Laugardagur, 31. október 2009
Samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins
Varkár íhaldssemi og áhættusækið frjálslyndi verða pólar í íslenskum stjórnmálum næstu árin. Í flokkakerfinu verður spurt hvort samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins láti af trú sinni eða gangi til liðs við andleg skyldmenni sín.
Varkár íhaldssemi höfðar til stærri hluta sjálfstæðismanna, flestra vinstri grænna og þorra framsóknarmanna. Örlítill minnihluti samfylkingarfólks gæti fundið samkennd með þessum hópi. Varkár íhaldssemi byggir á gildum trúmennsku, ábyrgðar og hófstillingar. Samfélagssýnin er fjölskyldumiðuð, efnahagsviðhorfið er að hafa borð fyrir báru og krefst ráðdeildar en hafnar skuldasöfnun. Utanríkisstefnan byggir á fullvalda Íslandi.
Áhættusækið frjálslyndi er nýjungagjarnt, lætur vaða og skeika að sköpuðu. Frjálslyndið er næmt fyrir tískubylgjum og telur sig ýmist til hægri eða vinstri, eftir því hvaðan vindar blása. Samfélagsvitundin er fjölmenningarleg, efnahagssjónarmið eru afslöppuð og skuldsækin. Áhættusækna frjálslyndið vill Ísland í Evrópusambandið.
Samfylkingin nánast heil og óskipt tilheyrir áhættusækna frjálslyndinu. Finnur Ingólfsson og Björn Ingi Hrafnsson væru líklegir framsóknarmenn í sama liði. Samfylkingararmur Sjálfstæðisflokksins gæti einnig átt samleið. Þar má kalla til Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Guðlaug Þór Þórðarson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Illuga Gunnarsson.
Athugasemdir
Íslensk pólitík þarf endurnýjun og uppstokkun og hún fæst fyrst og fremst með uppgjöri sjálfstæðismanna, þannig að upp rísi nýr frjálslyndur hægri flokkur, sem ekki á þessar djúpu rætur í spillingu Kolkrabbans og peningaaflanna.
Prófkjörin sem flokkarnir hafa notað til að raða á lista hafa líka verið tæki peninga eigenda til að kaupa sér völd og áhrif óháð stjórnmálaskoðunum, Afleiðingin er sú að mikið af hægri sinnuðum frambjóðendum hafa komist inn í raðir framsóknar og Samfylkingar. Þetta fólk þarf að losna við
Framsóknarflokkurinn hefur í dag enga skírskotun í íslenskri pólitík og ætti því að leggja sig niður. Þessir krakkar sem nú eru í forystu þar eru bara þar af persónulegum metnaði án hugsjóna enda lítil tengsl við sveitir landsins
Þessi vinstri stjórn sem nú er að reyna að vinna saman tekst það illa af 2 ástæðum aðallega: 1. hægri öflin í Samfylkingu vilja ekki byggja upp Samfélag réttlætis og jöfnuðar og 2. framsóknarmennirnir í VG þvælast fyrir af sömu ástæðum
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.10.2009 kl. 11:32
Veit ekki betur en að reynt hafi verið að stofna einhvers konar frjálslyndan flokk, hann tapaði öllum sínum þingmönnum sl. vor.
Hjörtur J. Guðmundsson, 31.10.2009 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.