokkað upp fréttir, stjórnarandstaðan gafst upp í nótt og ESB hótar Íslendingum. Borðið er dekkað fyrir sigur stjórnarflokkanna í stórpólitískum prinsippmáli.

Hvað gerir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins? Jú, hann gefur eftir og hvetur andstæðinga ríkisstjórnarinnar þar með til dáða. Þessi sami Bjarni Ben. sem sagði að það væri ómögulegt að halda núverandi ESB-ferli áfram fyrir nokkrum dögum gefur undir fótinn með að ómöguleikinn sé þrátt fyrir allt mögulegur. Áður hét það að breyta þyrfti stjórnarskrá til að ESB-þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram en núna virðist það ekki lengur tiltökumál bjóða frekjufólkinu upp á að fá atkvæðagreiðslu.

Hvað er að Bjarna Ben.? Ætlar hann að sérhæfa sig í að glutra niður unninni stöðu?

Bjarni Ben. er ekki sigurvegari. Við búum á hinn bóginn svo vel að eiga forsætisráðherra sem er sigurvegari. 


mbl.is „Ákallið hærra en ég átti von á“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB hótar; Árni Páll og Össur taka undir

Evrópusambandið stundar skipulegar ofveiðar á fiskistofnum og ætlar í samvinnu við Norðmenn og Færeyinga að stunda rányrkju á makríl til að hindra að Íslendingar fái sanngjarnan hlut í þessum flökkustofni.

Evrópusambandið klæðir rányrkju sína í dulargervi og ætlar í skjóli hótana að kynna makríldeiluna á alþjóðavettvangi sem yfirgang Íslendinga. Aðstoðarmaður forsætisráðherra gefur ágætt yfirlit yfir stöðu makríldeilunnar.

Íslendingar voru búnir að ná samkomulagi við Evrópusambandið, byggt á ábyrgum veiðum úr makrílstofninum, þegar mennirnir frá Brussel sáu sér leik á borði að útiloka Íslendinga frá samningum um flökkustofna á Norður-Atlantshafi.

Það er sérkennilegt innrætið í þeim íslenskum stjórnmálamönnum sem taka undir hótanir Evrópusambandsins gagnvart Íslandi.


mbl.is Krafist refsiaðgerða gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. trúir á ESB-jólasveina

Steingrímur J. Sigfússon tekur skringilega til orða í umræðum um Evrópusambandið. Í þingumræðum, sem Evrópuvaktin greinir frá, segir fyrrum formaður VG

Mitt mat var það að á árinu 2012, a.m.k. langt fram eftir því ári, voru engin þau tímamót uppi sem kölluðu á að endurskoða viðræðurnar, hvað þá slíta þeim. Það var m.a. þannig að allt það ár fram á haust bundu menn vonir við að sjávarútvegskaflinn opnaðist (leturbr. pv). Eitt af mínum fyrstu verkum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2012 var einmitt að fara til Brussel og leggja ekki síst áherslu á það að Evrópusambandið drifi sig í að leggja fram rýniskýrslu sína þannig að við gætum farið í að ræða sjávarútvegsmálin eða sjá a.m.k. á spil Evrópusambandsins í því.

Steingrímur J. talar eins og kaflar í viðræðum við ESB opnist af sjálfsdáðun, sbr. leturbreyttu orðin hér að ofan. Viðræður við ESB ganga ekki þannig fyrir sig. Kaflar eru ekki teknir til umræðu fyrr en ljóst er að pólitískur vilji sé til að komast að niðurstöðu.

Samningamenn ESB vissu að Íslendingar voru ekki tilbúnir að undirgangast sameiginlega fiskveiðistefnu ESB og Íslendingar vissu að Evrópusambandið myndi ekki breyta Lissabonsáttmálanum, þar sem fiskveiðistefnan er meitluð í stein, og því var viðræðum sjálfhætt.

Steingrímur J. gengur í pólitískan barndóm þegar hann ímyndar sér að ESB-jólasveinar eigi í pokanum undanþágugóðgæti handa einfeldningum frá Fróni. 


mbl.is Fundað til hálffjögur í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturgaman ESB-sinna

Þegar hagsmunum Íslands er ógnað af Evrópusambandinu, Norðmönnum og Færeyingum; þegar verkföll og verkfallsboðanir kalla á pólitíska umræðu um laun og efnahagsmál; þegar úfar rísa í alþjóðasamfélaginu vegna deilu Rússa og Úkraínumanna, já, hvað þarf þá stjórnarandstaðan á Íslandi að ræða um fram á nótt?

Jú, afturköllun ESB-umsóknarinnar umboðslausu. Kjósendur drógu tilbaka stuðning sinn við umsóknarstjórn Samfylkingar (12,9 %) og VG (10,9%) með afgerandi hætti við síðustu þingkosningar, fyrir tíu mánuðum, og kusu til valda stjórnmálaflokka sem lofuðu afturköllun umsóknarinnar.

Næturgaman ESB-sinna er á kostnað almennings. Stjórnarandstaðan mun finna fyrir timburmönnum þegar það rennur upp fyrir kjósendum að stefna þeirra er að kyssa á vönd Evrópusambandsins.


mbl.is Kvöldfundur stendur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband