Smáatriðin koma upp um Björn Inga

Í dag hefur geisað borgarastyrjöld hér á blogginu í framhaldi af Kastljósþætti Sjónvarpsins í gær um mannaráðningar hjá Reykjavíkurborg. Einstaklingar úr Framsókn og Samfylkingu takast á en heróp heyrast líka frá öðrum bæjum.

Í Kastljósinu tókust þeir á borgarfulltrúarnir Björn Ingi Hrafnsson og Dagur B. Eggertsson um ráðningasamninga sem pólitískir samherjar Björns Inga höfðu gert við Reykjavíkurborg. Nefndir voru til sögunnar Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi Björns Inga og Pétur Gunnarsson.

Björn Ingi tók þann kostinn að grípa til vopna og hafa í frammi gagnásakanir á hendur Degi og þáttarstjórnanda. Þessi baráttuaðferð getur verið árangursrík í stuttum sjónvarpsumræðum því bæði fipar hún andstæðinginn og drepur umræðunni á dreif.

Birni Inga tókst hvorutveggja og var krýndur sigurvegari sjónvarpsatsins af ekki ómerkari manni en Birni Bjarnasyni bloggara og dómsmálaráðherra.

Átökin í sjónvarpssal eru aftur á móti aðeins hismið utan um kjarna málsins sem er þessi: Telur Björn Ingi sig sekan um að hafa misnotað aðstöðu sína sem borgarfulltrúi til að hygla flokksbræðrum sínum?

Undir miðnætti í gær birti Björn Ingi bloggfærslu um sjónvarpsþáttinn. Stærsti hluti færslunnar var tilvitnun í blogg Björns Bjarnasonar. Niðurlagið gefur hins vegar innsýn í huga manns sem veit að hann er sekur.

Ég hef satt að segja lítið gaman að því að ræða stjórnmál á slíku plani og hef ekki haft frumkvæði að því. Ég hef miklu fremur áhuga á að leysa verkefni stjórnmálanna í góðri sátt og tek dæmi af frístundakortinu sem varð til í samráði allra flokka og er eitt mesta framfaramálið í borginni um langt árabil. Ég tel að þannig ættu stjórnmálin fremur að vera, frekar en dylgjum og skeytasendingum manna í millum. Það gefur ekki góða mynd af stjórnmálunum.

Hvers vegna tók Björn Ingi þátt í sjónvarpsþættinum á þeim nótum sem hann gerði en frábiður sér engu að síður umræðu á „slíku plani"? Jú, vegna þess að valið stóð á milli þess að viðurkenna mistök og taka út þá refsingu sem því fylgir, þ.e. trúverðugleikamissi, og hins að standa keikur og þverneita fyrir minnstu misgjörð.

Björn Ingi veit það einn hvort vörnin fyrir mannaráðningunum hafa verið svo gersamlega töpuð fyrirfram að eini kosturinn í stöðunni hafi verið gagnásakanir.

Næsta bloggfærsla borgarfulltrúans ítrekar sektina sem hann glímdi við kvöldið áður. Þá er Björn Ingi mættur til messu og notar trúræknina eins og viskustykki til að fægja burt sálarbletti sem hann sullaði á sig sjálfur.

Hvar stendur svo Björn Ingi Hrafnsson í hinu pólitíska litrófi? Einhvers staðar á milli Össurar Skarphéðinssonar og Árna Johnsen.

Birni Inga er óhætt að spá frama í íslenskum stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein Páll. Það má þó bæta við að við íslendingar eigum einn gráðugasta og valdasjúkasta stjórnmálamann síðari tíma, Björn Inga Hrafnsson. Síðustu dæmin um græðgi þeirra Óskars Bergssonar eru bara toppurinn af ísjakanum. Það verður að takast að koma þessu innihaldslausa einkavinasambandi frá í eitt skipti fyrir öll.


 

Óli (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband