Mánudagur, 9. nóvember 2009
Ísland, Þýskaland og ESB
Sameining Þýskalands og flutningur höfuðborgarinnar frá Bonn til Berlínar markar tímamót í eftirstríðsárasögu Evrópu. Eftir seinna stríð var álfunni skipt í austur og vestur. Bandaríkin héldu lífi í vesturhlutanum með Marshall aðstoð og hervernd en Sovétríkin réðu lögum og lofum fyrir austan.
Þýska sameiningin og tilfærslan austur á bóginn felur í sér að landpólitík Þjóðverja beinist að gömlum áhrifasvæðum á þar sem núna er Pólland, Eystrasaltslönd, Úkraína, Hvíta-Rússland og sjálft Rússland.
Þýskaland er þungavikt í Evrópusambandinu. Til að auka á austurhneigð Sambandsins eru flest nýlöndin á þeim slóðum; Rúmenía, Búlgaría, Króatía.
Norðurslóðir verða áfram nokkurt áhugamál Evrópusambandsins, einkum vegna auðlinda. Auðvelt er að sjá fyrir sér aðstæður þar sem álitamál í norðri væru til úrlausnar á sama tíma og samskipti í austurvegi væru til umfjöllunar. Í norðri og austri er helsti viðsemjandi Evrópusambandsins sá hinn sami; Rússland.
Í hrossakaupum við Rússland, þar sem annars vegar væru auðlindahagsmunir í norðri og hins vegar togstreita í austri, yrðu íslenskir hagsmunir eins og krækiber í helvíti - ef við létum Evrópusambandið um okkar málefni.
Eitt og sér getur fullvalda Ísland tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um norðurslóðir þar sem Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússland, Kanada og Noregur eiga aðkomu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.