Samráðið gegn íslensku bönkunum

Seðlabankar í Evrópu, með þátttöku þess bandaríska, höfðu samráð um að skera á lánalínur til íslensku bankanna og gulltryggðu að Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn myndu falla. Styrmir Gunnarsson heldur þessu fram í nýrri bók um hrunið.

Líkur eru að Styrmir hafi rétt fyrir sér. Íslensku bankarnir voru reknir af mönnum sem ekki kunnu undirstöðuatriði alls bankareksturs. Traust á fjármálastofnun þarf að vaxa í réttu hlutfalli við umsvifin. Íslensku bankastrákarnir voru svo einfaldir að halda vöxtur efnahagsreiknings væri upphaf og endir á bankarekstri. Ofgnótt af ódýru lánsfé skóp útrásina. Traust er ekki hægt að fá út á krít. 

Íslensku bankapiltarnir ýmist keyptu eða hótuðu sér til áhrifa á Íslandi. Erlendis komust þeir ekki upp með slíkar starfsaðferðir. Samráðið gegn íslensku bönkunum voru samantekin ráð heilbrigðrar skynsemi gegn kjánum með fullar hendur fjár en lítið rekstrarvit og ekkert siðvit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samráð er kannski ekki rétta orðið. Ætli þeir hafi ekki bara haft réttar upplýsingar um ástarbréfin og allt ruglið og spillinguna sem var að eiga sér stað innan íslenska bankakerfisins? Alþjóðabankakerfið virkar eins og íslenskt bankakerfi. Allir vita allt um alla. Ef einhver óreiðumaður úr Landsbankanum fer niður í P&Ó, dressar sig í fín svört teinótt jakkaföt, fer svo niður í Íslandsbanka með Taxa. Þá er ekki víst að hann fái góðar trakteringar. Gjaldkerinn getur bara slegið kennitölu mannsins upp og séð að hann er vanskilapési í Landsbankanum. Flottu P&Ó jakkafötin breyta þar engu um.

Sama á við um þessa útrásarkalla. Bankarnir erlendis vissu hvað þeir voru að fást við. Þeir vildu ekki eiga þátt í því. Þess vegna voru lánalínurnar (yfirdrátturinn) felldur niður þegar útséð var með að þeir gátu ekki staðið í skilum lengur. "the rest is history".

 Það ætti að vera öllum skylduefni að horfa á viðtal Boga Ágústssonar við Mats Josefsson, sænska hagfræðinginn sem er búinn að vera hér síðan síðasta haust. Hann leyfði sér að gagnrýna seinaganginn og vitleysuna í ríkisstjórninni í þessu viðtali sl. sunnudag. daginn eftir fékk hann svo þau skilaboð að hans krafta væru ekki óskað. Þetta er maður sem aðstoðaði Svía, Rússa, Kínverja, Tyrki, Filipseyinga og fleiri og fleiri þjóðir út úr þeirra bankakreppum. Josefsson telur að sökin sé fyrst og síðast íslensku bankamannanna. Þetta fór víst eitthvað illa í Steingrím J. Hann vill ekkert með þennan mann hafa.

Mats Josefsson er virtur um heim allan af þeim sem fjalla um þessi mál. Skrýtið að jarðfræðingurinn og gagnfræðingurinn sem stjórna efnahagsáætlunum landsins telji sig ekki hafa gagn af svona flinkum náunga.

joi (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 00:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Borist hafa margar sögur af því hvernig íslensku ungliðarnir í bankabólunni fóru um í öðrum löndum með miklu yfirlæti og hroka gagnvart hinu gamla, gróna og reynslumikla bankaveldi erlendis.

Viðskiptaráð Íslands lýsti því yfir að við stæðum langt framar öðrum Norðulöndum í efnahagsmálum að þangað hefðum við engan lærdóm að sækja.

Það þarf engan að undra að hin "tæra snilld" Icesave-reikninganna hafi ergt Breta og ýmsa erlenda sérfræðinga, sem jafnvel íslenskur ráðherra sagði í barnaskap sínum að þyrfti að fara í endurmenntun!

Í þætti BBC í gærkvöldi kom glöggt fram að lánalínur voru allar stíflaðar í aðdraganda hrunsins, ekki bara línurnar til Íslendinga.

Íslendingar höfðu hins vegar í yfirlæti sínu brotið allar varúðarreglur um bakhjarla ef þannig færi og eini munurinn á aðstöðu Breta og Íslendinga var sá að bankakerfið breska hafði ekki vaxið þjóðarbúi þeirra margfaldlega yfir höfuð eins og hið íslenska.

Ómar Ragnarsson, 20.11.2009 kl. 01:58

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hafa ekki allir lesið lánabók Kaupþings? Þarf nokkuð að fjölyrða um þennan monkey business meir?  Hitt er miklu alvarlegra sem Styrmir hefur eftir Jónasi Fr. " Ef þeir eru ekki að ljúga að okkur?"   Ef hann og aðrir höfðu þær efasemdir í byrjun 2008, hvers vegna var þá allt þetta leikrit sett á svið sem endaði með tæknilegu gjaldþroti Íslands í október 2008?

Ég persónulega tek þessum frásögnum Styrmis með fyrirvara. Þetta lýkist meir varnarriti gamals manns sem átti stóran þátt í falli þjóðar sinnar ef ekki af ásetningi þá af gáleysi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.11.2009 kl. 05:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband