Atvinnuleysi sem hagstjórnartæki

Vill Samfylkingin beita atvinnuleysi sem hagstjórnartæki? En Framsókn? Af ákalli ýmissa samfylkingarmanna og ráðherra Framsóknarflokksins um upptöku evru í stað krónu mætti ætla að hörð nýfrjálshyggja sé komin í öndvegi hjá flokkunum sem einu sinni kenndu sig við félagshyggju.

Í áratugi hefur í orði, en kannski ekki alltaf í verki, verið samstaða um þola heldur verðbólgu og háa vexti fremur en atvinnuleysi hér á landi. Pólitísk sannfæring hefur verið fyrir því að skárra sé að umbera gjaldfellingu myntar en að þúsundir glati sjálfsvirðingu sinni í atvinnuleysi.

Reynslurökin sýna að stefnan var rétt. Þrátt fyrir suður-amerískt verðbólgustig á áttunda áratug síðustu aldar fylgdi hvorki siðferðileg né fjármálaleg spilling, þótt nærri lægi í sumum kreðsum. Það tókst að vinna bug á verðbólgunni með samstilltu átaki þjóðarinnar og við tók, með óverulegum hléum, efnahagsskeið sem enn stendur yfir.

Áhugi á evrunni kom fyrst fram hjá íslenskum stórfyrirtækjum sem eru með verulegan hluta umsetningarinnar erlendis. Hlutabréfalukkuriddarar og málpípur þeirra komu í kjölfarið og eru að undirbúa jarðveginn fyrir afsökunarflauminn sem þjóðin mun heyra þegar harðnar á dalnum og hlutabréfin falla.

Það eru heimildir í lögum fyrir fyrirtæki að gera upp í erlendri mynt. Og þótt þær hafi ekki verið skrifaðar fyrir fjármálafyrirtæki heldur framleiðslu- og þjónustufyrirtæki væri, undir venjulegum kringumstæðum, ekkert tiltökumál að þeir lögaðilar sem þess æsktu gerðu upp í evru, dölum eða yenum.

En kringumstæðurnar eru ekki eðilegar. Efnahagslífið er yfirspennt, vextir eru í hæstu hæðum og kosningar eru í vor. Blandan er býsna eldfim. Til að kvikni ekki á eldspýtunni fyrir slysni er æskilegt að stjórnmálamenn stigi varlega til jarðar í yfirlýsingum um framtíð krónunnar.

Ef íslenska krónan fuðrar upp og við í óðagoti gerðum evruna að lögeyri þá blasir við að vextir sem stýritæki heyra sögunni til. Þegar slakar á þenslunni og hægist svo á atvinnulífinu að lágir vextir verða bráðnauðsynlegir munum við búa við vexti sem ákveðnir eru í Frankfurt, ekki Reykjavík. Og þeir gætu verið mun hærri en svaraði okkar þörfum.

Við þær aðstæður verður atvinnuleysi hagstjórnartæki. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn ættu því að gera hreint fyrir sínum dyrum og tala skýrt um afstöðu sína til gjaldmiðilsins.

Víst er að Samfylkingin þykist hafa það bjargráð að genginni krónu og innleiðingu atvinnuleysis að segja sig til sveitar og ganga í Evrópusambandið. Það þóttu þung spor hér áður að segja sig til sveitar og ekki var risið á þeim hátt sem þvinguðust til þess. Móttökurnar sem við fengjum hjá Evrópusambandinu yrðu hliðstæðar þeim sem ríki Austur-Evrópu fá núna. Yfirlætisfullt klapp á kollinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Góður pistill, ekki einu sinni hægt að gera athugasemd þótt ég vildi.

Kveðja.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 9.1.2007 kl. 16:59

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég hef aldrei skilið afstöðu Sjálfstæðismanna til Evrópusambandsins.Af hverju má ekki sækja um aðild til að fá úr því skorið hver staða okkar gæti verið eftir inngöngu.Af hverju þessi sífelldi ótti við umsókn?Eftir að umræður hefðu farið fram er ég fyrst tilbúinn að taka afstöðu til málsins og þannig held ég að sé um flesta  ábyrga Íslendinga.

Mér sýnist nokkur hluti þjóðarinnar  muni verða að segja sig til sveitar.Hæstu vextir,hæsta matarverðið,mesta verðbólgan í V-Evrópu.Þeir sem hafa tekið húsnæðislán s.l 2-3 ár eru komnir í vítahring,lánin hækka og húsverð lækkar.Íhaldið og V-Grænir eiga góða samleið í EB málunum,með bundið fyrir augun og vilja ekkert vita hvað í boði er.Krónan tifar upp og miður og útflutningsfyrirtækin  fara úr landi,útrásin er algjör.Af hverju skildi það nú vera.

9.1.2007.kl.17.55  

Kristján Pétursson, 9.1.2007 kl. 17:54

3 identicon

Sæll, Páll !

Hörmulegt er að sjá, hvernig komið er fyrir jafn mætum og velmeinandi manni, sem Kristjáni Péturssyni. Hvað finnst honum í vegi fyrir, að við; sem viljum Íslendingar vera, um ókomna tíð höldum okkur algerlega utan við hið nýja Stór- Þýzkaland, eða hina nýju Sovét- Evrópu ? Má benda Kristjáni á þá staðreynd, að á hverju sem dunið hefir, í aldanna rás höfum við komizt af, þrátt fyrir margvíslega óáran. Gott og vel, Kristjáni og mörgum öðrum skefldum löndum okkar, þá er til nokkurt stjórntæki sem heitir þjóðnýting, s.s. á bönkunum og margvíslegri starfsemi annarri, þá allt um þrýtur. Um hina, það er að segja nýkapitalistana (margumtalaða útrásar- og gróðahyggjuliðið) má segja;... farið hefir fé betra, hypji þetta fólk sig héðan af landi brott, hið fyrsta. Hins vegar mætti alveg taka upp Ríkisdali - spesíur og skildinga, sem kastað var fyrir borð, allvíða á Norðurlöndunum árin 1873 - 1874, að mig minnir, í stað gömlu Krónunnnar, mín vegna. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 00:19

4 identicon

Væri það ekki einmitt ágætt ef að stjórnvöld hefðu þetta aðhald og gætu ekki velt afleiðingum sovéska stóriðjubröltsins yfir á almenning í landinu með manndrápsvöxtunum. Talandi um frjálshyggju einmitt, hvar í ósköpunum er orðið af henni hjá Sjálfstæðisflokknum?

Bjarki (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 08:56

5 identicon

Sammála Páli.  Að sama skapi undrast ég að lesa hér komment frá Bjarka og Kristjáni, bæði byggð á einhverjum regin misskilningi.  Bjarki er sennilega einn um það hérna megin 46 litninganna að telja það gott fyrir Ísland að vextir og gengi séu ákveðin í Brussel. Svo hélt ég nú að þessari ræðu hans Kristjáns um að hefja viðræður, skiptast á konfekti og sjá hvar við stöndum hafi löngu verið svarað, bæði hérlendis og af fulltrúum ESB.

Þessi málflutningur var búinn til af Samfylkingunni sem reyndi að fara einhvern milliveg vegna þess að þar vilja menn ganga í sambandið en gera sér um leið grein fyrir því að afgangur þjóðarinnar er ekki það barnalegur. Annað hvort göngum við í ESB eða ekki.

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 13:01

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Gott væri ef þeir ágætu menn Óskar Helgi og Björn Berg svöruðu grein minni málefnalega en ekki með órökstuddu málskrúði.Það sem ég spurði um og hef gert oft áður er af hverju við sækjum ekki formlega um aðild að ESB.svo við fáum úr því skorið,hvort við eigum þangað erindi eða ekki.Það eru hrein ósannyndi að höfum fengið svör frá ábyrgum fulltrúam hjá ESB.Tók kannski einhver mark á rausinu í Davíð,sem sagðist hafa rætt við fjölda ráðhr.hjá ESB.og vita upp á hár hvernig þessi mál stæðu.Við höfum ekki sótt um inngöngu og því engar formlegar viðræður farið fram svo einfalt er það.Meðan svo er getum við ekki tekið endanlega afstöðu með eða móti inngöngu nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.Vona að ég þurfi ekki frekar að endurtaka þetta, enda full matreitt,verði ykkur að góðu.

Kristján Pétursson, 10.1.2007 kl. 15:13

7 identicon

Sælir, Kristján og Páll !

Bið Kristján forláts, gagnvart uppskrúfuðum stíl mínum, má vera að helgist af samvistum mínum við frændfólk mitt og aðra þá, sem fæddir voru á síðasta fjórðungi 19. aldarinnar, þótt vitanlega muni Kristján enn aftar, en ég, eftir tungutaki eldri Íslendinga, enda aldursmunur okkar Kristjáns slíkur. Vil ég, til nokkurs rökstuðnings míns máls, minna Kristján og annað hrekklaust og gott fólk á, að vélar þær, sem forysta Samfylkingarinnar; og svo nokkrir Framsóknarmenn fást nú við, þessi dægrin (og fyrr) í umræðunni, um upptöku Evrunnar í okkar peningakerfi getur ekki verið til annars en stórtjóns, þótt svo ekki væri nema af landfræðilegum og þar með efnahagslegum ástæðum, það er jú sitt hvort; okkar sjávarútvegur og landbúnaður eða þjóðanna á meginlandinu. Bendi Kristjáni jafnframt á hversu komið er fiskimiðunum á Biscaya flóa og Norðursjó, t.d. Hverju mundu þær stöllur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Valgerður Sverrisdóttir, þá Spánverjar og Portúgalar; m.a. , svara; þegar krafa yrði uppihöfð, um ótakmarkaðan aðgang að fiskimiðum okkar ? Minni ennfremur á, við hverja var að etja í þorskastríðunum, jú nokkrar núverandi Evrópusambandsþjóðir. Nefni einnig upphlaupið, í fyrrahaust, þá Einar Kr. Guðfinnsson tók af djörfung og hugprýði ákvörðun um hvalveiðarnar, að nýju. Hverjir andskotuðust þá manna mest út í okkur Íslendinga (fyrir utan nokkrar púðluhunda kerlingar í Bandaríkjunum) jú, jú.......... enn og aftur Brusselsku einkavinir þeirra krata og Framsóknarmanna, þar suður frá. Gæti nefnt fjölda annarra dæma um ofríki gömlu evrópsku nýlenduveldanna gagnvart okkur og öðrum smáþjóðum, í álfunni. En eru okkur þá ekki allar bjargir bannaðar, í framtíðinni ? Nei og aftur nei!!!!!!!!! Fjöldi gagnlegra viðskiptatækifæra munu bíða okkar, jafnt vestanhafs (Norður, Suður og Mið- Ameríka) sem og austur í Rússlandi og Austur- Asíu, sé litið nokkuð langt, inneftir 21. öldinni.

Kristján ! Það er svo kapítuli, út af fyrir sig, að rifja upp þjóðfrelsisbaráttu okkar, sem í raun hóf að örla á, með Upplýsingunni á 18. öld og síðan, þótt deila megi lengi enn, um aðferðafræðina; við endanleg sambandsslit okkar við Dani 1944. Gleymum svo ekki, Kristján, hverjir hafa leikið svo grátt okkar efnahagskerfi, og þjóðlífið sjálft, á undanförnum árum og áratugum, jú það skyldu þó ekki vera þeir innlendu kúskar frjálshyggjunnar og ný-kapitalistanna, óhappamennirnir síngjörnu; Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson og þeirra meðreiðarsveinar, sumir þeirra þó óafvitandi um afleiðingarnar, svo ekki sé nú minnzt á þátt Jóns Baldvins Hannibalssonar. Við þurfum á bezta fólki þjóðarinnar að halda, næstu misserin, óháð flokka pólitík, að halda í því endurreisnar starfi íslenzks þjóðríkis og menningarfs sem framundan er og glottu nú Össur Skarphéðinsson, og aðrir þeir, sem í alþjóðavæðingar damminum svamla.!!!  

Með öðrum orðum, Kristján ! Við eigum ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þurfum ei að hafa þar fleirri orð um.

Mættum þakka fyrir, ef uppi væru nú, á meðal okkar menn, eins og Jón Loftsson í Odda og Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

p.s. Þykist vita, að Björn Berg svari meiningum Kristjáns, svo líki. 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband