Staksteinar, Helförin og Palestína

Staksteinar í sunnudagsútgáfunni virðast gefa þeirri hugsun undir fótinn að tilvera Palestínumanna sé á einhvern hátt sambærileg við þjóðarmorð evrópskra gyðinga í seinni heimsstyrjöld. Til skamms tíma var vestrænn almannarómur að Helförin hafi verið einstæður atburður. Á síðari árum er reynt að draga úr sérstöðu Helfararinnar og jafnvel afneita henni sem sögulegri staðreynd, samanber nýafstaðna ráðstefnu í Íran.

Tilefni Staksteina er endurútgáfa á dagbók Önnu Frank sem var drepin ásamt milljónum gyðinga í sérhönnuðum dauðabúðum Þjóðverja í Austur-Evrópu. Dagbók Önnu, sem hún skrifaði í Amsterdam í felum með fjölskyldu sinni, var lengi þekktasta heimildin á Vesturlöndum um að gyðingarnir sem skipulega var smalað saman til útrýmingar voru venjulegt fólk sem lifði hversdagslegu evrópsku lífi þangað til að Helförinni var hrint í framkvæmd.

Í niðurlagi Stakteina segir

Það er svo aftur önnur saga hvað gerast mundi ef Anna Frank gæti nú hitt að máli ungan Palestínuaraba og þau borið saman bækur sínar um það líf sem þeim hefur verið búið.

Jú, það er allt önnur saga í allt annarri bók en þeirri sem fjallar um Helförina. Þjóðarmorðið á gyðingum í seinni heimsstyrjöld er atburður sem mun ekki eiga sér hliðstæðu fyrr en Frakkar söfnuðu saman öllum þeim múslímum sem tækist að klófesta, settu þá í gripavagna og flyttu á afskekktan stað þar sem gasklefar tækju við þeim. Ef Bretar gerðu eitthvað sambærilegt við kaþólikka á Írlandi væri komin hliðstæða.

En staða Palestínuaraba á Vesturbakkanum eða Gaza er í engum skilningi hliðstæða við Helförina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Bjarnason

,,Á síðari árum er reynt að draga úr sérstöðu Helfararinnar og jafnvel afneita henni sem sögulegri staðreynd, samanber nýafstaðna ráðstefnu í Íran."

- sú skoðun, að helförin sé della, er ekki eins útbreidd og jafn mikið áhyggjuefni og afneitun sumra manna á þjóðarmorðum Ísraela! hér með ert þú páll semsagt að verja eitt þjóðarmorð en fordæma annað. Þrátt fyrir að aðgerðir ísraelshers séu ekki jafn villimannslegar og gasklefamorð nazistana er samt um svipaða stefnu að ræða; kynþáttahatursstefnu. Palestínumenn eru myrtir án dóms og laga af ísraelskum aftökusveitum, þeir sæta gengdarlausri kúgun og er haldið í einangruðum gettóum á Vesturbakkanum sem til stendur að aðskilja enn betur með stærðarinnar múr. stærsti munurinn er hinsvegar sá að skipulögð þjóðarmorð ísraelsríkis hafa verið stunduð  í fleiri, fleiri kynslóðir, ólíkt nazistunum í þýskalandi sem höfðu aðeins völd í um áratug.

Egill Bjarnason, 8.1.2007 kl. 01:36

2 identicon

Ég tek undir með þér Páll að staða Palestínumanna er ekki hliðstæð stöðu gyðinga í helförinni. Hinsvegar dapurlega markt líkt með framför Ísraelsmanna gagnvart Palsetínumönnum og framför Nazista gagnvart gyðingum á árunum fyrir stríðið, þ.e. fram að því að Nazistar hófu kerfisvædd fjöldamorð. Þurfa þjóðernisofsóknir að ná sama stigi og helförin til að þú teljir þær gagnrýniverðar?

Georg (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 08:52

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þjóðarmorð er stórt orð sem ætti ekki að gjaldfella. Óhæfuverkin, sem unnin eru á báða bóga í Palestínu og Ísrael, eru ekki þjóðarmorð.

Sennilega er sá tími liðinn að Palestínuarabar og gyðingar geti búið saman í einu ríki sem tvær þjóðir. Tveggja ríkja lausn byggð á landamærunum frá 1967, plús/mínus eitthvað, er líkleg niðurstaða. Þangað til niðurstaða fæst halda drápin áfram. Þau eru jafn sorgleg hvort sem á í hlut palestínskur drengur eða ísraelsk stúlka. 

Páll Vilhjálmsson, 8.1.2007 kl. 23:48

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Egill: Til þess að um þjóðarmorð sé að ræða þarf fyrst að vera um að ræða þjóð. Þjóðin Palestínuarabar hefur aldrei verið til. Þetta er sama fólk og býr í öðrum Arabalöndum fyrir botni Miðjarðarhafsins og hefur enga menningarlega, tungumálalega, trúarlega eða sögulega sérstöðu umfram þær.

Til þess að um kynþáttahatur sé að ræða verður slíkt að beinast að fólki af einum kynþætti af fólki af öðrum kynþætti og beinlínis vegna þess að um tvo kynþætti sé að ræða. Hins vegar vill svo til að bæði Gyðingar og Arabar eru jafnan skilgreindir sem Semítar, s.s. af sama kynþætti. Að tala um kynþáttahatur í þessu sambandi er því álíka gáfulegt og að tala um að Smugadeilan á milli Norðmanna og Íslendinga hafi snúist um slíkt.

Misnotkun á grafalvarlegum hugtökum eins og "þjóðarmorð" og "kynþáttahatur" í pólitískum tilgangi er einungis til þess fallið að gjaldfella þau.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.1.2007 kl. 01:19

5 identicon

Það er alrangt að Anna Frank hafi verið drepin í dauðabúðum í A-Evrópu.

Vissulega var hún send til Auschwitz-Birkenau, en hún var send þaðan til

Bergen-Belsen undir lok stríðsins, þar sem hún dó úr taugaveiki. Rétt skal

vera rétt.

Með kveðju

Guðmundur  Guðjón Hreiðarsson.

Guðm. G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband