Fimmtudagur, 10. desember 2009
Verðmiði Icesave er pólítískur
Alþingi samþykkti Icesave-lög í sumar og þau gilda. Bretar og Hollendingar geta hvenær sem er fallist á Icesave-lögin og málið er dautt. Í lögunum eru fyrirvarar sem eðlilegt er að þjóðin setji. Enginn getur sagt að við ætlum ekki að axla ábyrgð, við höfum samþykkt að virkja ríkisábyrgð á Icesave-reikningum. Einfalt og auðvelt er að útskýra fyrir nágrannaþjóðum okkar að þeir fyrirvarar sem við settum séu gerðir í efnahagslegri sjálfsvörn.
Ef ríkisstjórnin væri í takt við þjóð og þing myndi hún einfaldlega hafa sagt Bretum og Hollendingum síðsumars að þetta sé það besta sem Ísland getur boðið.
Ríkisstjórnin er á hinn bóginn meira í mun að þóknast hagsmunum Breta og Hollendinga. Þess vegna kom ríkisstjórnin með nýtt frumvarp sem afnemur fyrirvara í lögunum frá í sumar. Frumvarpið er pólitísk handvömm sem ríkisstjórnin situr uppi með. Úr því sem komið er verður ríkisstjórnin að falla um leið og frumvarpið.
Verðmiði Icesave er pólitískur og alþjóðleg pólitísk mynt er stjórnarkreppa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.