Miðvikudagur, 10. júní 2009
Mið-Evrópulexía
Samband Þjóðverja og Pólverja getur aldrei orðið sambærilegt tengslum Frakka og Þjóðverja. Þýskir líta upp til franskrar menningar og lífsstíls en finnst flest pólskt lítilsiglt. Á þessa leið skrifar Adam Daniel Rotfeld fyrrum utanríkisráðherra Póllands í Spiegel (nr. 23/2009). Tilefnið er grein í þýska vikuritinu sem birtist tveim vikum áður þar sem fjallað var um pólska samverkamenn nasista í seinni heimsstyrjöld.
Spiegel-greinin vakti úlfúð í Póllandi og Rotfeld freistar þess að útskýra fyrir þýskum lesendum að sagan hefur aðra merkingu í heimalandi hans en Þýskalandi. Pólverjar fóðra stoltið með minningunni um uppreisnina í Varsjá 1944 (sem sumir rugla við uppreisn gyðinga í gettói sömu borgar árinu áður, dæsir Rotfeld) og að engin pólsk kvislingastjórn hafi unnið skítverkin fyrir nasista líkt og þekktist í öðrum hernumdum löndum.
Þegar þýskt tímarit gerir því skóna að Pólverjar hafi verið samvinnuþýðir nasistum kemur það við kaunin, segir Rotfeld. Hann dregur þó ekki fjöður yfir grimmdarverk sem Pólverjar sannanlega tóku þátt í og beindust að varnarlausum gyðingum. Þekktasta frásögnin af slíkum ódæðum er bókin Nágrannar eftir pólska félagsfræðinginn Jan Tomasz Gross um morðóða Pólverja í smábænum Jedwabne.
Skilaboð Rotfeld, sem er gyðingur og fékk lífsbjörg í klaustri á hernámsárunum, til þýskra lesenda er að himinn og haf skilur að þýskan og pólskan söguskilning. Óhemjuverk sé fyrir höndum að finna leið til að ná þýsk-pólsku samtali um nýliðna sögu.
Frá bæjardyrum Íslendingsins er málið jafn áhugavert og það er framandi. Verkefnið sem Rotfeld lýsir er lifandi þáttur í samstarfi ríkjanna í Evrópusambandinu og getur aldrei orðið að brýnu viðfangsefni Íslendinga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.