Mánudagur, 15. júní 2009
Sjálfstæði smáþjóða og sameiginlegt forræði Evrópuþjóða
Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er stórt skref að taka og hefur víðtækar afleiðingar bæði til skamms tíma og til framtíðar.
Skammtímaáhrif aðildarumsóknar verða þau að þjóðfélagið mun loga í illdeilum þar sem stórfelldir þjóðarhagsmunir eru í húfi. Í stjórnmálasögu lýðveldisins er aðeins eitt mál sem kemst í hálfkvisti við umræðuna um aðild landsins að Evrópusambandinu og það er herstöðvarmálið og innganga Íslands í Nato um miðbik síðustu aldar.
Það er ábyrgðarhluti að efna til innanlandsófriðar um utanríkismál og smáþjóð er það sérlega hættulegt. Það liggur í hlutarins eðli að sjálfstæði og fullveldi er smáþjóðum viðkvæmara en stórþjóðum.
Grundvallarbreytingar í utanríkismálum þjóða, hvort heldur stórra eða smárra, gerast einkum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með átökum, stríði eða annars konar hagsmunabaráttu, og í öðru lagi með hægfara langtímaþróun. Afstaða Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu verður að meta út frá seinna sjónarhorninu, hægfara langtímaþróun.
Sjálfstæðisbaráttan er samofin stjórnmálum og varðveislu íslenskrar menningar síðustu 150 árin. Markmið sjálfstæðisbaráttunnar var fullt forræði Íslendinga í eigin málum. Í áföngum tókst að ná markmiðinu og nærtækt að líta svo á að síðasti stóri áfanginn hafi verið útfærsla landhelginnar í 200 mílur á áttunda áratugnum.
Á meðan Íslendingar sóttust eftir sjálfsforræði varð til málamiðlun á meginlandi Evrópu um að framselja forræði í lykilmálum þjóðríkja til yfirþjóðlegs valds. Tvær heimsstyrjaldir, báðar með upptök í Evrópu, leiddu stórþjóðirnar Frakka og Þjóðverja að þessari niðurstöðu og nágrannaþjóðir létu til leiðast. Kola- og stálbandalagið var undanfari Evrópusambandsins en kol og stál voru ein mikilvægustu hráefni stríðsrekstrar. Með sameiginlegu forræði yfir auðlindum ætluðu meginlandsríkin að draga úr innbyrðis átökum.
Evrópusambandið er málamiðlun meginlandsþjóða álfunnar. Sambandið er einnig orðið valdamiðstöð þangað sem þjóðir leita skjóls frá voldugum nágrönnum, Írar gagnvart Bretum og Finnar frá Rússum. Þjóðir sem liggja ekki nærri átakasvæðum álfunnar eru með margvíslega fyrirvara á samstarfinu. Bretar hafa ekki tekið upp evru, Írar felldu Lissabonsáttmálann, Svíar og Danir höfnuðu gjaldmiðlasamstarfi og svo má áfram telja. Jaðarþjóðir Evrópu eru af sögulegum og landfræðilegum ástæðum tregar til málamiðlana sem kjarnaþjóðirnar hafa talið nauðsynlegar.
Ísland er bæði hvað sögu og landafræði varðar á annarri siglingu en Evrópa meginlandsins. Ef við nánast upp úr þurru myndum gerbreyta utanríkisstefnu okkar og ganga í Evrópusambandið yrðum við áttavillt. Þjóð verður áttavillt þegar hún kastar hugsunarlaust fyrir róða stefnumiðum sem hafa dugað öldum saman. Og þjóð sem veit ekki sinn veg lendir í raunum.
Þessari tillögu að þingsályktun ber að hafna.
(Ofanritaður texti er samhljóða umsögn sem var send utanríkismálanefnd Alþingis um þingskjal 38, tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í dag, 15. júní, rennur út fresturinn til að senda inn umsögn, sjá slóð á utanríkismálanefnd hér).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.