Ríkisstjórnin pakkar í vörn

Engir aðrir kostir voru í boði, eru skilaboð ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-samningana. Ef við gefum okkur, orðræðunnar vegna, að þetta sé rétt, vaknar spurningin hvers vegna var samningurinn kynntur rétt áður en stjórnin ætlar að opinbera sparnaðartillögur sínar upp á 20 milljarða króna? Þolinmæði sem stjórnin átti inni hjá þjóðinni hefur gufað upp á örskoti.  Eins og málið blasir við verður það olía á eldinn þegar tilkynnt verður hvernig niðurskurði og skattahækkunum verður deilt út.

Fyrir kosningar, þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var starfsstjórn, stigu ráðherrar varla feilspor. Nú er eins og ráðherraliðið sé í samkeppni um hverjir geti klúðrað sem mestu á skemmstum tíma. 

Skýringar á stöðu stjórnarinnar liggja að einhverju marki í risavöxnum vanda eftir hrun. Sóknarfæri nýrrar ríkisstjórnar lágu í því að fá almenning í lið með sér í langan leiðangur. En til þess að virkja velvild almennings varð ríkisstjórnin að bjóða upp á áætlun, pólitíska dagskrá. Það gerði hún hins vegar ekki. Þegar í stjórnarmyndunarviðræðum fóru margir dagar í súginn við að þræta um stóra einskynsnýta málið, stefnuna í Evrópumálum, og niðurstaðan varð myllusteinn um stjórnarhálsinn. 

Ríkisstjórnin kynnti sig til leiks sem norræna velferðarstjórn sem er merkimiði gærdagsins. Fyrstu vikunum var sólundað  í aðgerðarleysi. Þegar aðgerðarleysið var orðið pínlegt kom Iceave-málið eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Verkfælni varð að handvömm loksins þegar stjórnin ætlaði að láta til sín taka.

Vörnin sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ratar í jafn snemma og raun ber vitni veit á uppgjöf. Aðeins er óvissa hvort uppgjöfin verður löng hrygla eða snögg aftaka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband