Kratar eru beggja handa járn: Björn, Jón Baldvin og Svavar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra rekur í vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála einn þátt hlerunarmálsins svokallaða, þar sem tekist er á um sögulega túlkun á símhlerunum kaldastríðsáranna. Björn hefur bæði sem dómsmálaráðherra og sérfræðingur í utanríkismálum svarað fyrir málstað hægrimanna í umræðunni og er það eðlilegt. Stórundarlegt er aftur á móti að Jón Baldvin Hannibalsson skuli vera helsti talsmaður vinstrimanna í umræðunni.

Öll kaldastríðsárin var Alþýðuflokkurinn sammála Sjálfstæðisflokknum í utanríkis- og öryggismálum. Jón Baldvin Hannibalsson var sem ritstjóri Alþýðublaðsins, þingmaður og formaður Alþýðuflokksins harðdrægur andstæðingur Alþýðubandalagsins sem vildi bandaríska herinn úr landi og Ísland úr NATO. Hleranir beindust gegn Alþýðubandalagsfólki fyrst og fremst og á starfstíma þess flokks var Jón Baldvin ekki vanur að vanda flokksmönnum kveðjurnar.

Jón Baldvin var ráðherra í þrem ríkisstjórnum samfleytt á árabilinu 1987 til 1995, lengst af sem utanríkisráðherra. Á þeim tíma bar hann ábyrgð á öryggismálum þjóðarinnar og gat ekki annað en vitað um ígildi leyniþjónustustarfsemi hafi hún á annað borð verið til.

Allar líkur eru á að Jón Baldvin hafi gegn betri vitund sett fram ásakanir um að sími sinn hafi verið hleraður. Opinber rannsókn á málinu leiddi ekkert í ljós. Ásökunin tryggði Jóni Baldvini aftur á móti kastljós fjölmiðla og hann nýtti sér það til að eyrnamerkja Sjálfstæðisflokknum almennt, og Birni Bjarnasyni sérstaklega, ábyrgðina á vafasamri starfsemi í þágu öryggismála.

Jón Baldvin var einarður stuðningsmaður NATO og varnarsamningsins við Bandaríkin. Líkleg ástæða fyrir málflutningi Jóns Baldvins undanfarið er að hann vill fjarlægja sjálfan sig og Samfylkinguna frá sögulegri ábyrgð á stuðningi við varnarsamninginn. Utanríkisstefna Samfylkingarinnar er Evrópumiðuð og flokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Björn Bjarnason er aftur á móti á þeim kanti Sjálfstæðisflokksins sem er skeleggastur í andstöðu við að Íslendingar sæki um aðild.

Það gat þó ekki farið svo að tækifærismennska af þessu tagi gæti enst lengi. Undan trúverðuleika Jóns Baldvins fjaraði hratt þegar það var upplýst að hann hafði á sinni tíð sem utanríkisráðherra beðið Róbert Trausta Árnason, fulltrúa Íslands hjá NATO, að kynna sér skjöl austur-þýsku leyniþjónustunnar STASI og grennslast sérstaklega um Svavar Gestsson fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins. Svavar hafði sem ungur maður dvalið stuttan tíma í Austur-Þýskalandi en legið undir ágjöf æ síðan frá Jóni Baldvini og öðrum um að vera útsendari STASI.

Þessi embættisfærsla Jóns Baldvins verður enn aumkunarverðari í því ljósi að Svavar var meðráðherra Jóns Balvins á þessum tíma og kalda stríðinu var lokið með falli Sovétríkjanna. Svavar er núna sendiherra og hefur fátt sagt opinberlega um málið. En hann hefur nýverið sagt sig úr Samfylkingunni og gefur þar með ótvírætt til kynna hvar ábyrgðin liggur á málatilbúnaði Jóns Baldvins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband