Timburmenn útrásarinnar

Útrásin skildi eftir sig sviðna jörð. Þar sem áður var boðlegur rekstur er skuldafjall sem enginn vill snerta; þar sem áður var traust ríkir tortryggni. Á tímum útrásar gat hvaða fífl sem er gengið inn í banka og fengið peninga út á loftkastalarekstur. Bankar sáu í gegnum fingur sér þegar hverskyns æfingar voru gerðar með bókhald fyrirtækja til að fegra stöðuna, enda bankarnir sjálfir í þeim leik.

Lánsfé er til í íslenskum bönkum en traustið sem er forsenda fyrir lánum til atvinnureksturs er ekki fyrir hendi. Ormahreinsun atvinnulífsins gengur líka hægt. Þau eru töluvert mörg fyrirtækni sem eiga enn eftir að fara á hausinn og farið hefur fé betra.

Ríkisvaldið gerir lítið sem ekkert til að liðka fyrir og auðvelda nýjum aðilum atvinnurekstur. Nýliðun í atvinnurekstri er nauðsynleg vegna ónýta liðsins sem kunni ekki fótum sínum forráð á veltiárunum. Nærtækt væri að ríkisvaldið beitt sér fyrir þjálfun, leiðsögn og lítilsháttar fjárstuðningi við starfsfólk fyrirtækja sem vill halda starfsemi áfram sem eigendur hafa kollsteypt. Til að hleypa átaki af þessu tagi af stokkunum þarf pólitíska hugsun og framkvæmdavilja.

Eftirhrunið gæti dregist á langinn ef þeir sem ábyrgð bera stunda reddingapólitík og föndra við altækar lausnir eins og aðild að Evrópusambandinu en láta annars reka á reiðanum. Altækar lausnir í stjórnmálum eru rangar vegna þess að þær mæta ekki fjölbreytileika mannlífsins.


mbl.is Aðgangur að lánsfé lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sammála þessu,  stórfyrirtækisrekstur í heiminum hefur sannað ógildi sitt.  Á ákveðnum punkti verða þessi fyrirtæki afætur og vinna loks samfélaginu stórkostlegt tjón, þegar þeir koma skríðandi á þyrlunum sínum til að grenja út bail out.

Þarf að hlúa að sprotunum, minna er meira. 

Úr pistli mínum um Kanada og EFTA

Lítil og meðalstór fyrirtæki sem skv. skilgreiningu í Kanada eru fyrirtæki með færri en 100 starfsmenn eru samtals rúmlega 1 milljón eða 98% af öllum fyrirtækjum í Kanada.    Þessi þróun  er meðvituð og studd dyggilega af ríkis og fylkisstjórnum. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa líka um 80% allra nýrra starfa, og njóta því sérstakrar velvildar Ríkisins, sem leggur áherslu á að búa þessum fyrirtækjum hagstæðara skattaumhverfi og reynir að draga úr íþyngjandi reglum, sem annars gilda hjá „stórfyrirtækjunum“.     

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.7.2009 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband