Auðmýkjum múslíma - lærdómur í raunpólitík

Afganistan var ekki nóg, svaraði Henry Kissinger þegar hann var spurður hvers vegna hann var hlynntur Íraksstríðinu, róttækir múslímar auðmýktu okkur 11. september og við urðum auðmýkja þá og senda skýr skilaboð um að við myndum ekki búa við þeirra heimsmynd. Þetta er haft eftir fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna í bók Bob Woodward. State of Denial: Bush at War, Part III.

Blaðamaðurinn Mark Danner gerir úttekt á umræðunni um Írakstríðið í síðasta hefti New York Book Review, dagsettu 21. desember s.l.. Viðhorf Kissinger þykir endurspegla raunpólitík og vera tiltölulega hófsöm miðað við stefnu Bush forseta og ríkisstjórnar hans. Bandaríkjaforseti aðhyllist heittrúarpólitík sem gerir, eða öllu heldur gerði, ráð fyrir innrás, falli Saddams Husseins og endursköpun samfélagsins að bandarísk-vestrænni fyrirmynd.

Innrásin heppnaðist, Saddam féll en síðan fór allt í vaskinn, mest fyrir handvömm Bandaríkjamanna sjálfra. Danner ver drýgstum hluta úttektarinnar í að sundurliða skipulagsleysið og smákóngaveldið í bandarísku yfirstjórninni. Kostulegt dæmi eru hreinsanir á félögum stjórnarflokksins Baath, flokki Saddams. Paul Bremer landsstjóri hafði fyrirskipanir frá Washington um að reka Baath-félaga úr ráðuneytum. Þegar hann ætlaði að loka innanríkisráðuneytinu sagði reyndur bandarískur herforingi að það gæti hann ekki.

- Hvers vegna? spurði Bremer.
- Þú sagðir síðast í ræðu í gær að lögreglan væri mikilvæg fyrir endurreisn Íraks, svaraði Garner herforingi.
- Já, lögreglan er mikilvæg, samþykkti Bremer.
- Lögreglan tilheyrir í heild sinni innanríkisráðuneytinu, sagði Garner, og ef þú lokar ráðuneytinu fara allir heim.
Bremer varð undrandi þegar hann fékk þessar upplýsingar.

Það er ólíklegt að Bandaríkjamönnum hefði tekist að endurreisa Írak að vestrænni fyrirmynd þótt þeir hefðu haft betri áætlun og skynsamara fólk til framkvæmda. Samfélagsgerð verður ekki breytt í einni svipan, breytingar taka áratugi ef ekki aldir. Háleit markmið um að Írak yrði fordæmi fyrir Mið-Austurlönd almennt og leiða til friðar í heimshlutanum voru óraunsæ.

Þá erum við aftur komin að Kissinger og raunsæismönnum. Núna þegar um þrjú þúsund bandarískir hermenn hafa fallið í Írak, álíka og fjöldi þeirra sem lét lífið í árásum öfgamúslíma á Bandaríkin 11. september 2001, að ekki sé talað um tugþúsundir Íraka sem hafa fallið, hverju myndi Kissinger svara ef hann væri spurður af öðrum en fjölmiðlum og gæfi hreinskilið svar: Var þetta nauðsynlegt? (Fjölmiðlasvarið er hér).

Maður sér hann halla sér aftur í stólnum, styðja fingurgómum við fingurgóma og tala letilega  með þýska hreimnum.
- Jú, sjáðu til, þetta eru fórnirnar sem við verðum að færa fyrir frjálst og opið samfélag. Við báðum ekki um 11. september en við urðum að bregðast við. Auðmýkja múslíma meira en þeir auðmýktu okkur. Ef ekki hefðu þeir gengið á lagið og gert meiri óskunda í Bandaríkjunum. En eins og allir vita þá fer lítið fyrir öfgamúslímum hér í landi síðan við fórum inn í Írak.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú meinar 11. sept. ?

Ólafur (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 08:37

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Jú, takk fyrir ábendinguna.

Páll Vilhjálmsson, 5.1.2007 kl. 08:54

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna eru getgátur og spekúlasjónir sem við getum ekki gefið okkur. Fráleitt er, að tilgangurinn að baki innrásinni, eins og hún var hugsuð, hafi verið að niðurlægja múslimi vegna 11. sept., enda er slíkur tilgangur með innrás engan veginn réttlætanlegur.

Jón Valur Jensson, 5.1.2007 kl. 09:41

4 identicon

Sæll. Ég segi nú bara eins og Karíus; "þetta eru slæmir tímar, Baktus bróðir" og þá á ég að sjálfsögðu við þá heimsmynd og þær aðstæður sem við lifum við. Það er hart að segja það en á dögum kalda stríðsins var ástandð svei mé þá bara skárra. Allir vissu nákvæmlega hvað var í gangi, skýrar línur osfrv. Bandaríkjamenn (les: ráðamenn) þjást af því semég kalla Campells-syndrómið, þ.e.a.s. þeir trúa því að hægt sé að flytja út lýðræði a la Ameríka, rétt eins og að blanda Campells súpu og sötra hana í sig. Málið er bara að þessi súpa þeirra er blönduð svo miklu blóði að innihaldið fer gjörsamlega forgörðum. Þetta er sorgleg krossferð sem þessir blessaðir menn standa í. Ég er að vinna með einum Íraka hérna úti og hann er gjörsamlega niðurbrotinn yfir því sem dunið hefur yfir landið og virðist engan endi taka. Þetta innlegg mitt fjallaði kannski ekki beint um það sem þú skrifar í grein þinni, en tengist þó efninu óbeint. Þakkir fyrir skarplega skrifað blogg (sem eru ekki svo ýkja mörg!), en þú mættir kannski segja meira frá sjálfum þér undir fyrirsögninni "Höfundur"!

Kv, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (fyrrv. Pressupenni), Uppsölum, Svíþjóð.

Gunnar Hólmsteinn Árælsson (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 18:52

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Það sem Kisinger er að segja og nær allir sem nenna að hugsa og horfa út fyrir kálgarðinn sem þeir búa í er, einfaldlega það sama og  Churchill sagði og á jafn vel við núna og þá, talaðu mjúklega og berðu stóran lurk. Því fylgir sú kvöð að þú verður að sína að þú sért tilbúinn að beita lurkinum, fyrir því sem þú stendur fyrir og því sem þú getur sætt þig við. Og einhverstaðar segir “þeir sem búa glerhúsum eiga ekki að kasta grjót”.Maggi J

Magnús Jónsson, 5.1.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband