Mánudagur, 6. júlí 2009
Raðbilun í dómgreind Steingríms J.
Eftir nýliðnar kosningar hafði Steingrímur J. Sigfússon öll tromp á hendi. Hann og Vinstri grænir voru þeir einu á Alþingi með hreint sakarvottorð eftir útrásaráratuginn. Steingrímur J. var potturinn og pannan í starfsstjórninni fyrir kosningar og sannaði sig á fáum vikum sem kunnáttumaður í pólitísku handverki.
Dómgreindin sveik Steingrím J. fyrst í kosningabaráttunni. Þegar hann sá að grillupólitík Samfylkingarinnar um að innganga í Evrópusambandið yrði allra meina bót náði flugi, ekki síst fyrir tilverknað manna eins og Benedikts Jóhannessonar, átti formaður Vinstri grænna að spyrna við fæti og ráðast á loftkastala aðildarsinna. Hann lét það ógert og beitti varnarviðbrögðum sem fólust í að róa stuðningsmenn Vinstri grænna um að flokkurinn myndi ekki svíkja gefna stefnu um að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins.
Varnarviðbrögð við stórfelldum blekkingum Samfylkingar voru kolröng. Steingrímur J. gaf Samfylkingunni eftir sviðið. Í stjórnarmyndunarviðræðum var frumkvæðið í höndum Samfylkingarinnar sem las formann Vinstri grænna þannig að honum langaði svo óskaplega í ráðherradóm að kokið væri nógu vítt til að gleypa inngöngu í Evrópusambandið.
Steingrímur J. gerði stærstu mistök síns pólitíska lífs með því að samþykkja að ríkisstjórn Vinstri grænna sækti um aðild að Evrópusambandinu. Umsókn beinlínis æpir gegn öllum grundvallargildum Vinstri grænna og svipti flokkinn í einu vetfangi því dýrmætasta sem stjórnmálaflokkur á, trúverðugleikanum.
Þriðja dómgreindarbilun Steingríms J. er Icesave-samningurinn. Þar er formaður Vinstri grænna kominn í það hlutverk að spá heimsendi á Íslandi ef ekki verður skrifað upp á hörmungarsamning sem gerður var í kyrrþey og átti að smygla í gegnum Alþingi undir leyndarhjúp.
Tækifærið sem Steingrímur J. Sigfússon hafði til að verða að kafla í stjórnmálasögu lýðveldisins er tapað. Þegar til átti að taka reyndist Steingrímur J. svikul heybrók og verður sem slík neðanmálsgrein.
Athugasemdir
Góð stjórnmálagreining, Páll Vilhjálmsson!
Jón Valur Jensson, 6.7.2009 kl. 01:42
Algjörlega ósammála Páll.
Þótt ég geti seint talist vinstrisinnaður eða mikill stuðningsmaður VG þá get ég ekki betur séð en að Steingrímur sé að vaxa sem stjórnmálamaður.
Hann er núna með í fanginu djöfullegan Icesave pakka og hefur greinilega ekki notið bestu ráðgjafar.
Allt slektið sem kom að þessum málum á fyrstu vikum hrunsins skildi eftir heilmikinn skítahaug.
Steingrímur virðist vera að reyna að spila úr þessu dæmi eftir bestu vitund en líkt og hann hefur sjálfur sagt er þetta ömurlegt.
Icesave verður að leysa og það fljótt, samningurinn er bastarður en enginn hefur enn komið fram með raunverulega lausn, skoðanir eru skiptar.
Það eru nánast allir sammála að Icesave er klúður, sama hvort um er að ræða aðkomu fyrrum stjórnenda Landsbankans, fyrri ríkisstjórnar, FME eða samninganefndar.
Maður fær hroll við að sjá og lesa yfirlýsingar þeirra sem næst stóðu málum en vilja nú ekki kannast við neitt,- þvílíkt ábyrgðarleysi.
Í stað þess að vinna saman að lausn eru allir komnir í skotgrafirnar og byrjaðir að gjóa augunum að ráðherrastólum og láta sig dreyma um aukin völd.
Þetta er bæði aumkunarvert og háskalegt á sama tíma.
Mistökin sem Steingrímur og reyndar Jóhanna hafa gert eru að halda upplýsingum of nærri sér og jafnvel leyna. Úr þessu eru þau greinilega að reyna að bæta en hugsanlega er það of seint.
Varðandi ESB þá má segja að svipuð staða sé uppi. Hver höndin er upp á móti annarri. Umsókn eða ekki umsókn að ESB aðild gengur þvert á flokka. Þjóðin er algjörlega klofin í þessu máli.
Eina lausnin til að loka þessum ágreiningi og koma á friði í samfélaginu er að þjóðin fái að kjósa um aðildarsamning í þjóðaratkvæði.
Felli þjóðin samninginn þá gott og vel, friður kemst á næstu 10-15 árin, verði samþykkt þá taka menn afleiðingunum slæmum sem góðum.
Ef ég hef lesið afstöðu Steingríms og nokkurra annarra VG liða rétt þá vilja þau einfaldlega að lýðræðið fái að njóta sín, forsjárhyggja pólitíkusa og lobbýista sem vilja stýra umræðu að eigin geðþótta gengur ekki lengur.
Almenningur á Íslandi eru engir asnar og geta (þó svo að við höfum verið göbbuð af útrásarliðinu) metið eigin hag óháð sjálfskipuðum sérfræðingum úr öllum flokkum.
En auðvitað er þetta allt bilun, spurningin er hins vegar hverjir voru valdir að biluninni.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 12:07
Ég hef grun um að ástand þjóðarbúsins sé miklum mun verra en ríkisstjórnin vill vera láta. Spurning hversu margir átta sigg enn á því. Nýjustu tölur um erlendar skuldir benda til þess að við séum í raun þegar gjaldþrota.
AGS og ESB gera sér væntanlega grein fyrir þessu, sem og einhverjir ráðherrar og embættismenn. Lausnin sem stjórninni hefur verið boðið upp á er að samþykkja möglunarlaust Icesave samkomulagið og sækja umsvifalaust um aðild að ESB. Þess vegna er þessi mikla pressa á að klára bæði málin í júlí, áður en vitneskjan um greiðsluþrot þjóðarinnar verður almenn.
Mín skoðun er sú að Steingrími hafi einfaldlega verið stillt upp við vegg, líklegast fyrir kosningar, og gefnir tveir kostir.
1. Að upplýsa þjóðina (og umheiminn) um stöðuna og hætta þar með á umsvifalausa gjaldfellingu erlendra skulda ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.
2. Þegja um málið, kokgleypa allar fyrri yfirlýsingar, samþykkja ESB umsókn og treysta því að AGS og ESB hjálpi okkur á fæturna aftur þegar því er lokið.
Mér sýnist hann hafa valið kost 2.
Sigurður (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 12:38
Um Steingrím má segja núna eins og svo marga á undan honum: Sekur flýr þó enginn elti.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 12:44
Ég er algerlega ósammála þér Jóhann Kristjánsson og, í aðalatriðum, sammála greinarhöfundi í greiningu hans. Aðal meinlokan, varðandi Icesave er þessi: "Icesave verður að leysa og það fljótt", það liggur ekki lífið á; það er blekking sem verið er að beita Íslendinga til að keyra okkur út í horn og samþykkja eitthvað í flýti. Þvert á móti - svona miklar skuldbindingar MÁ ALLS EKKI SAMÞYKKJA Í HASTI!.
Síðan varðandi afstöðu VG til ESB aðildarumsóknar. VG gaf sig út fyrir það (rækilega samþykkt á landsfundi VG) að vera valkostur kjósenda, altso þeirra sem ekki vilja aðildarviðræður. Það er prinsipp atriði vegna sjálfstæðis og tortryggni á yfirvald ESB, í raun framsal fullveldisins; og þá gildir einu hvort við fáum "góðan" samning eða "slæman". Þegar menn kusu VG lá þessi afstaða flokksins fyrir, að víkja frá þessu er ekkert annað en svik við kjósendur flokksins.
Það kæmi mér ekki á óvart að eftir stjórnaslit (hvort sem þau verða í lok kjörtímabils eða ekki) komi sama vælið upp hjá þingmönnum VG og Samfylkingarþingmönnum eftir samstarf þeirra við Sjálfstæðisflokkinn: "Við gáfum of mikið eftir í okkar stefnumálum".
Þór Ludwig Stiefel TORA, 6.7.2009 kl. 13:36
Páll er konungurinn, aðrir komast þar hvergi nærri þó Jón Valur reyni sem best hann getur. Merkilegt hvað það einkennir þjóðernishyggjuna í öllum löndum að menn telja hana helga hvaða meðöl sem er.
Helgi Jóhann Hauksson, 6.7.2009 kl. 14:20
Páll það má reyndar bæta einhverjum frekar mistökum við.
1. Steingrímur fjallaði ekki um þann vanda sem íslensk þjóð þarf að glíma við, eða þær lausnir sem hægt væri að grípa til. Þegar hann var sakaður um að vilja hækka skatta þá mótmælti hann harkalega, sem verður nú vandræðalegt.
2. Steingrímur ákveð að byggja kosningabaráttuna á slagorðum, nýfrjálshyggju, og græðgisæðingu, í stað þess að ræða þá stöðu sem upp var komin.
3. Steingrímur var í bráðabirgðastjórn, og þegar tíminn er skoðaður frá vordögum, kemur í ljós að tíminn hefur verið afar illa nýttur.
4. Steingrímur fékk það hlutverk að velja í samninganefndina um Icesave, nú þykir það val ekki ásættanlegt.
5. Þegar niðurstaða loks lá fyrir, voru upplýsingar á afar skornum skammti bæði fyrir þingheim og almenning.
6. Þegar Steingrímur er kominn í stjórn, er hörð gagnrýni hans á málefni rifjuð upp, og þá kemur í ljós að túverðuleiki hans hefur beðið hnekki. Málefnaleg stjórnarandstaða er ekki að gagnrýna allt af hörku, heldur það sem þú munt ekki framkvæma ef þú kemst til valda.
7. Ef hann samþykkir ESB umsókn, er hann endanlega búinn að vera.
Samt sem áður hafði ég talsverða trú á Steingrími. Hann er bara í vonum félagskap með Samfylkingunni, sem í stað þess að berjast fyrir hugsjónum jafnaðarmanna, farið í krossför fyrir ESB. Krossför sem er dæmd til þess að mistakast. Það að samþykkja Icesave er ein leiðin til þess að þóknast ESB, jafn vonlaus og það var að mýkja Bandaríkjamenn með því að samþykkja innrásina í Írak.
Sigurður Þorsteinsson, 6.7.2009 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.