Föstudagur, 17. júlí 2009
Eftir svívirðuna
Kaldastríðskynslóð íslenskra vinstrimanna reisti sér bautastein í gær sem verður minnisvarði um stórkostlegustu afglöp sem nokkur stjórnmálahreyfing hefur framið hér á landi. Harmleikurinn er saga um hvernig hégómi og valdaþorsti blindar hugsjónafólk og fær það til óhæfuverka. Eins og i bókmenntum þarf leiðarstef sem bindur flókna atburðarás saman og í tilfelli forystuliðs Vg var það pólitísk blóðskömm.
Rauður þráður í róttækri vinstripólitík allt frá millistríðsárunum er þjóðfrelsið. Við stofnun lýðveldisins náðu forystumenn kommúnista, Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, saman við höfuðpáfa Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Thors, og þeir skrifuðu stjórnarskrá saman að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Helstu andstæðingar lýðveldisstofnunar komu úr röðum Alþýðuflokksins, þar sat t.a.m. á fleti Hannibal Valdimarsson hvers sonur Jón Baldvin reynir enn í dag að koma lýðveldinu fyrir kattarnef.
Viðhengi við þjóðfrelsisbaráttuna voru nærtækar alþjóðlegar hugmyndir eins og kommúnismi, sósíalismi, félagslegur jöfnuður, kvenfrelsisbarátta, þriðjaheims-samúð og nú síðast umhverfisvernd. Stærstu sigrar róttækra vinstrimanna voru í sjálfstæðisbaráttunni. Lúðvík Jósepsson, síðar formaður Alþýðubandalagsins, skrifaði sem sjávarútvegsráðherra undir reglugerð um útfærslu landhelginnar í 12 mílur árið 1958. Alþýðubandalagið var aftur gerandi þegar landhelgin var færð út í 50 mílur árið 1972.
Herseta Bandaríkjamann á Keflavíkurflugvelli var fleinn í holdi róttækra þjóðfrelsissinna. Kvislingarnir í Alþýðuflokknum voru aftur áköfustu kanadindlar landsins. Valdahlutföll milli þjóðernissinna og kvislinga á vinstri kanti stjórnmálanna voru öll lýðveldisárin þau að þjóðernissinnar voru ávallt stærri. Krötum sveið þetta og er leið að reglulegri uppstokkun í vinstrihreyfingunni um nýliðin aldamót átti að einangra harðasta kjarnann í róttækra vinstrinu í áhrifalitlum smáflokki upp á fimm til sjö prósent.
Daginn sem síðasti landsfundur Alþýðubandalagsins var haldinn, haustið 1999, sendi Össur Skarphéðinsson þingmaður Alþýðuflokksins þá kveðju úr þingstól Alþingis að nýr flokkur sameinaðra vinstrimanna myndi stefna á inngöngu í Evrópusambandið. Þetta var rauða dulan sem tryggði að vinstrimenn yrðu áfram klofnir í þjóðernissinna og kvislinga.
Þegar Vinstrihreyfingin grænt framboð er stofnað fyrir áratug eru Ameríkanar að tygja sig til brottfarar af Miðnesheiði en orðræða fullveldis fékk strax nóg verkefni í átökum við ágenga Evrópusinna í Samfylkingunni.
Steingrímur J. Sigfússon stofnaði Vg. Hann er lærisveinn Svavars Gestssonar fyrrum formanns Alþýðubandalagsins. Meðstofnandi Steingríms er Ögmundur Jónasson sem Svavar fékk sem óháðan frambjóðanda á lista Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Helsti handlangari Steingríms J. er Árni Þór Sigurðsson sem var í sama hlutverki hjá Svavari Gestssyni. Álfheiður Ingadóttir var eins og faðir hennar samverkamaður Svavars til margra ára. Dóttir Svavars er Svandís sem er umhverfisráðherra og gerði grein fyrir atkvæði sínu í gær: Ég er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu en segi samt já við ályktun um aðildarumsókn. Og já, Svavar er handvalinn formaður Steingríms J. í samninganefndinni sem sá um Icesave.
Staðan er þessi: Lítil lokuð klíka stal og misþyrmdi arfleifð róttækra þjóðfrelsisstjórnmála á Íslandi. Búið er að geirnegla að Vg verði áhrifalaus krypplingaflokkur með fimm til sjö prósent fylgi. Engin furða að Össur tók sér frí í gær til að hlægja sig máttlausan.
Athugasemdir
Takk fyrir þessa pisla - skynja að þú sért ósáttur, jafnvel reiður. Það var nú einungsi verið að gefa leyfi til að skoða málin og fara í viðræður, þ.e. skoða hvað þessi samningur hefur að bjóða. Síðan gerum við ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar málin fara að skýrast.
Sverrir (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 10:33
Hægri flokkarnir undir dyggri stjórn Íhaldsins hafa náttúrulega haldið svo svakalega vel á spöðunum hér undanfarna áratugi að allt er hér í blóma. Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins er gert eitthvað sem getur komið landinu upp hjólförum ömurlegra stjórnmála og þá stökkvið þið hægri öfgamenn upp til handa og fóta. Það væri gaman að vita við hvað þið eruð hræddir, hvað það er sem fær ykkur til að láta eins og himinn og jörð sé að farast. Eins og ég sagði áðan þá er náttúrulega allt hér í lukkunnar velstandi eftir ykkar stjórn.
Páll Valur Björnsson (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 11:15
Það má vera að "þjóðin" hafi veið frjáls í þeim skilningi sem öfgaþjóðernissinnar leggja í orðið en fólkið í landinu fékk ekki frelsi fyrr en með EES samningnum þegar endanlega voru afnumin mörg af þeim höftum sem stjórnmálamenn sem eru Páli líklega mjög að skapi lögðu á fólkið í landinu.
Ég mæli með því að þú lesir Sjálfstætt fólk ef þú hefur ekki þegar gert það. Bjartur er þjáður af nákvæmlega sömu ranghugmyndum um frelsi og sjálfstæði og þú.
Dude (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 12:03
Óttalegt kjaftaedi er thetta í thér Palli. Thú fretar úr thér órökstuddum stadhaefingum ótt og títt eins og grádugur einstaklingur rekur vid eftir ad hafa étid fimm djúpa diska fulla af baunasúpu.
Nei elsku kallinn minn...ég held thú aettir ad taka thér frí frá blogginu í mánud eda svo og íhuga thad ad leggja alveg nidur thessar illa yfirvegudu og algerlega órökstuddu faerslur thínar.
Med vinsemd og virdingu,
Goggi
Goggi (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 13:06
Ég fæ ekki betur séð en að Páll Vilhjálmsson sé búinn að átta sig á að VG er svavarsvæddur flokkur. Vonadi að sem flestir komi auga á þá óheillaþróun.
Hvaða fólk í landinu fékk fyrst frelsi með EES-samningnum? Ekki var það svokallaður ,,almenningur" svo mikið er víst.
Í dag njótum við þessa undursamlega ,,EES-frelsis" í formi Icesave-skulda og annarra efnahagslegra drápsklyfja, sem sannarlega eru skilgetin afkvæmi EES-samningsins alræmda.
Að draga karlinn Bjart í Sumarhúsum fram sem röksemd fyrir nauðsyn á fullveldisframsali er að mínu mati hrein og bein heimska.
Jóhannes Ragnarsson, 17.7.2009 kl. 13:35
Ég tek fram að ég er hlynntur ESB aðild.
En mér finnst þessi grein frábær, afar vel skrifuð.
Mikið væri gaman ef maður fyndi fleiri skrif af slíku kalíberi á blogginu.
Karl (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 15:39
Ég get alveg skilið löngunina í framhald kaldastríðsins sem er rómatísk, nostalgísk löngun í svart hvítan heim en ég get ekki skilið þetta fullveldisframsalskjaftæði. Getur einhver ykkar bent á hver birtingarmynd fullveldiskerðingar Dana, Breta, Finna, þjóðverja, Ítala, Spánverja, Portúgala og Frakka er. Í hverju birtist hún? Hvernig lítur það ok út sem íbúar þessara landa ganga undir. Her andsk..... er að því að búa við verðstöðugleika, lágt matarverð og lága vexti. Ætlið þið enn eina ferðina að henda ykkur á teinana til að verja hagsmuni kúgara ykkar; bændurna sem breytt hafa vistaböndunum ykkar í framfærslugreiðslur sem aukast með umsvifum bóndans og útgerðarmannanna sem krefjast ókeypis afnota af fiskimiðunum og veðsetja þau síðan eins og ehf-liðið gerðitil að safna sjóðum erlendis. Segir það ykkur ekkert að þið standið núna við hlið varðhunda auðvaldsins. Kommúnisminn er dauður, Kapitalisminn er dauður og það sem felldi þá félaga var heimur án landamæra, þar er framtíðin. Ekki inni á öræfum með Bjarti þó rómantískt sé.
Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 16:09
Heyr, heyr:
http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 22:59
Þar sem þú talar um „svívirðu“ leyfi ég mér að segja það hreint út Páll að þú ert svívirðilega ósannsögull. Þú veist t.d. svo mæta vel að engir Alþýðuflokksmenn voru á móti lýðveldisstofnun þó einhverjir vildu bíða styrjaldarloka sbr. hér:
„25. febrúar - Alþingi samþykkti einróma að sambandslög milli Íslands og Danmerkur væru fallin úr gildi“.
EINRÓMA merkir án andstöðu.
Það voru hinsvegar deildar meiningar um hvort framhaldið yrði fyrir eða eftir styrjaldarlok - ekki um stofnun lýðveldisins og lok tímbils sambandslaganna sem tryggðu okkur fullveldi frá 1. des 1918 og geta sjálf 25 árum seinna ákveðið að verða lýðveldi.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.7.2009 kl. 00:13
Sigurður, spurðu sjálfan þig hversvegna 27 Evrópuríki eru í ESB og 5 bíða eftir að komast inn, á sama tíma og við erum næsta ein eftir í EFTA (samt ágæt samtök) sem felst ríki sem þar voru hafa yfirgefið. - Varla er ESB verra en svo.
Mikið væri gaman að menn einfaldlega litu til reynslu og veruleika annarra Evrópuríkja - það þarf ekkert að láta hræðsluáróðurs-bullara segja sér neitt um það sem við blasir af raunveruleikanum.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.7.2009 kl. 00:34
Frábær samantekt alveg brilliant, enda virkar hún
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 00:39
Loks þetta: Þjóðernishyggja er andstæð Marxisma, kommúnisma og sósíalisma, enda hinn versti þyrnir í augum Karls Marx eins og oft kom fram í orðum hans og skrifum.
Comintern leyfði hinsvegar kommúnistaflokkum nýlenduþjóðanna sem jafnan voru þriðja heims ríki og hernuminna þjóða að berjast fyrir „þjóðfrelsi“ og lagði þeim til vopn og verjur í þeim tilgangi. Það hafði t.d. aldrei gilt um neina þjóð Sovétríkjanna, Að lokum skyldu ríkin líka í staðin gerast hluti af Sovétheildinnii. Á þeim forsendum leyfði Comintern Kommúnistaflokki Íslands að nýta þjóðernishyggjuna sem annars var forboðin, þ.e. við vorum nýlenduþjóð og svo hernumin þjóð í þeirra augum.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.7.2009 kl. 00:46
Þessa setningu Páls þarf hreinlega að stækka og ramma inn:
„tryggði að vinstrimenn yrðu áfram klofnir í þjóðernissinna og kvislinga“
Þetta er í huga Páls lýsingin á skiptingu visntri manna í VG og Samfylkingu.
Hann sleppir því auðvitað alveg að þjóðernishyggja er ekki vinstri neitt og sérstaklega ekki ef hún er gerð að aðalatriði og tekin framfyrir félagshyggjuhugsjónir um velferð, jöfnuð og jafnrétti, það er einfaldlega klár fasismi - ekki vinstri neitt.
Þjóðernishyggja er krafa um mismunun, að einn hópur manna (þjóð) sé öðrum mikilvægari og æðri. - Þjóðernissinum finnst eðlilegt að þeir sjálfir og þeir sem þeir sjálfir telja til þjóðar sinnar séu undanskyldir samráði við aðra utan hópsins um ákvarðanir, kröfur um réttindi og skyldur annarra og skyldum við stærri heildir. - EN þeir vilja að stærri heildir fari að þeirra dyntum, og að þeir eigi rétt hjá öðrum sem þeir vilja ekki veita hjá sér.
Þjóðernisshyggja er ekki vinstri neitt heldur öfga hægri - eitt land, ein þjóð, einn foringi.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.7.2009 kl. 01:17
Annars svona fyrir þá sem nenna að kynna sér aðeins átök lögskilnaðarmanna og hraðskilnaðarmanna fyrir lýðveldistökuna 1944 þá kannski kemur það sumum á óvart að Sveinn Björnsson ríkisstjóri og svo fyrsti forseti lýðveldisins Íslands var lögskilnaðarmaður ásamt einnig Birni Þórðarsyni, forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar. Má lesa merka BA ritgerð um Svein Björnsson hér [smella] og svo er eftirfarandi hér á Huga. Svona svo mönnum verði ljóst að engir deildu um hvort Ísland ætti að nýta sér ákvæði sambandssáttmálans frá 1918 um fullan aðskilnað frá Danmörku og stofnun lýðveldis í stað konungsveldis 25 árum seinna þ.e. eftir 1. desembar 1943. Úr Huga er eftirfarandi:
Hér eru engir sem ekki vildu aðskilnað við Dani og stofnun lýðveldis enda þeir ekki til.
Annað er svo hvað „fullvalda Ísland“ merkir. Ísland varð fullvalda 1. desember 1918 þó Danir önnuðust áfram utanríkismál Íslands, hæstiréttur væri hæstiréttur Dana, Danir önnuðust landhelgisgæslu okkar og danski konungurinn þyrfti að staðfest samþykktir Alþingis svo frumvörp yrðu að lögum og þjóðhöfðingi okkar var konungur Dana. - En þannig varð ísland samt „fullvalda“ samkvæmt skilgreiningu 1. des 1918.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.7.2009 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.