Persónukjör - lærdómur af Nesinu

Seltirningar velja sér bæjarstjórn í dag, þar með talinn bæjarstjóra. Valið fer fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem býr að öruggum meirihluta í áratugi, er ýmist með fjóra eða fimm af sjö bæjarfulltrúum.

Eftir hrun er rætt um að auka persónukjör í stjórnmálum og eru það viðbrögð við tilfinningu margra að flokkakerfið hafi brugðist. 

Á Seltjarnarnesi gengur persónukjörið þannig fyrir sig að fólk gefur kost á sér í prófkjöri. Alls buðu fimmtán sig fram, fjölbreyttur hópur og ágætt þversnið af íbúum sveitarfélagsins. 

Kynning á frambjóðendum er í meginatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi útgáfa. Sjálfstæðisflokkurinn gaf út eitt blað með kynningu á öllum frambjóðendum og þeir hafa sjálfir gefið út dreifirit sem borin hafa verið í hús. Í öðru lagi var einn sameiginlegur fundur í Valhúsaskóla þar sem hver frambjóðandi fékk þrjár mínútur í framsögu. Spurningar voru leyfðar eftir framsögum. Húsfyllir var á fundinum og margvíslegar spurningar bæjarbúa endurspegluðu ólík áhugamál. Það var spurt um dýrahald, íþróttaaðstöðu, fjármál bæjarins, félagslega aðstoð, byggingarleyfi, skólamál og svo framvegis.

Þriðja kynningin á frambjóðendum og jafnframt sú veigamesta er maður á mann aðferðin, í ýmsum útfærslum. Frambjóðendur hringja sjálfir, vinir og fjölskylda er virkjuð til að hafa samband og hvetja til stuðnings. Partý eru haldin og málin rædd á förnum vegi.

Þrátt fyrir alla þessa kynningu þarf íbúi sveitarfélagsins, sem ekki er þess betur innviklaður í félög og áhugahópa samfélagsins, að hafa sig allan við að meta einstaka frambjóðendur og fyrir hvað þeir standa.

Sá sem hér skrifar hefur búið á Seltjarnarnesi í 14 ár og þokkalega fylgst með t.d. í gegnum skólagöngu barnanna og þátttöku í íþróttum. Ef hann væri skráður í Sjálfstæðisflokkinn og gæti tekið þátt í prófkjörinu væri það með mestu herkjum að hann gæti gert upp hug sinn til manna og málefna í prófkjöri.

Niðurstaðan hlýtur að vera sú að persónukjör getur gengið í smærri sveitarfélögum. Í stærri sveitarfélögum og á landsvísu myndi allt það sem heitir málefni víkja fyrir persónum. Og það viljum við ekki.

Í stjórnmálum þarf að vera jafnvægi  á milli málaefnaáherslna og einstaklinga. Stjórnmálaflokkar eru sá vettvangur sem finnur þetta jafnvægi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég lít svo á að þú sért hér að ræða mikilvægt málefni. Ég telað ég geti eins og allir aðrir auðveldlega skilið á milli malefnis og persónu. Það væri erfitt að njóta listar t.d. ef maður gæti það ekki, eins brogaðir og breyskir margir listamenn eru. Ég held að ég sé ekki neitt öðruvísi en annað fólk hvað þetta varðar og alveg jafn hæfur og "ábyrgðarmenn" stjórnmálaflokka til að raða fólki á framboðslista. Það væri mjög undarleg líffræðileg tilviljun ef skynsama fólkið væri allt í ábyrgðarstöðum í flokkakerfinu og bara vitleysingjar utan þeirra. Sú tilviljun yrði amk. ekki rökstudd með afrekum flokkanna síðustu áratugina.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 12:20

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Stefán, væntanlega eru það flokksmenn stjórnmálaflokka sem ættu að velja á framboðslista. Flokksmenn þekkjast og velja þá innan sinna raða sem best eru fallnir til framboðs. Ég veit ekki hvað þú átt við með ,,ábyrgðarmönnum" stjórnmálaflokka. Hverjir eru þeir?

Páll Vilhjálmsson, 7.11.2009 kl. 14:37

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Í fulltrúalýðræði þarf umfram allt að virkja þá sem kunna og þá sem geta.  Ekki einhverja kynjapólitík eða kunningjapólitík eða peningapólitík. Til þess er persónukjör besta aðferðin. Við verðum að treysta því að kjósendur vegi saman málefni og persónur og tryggi þar með kosningu hæfasta fólksins.  Hitt er svo annað mál hvort þessir fulltrúar geti unnið saman eins og hópur eftir kosningar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband