Siðaskrá DV: Frægir blaðamenn en engir eigendur

DV er komið út í nýrri mynd en siglir áfram undir flaggi Baugs. Nýr ritstjóri, Sigurjón M. Egilsson, birtir á heilsíðu siðaskrá blaðsins til að lesendur viti hverju þeir eigi von á. Í slíkri stefnuskrá skyldi ætla að yrði að finna einhver orð um samskipti ritstjórnar og eigenda, einkum í ljósi þess að Baugsmiðlar eru reglubundið nýttir til að þjónusta samsteypuna sem gefur þeim nafn sitt. En DV virðist ætla að fela eigendur sína.

Siðaskráin er í heilum 33 köflum og tekur til aðskiljanlegustu atriða sem koma við sögu í blaðmennsku. Blaðið ætlar að sýna börnum og nýbúum aðgát, ekki vera hlutdrægt, aðgreina auglýsingar og fréttaefni, segja ekki frá sjálfsvígum og fara varlega að fólki sem orðið hefur fyrir áfalli. Ofantalið er í takti við almenn gildi í blaðamennsku.

Sérviska fær líka að fljóta með. Starfsfólk ritstjórnar safnar ekki ólöglega fengnum hugbúnaði í tölvur blaðsins, segir í einum kafla. Ekki er ljóst hvaða erindi svona klausur eiga í siðaskrá, en það skaðar engan að hafa þær með.

Aftur skaðar það almenning, og lesendur sérstaklega, að vita ekki hvaða afstöðu ritstjórnin hefur til eigenda sinna og samskiptin þar á milli. Baugur er eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi og hefur víða hagsmuna að gæta, að ekki sé talað um opinberu sakamálin sem höfðuð hafa verið gegn eigendum Baugs og verða fyrirsjáanlega fréttaefni um langa hríð. Í siðaskránni eru eigendur útgáfunnar ekki nefndir sem slíkir.

Í eigin siðaskrá reynir DV að plata lesendur sína og talar um „helstu aðstandendur blaðsins" í sömu andrá og starfsmennina og reynir að fela mótsagnir sem alvöru fjölmiðlar viðurkenna og reyna að glíma við með því að skilja að hagsmuni eigenda og fagmennsku ritstjórnar. Eftirfarandi kafli verður feitletraður í annálum Baugsblaðamennskunnar á Íslandi.

<> Frægð: Starfsmenn og helstu aðstandendur blaðsins eru ekki frægðarfólk til umfjöllunar í blaðinu.
<>

Hér má spyrja: Hefur einhver haldið því fram að prentblaðamenn séu frægt fólk?

Tilgangurinn með kaflanum er vitanlega að búa DV skálkaskjól til að fjalla ekki um aðstandanda sinn númer eitt, Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs. Hugmyndin er að þegja um Jón Ásgeir en herja á andstæðinga hans, innan og utan réttarsalarins. Þetta er formúla sem þróuð hefur verið á Fréttablaðinu, systurblaði DV.

Til að kóróna þetta andans sköpunarverk sem er siðaskrá DV þá segir í kaflanum um hagsmuni:

Starfsmenn og helstu aðstandendur eru ekki til umfjöllunar í blaðinu nema að sérstaklega gefnu tilefni. Starfsmenn og helstu aðstandendur geta ekki unnið til verðlauna í leikjum á vegum blaðsins.

Viðbót við síðustu setninguna ætti að vera: Nema í feluleikjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi tilgáta þín er ágæt en því miður röng. Samkvæmt því sem ég kemst næst var þessari reglu bætt við skrifaðar eða óskrifaðar siðareglur DV á árunum 1998-1999 þegar á því fór að bera að myndir fóru að birtast oft af ákveðnum ónefndum starfsmönnum Frjálsrar fjölmiðlunar í Dagblaðinu. Einmitt á þeim tíma þegar að SME starfaði þar síðast. Þetta tengist því núverandi eigendum akkúrat ekki neitt.

Andrés (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 17:07

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Ég sé það fyrir mér, að fjölmiðlarnir, eins og við þekkju þá í dag, færist smám saman yfir á Netið.  Bloggið tekur við af "blaðamennskunni" eins og hún er í dag. Einstaklingarnir segja þar sína skoðun óháðir Stóra Bróður.  Fjölmiðlarnir, jafnt frjálsir sem ófrjálsir hafa hreint ekki staðið sig sem skyldi.  Hin "nýja blaðamennska" er eins gamaldags og dagblaðið frá því í gær.   

Júlíus Valsson, 6.1.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband