Fjölmiðlar í höndum auðmanna

Fjölmiðlaútgáfa hefur alltaf verið rekstrarleg hallærisútgerð á Íslandi. Fyrir utan Morgunblaðið  hékk rekstur dagblaða á bláþræði nánast alla tíð.

Þrátt fyrir tæpan fjárhagsgrundvöll þjónuðu dagblöð eins og Þjóðviljinn, Tíminn, Alþýðublaðið og Vísir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau voru vettvangur umræðu og brugðu upp spegilmynd af þjóðfélaginu, hvert frá sínum sjónarhóli.

Öll voru blöðin tengd stjórnmálaflokkum með einum eða öðrum hætti. Hreinræktuðu flokksblöðin dóu drottni sínum á síðasta áratug.

Eftir daga flokksblaðanna tók við millibilsástand ýmisskonar tilrauna í útgáfu. Feðgarnir Eyjólfur og Sveinn Eyjólfsson reyndu að búa til fjölmiðlafyrirtæki undir regnhlíf DV en þegar þeir réðust í útgáfu Fréttablaðsins urðu þeir gjaldþrota.

Þá var komið að auðmönnunum. Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs keypti á laun sumarið 2002 reyturnar af Fréttablaðinu sem var vísir að því sem nú er fjölmiðlafyrirtækið 365 hf. Og Jón Ásgeir er ekki hættur, samanber eignarhlut hans í tímaritinu Ísafold sem nýlega kom á markað.

Björgólfsfeðgar komu í kjölfarið og keyptu sig inn í Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins.

Það er ekki fjárhagslegur ávinningur sem hvetur auðmenn til að setja peninga í fjölmiðla. Þeir geta fengið margfalt betri ávöxtun annars staðar. Auðmenn vilja stýra umræðu og fréttaflutningi í þágu eigin hagsmuna.

Auðmenn hafa fæstir áhuga á lýðræðislegri umræðu því oftar en ekki er þar að finna gagnrýnin sjónarmið sem þeim er ekki að skapi. Náttúra auðmanna, einkum þeirra nýríku, er að fá hlutina til að ganga hratt fyrir sig og skila hagnaði. Undir þá hneigð vilja þeir beygja önnur svið samfélagsins, svo sem stjórnmál og samfélagsumræðu.

Auðmenn vilja ekki meiri umræðu heldur minni. Þeir vilja þægð í stað gagnrýni. Og þeir vilja ekki fleiri sjónarmið heldur færri.

Þess vegna er vont að fjölmiðlar komist í eigu auðmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég hygg að markmið Jóns Ásgeirs sé annað með fjölmiðlaeign sinni en þeirra Björgólfsfeðga, en það er að hafa áhrif á almenningsálitið í viðamiklum réttarhöldum gegn þeim varðandi stuld á fjármunum frá almenningi og meðeigendum í Baugi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.12.2006 kl. 09:26

2 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

,,Öll voru blöðin tengd stjórnmálaflokkum með einum eða öðrum hætti. Hreinræktuðu flokksblöðin dóu drottni sínum á síðasta áratug."

Var það ef til vill vegna hlutdrægs fréttaflutnings að slík dagblöð lögðust af?

Í næstu hendingu segiru ,,Auðmenn vilja stýra umræðu og fréttaflutningi í þágu eigin hagsmuna.

Ef einhver vill kaupa fjölmiðil og fjalla einvörðungu um málefnin í þágu sinna hagsmuna, þá verði honum að góðu, fólk er ekki neytt til að fylgjast með þeim fjölmiðli. 

Ólafur Örn Nielsen, 8.12.2006 kl. 10:04

3 identicon

Þú átt Páll þakkir skildar fyrir skelegg skrif um fjölmiðla og skoðanafrelsi; pistlar þínir bera af fyrir skarpskyggni og heilindi. Enginn þarf að velkjast í vafa um það að íslenskum fjölmiðlum hefir hrakað stórlega síðan þeir flestallir lentu í klóm nýríka fjárplógsins. Fréttablaðið er svo aumt blað að það er ekki annað hægt en vorkenna þeim sem selja sig til þeirra starfa að setja það saman. Það er sannarlega blaðamennska á röngunni enda er haft fyrir satt að útgangur blaðsins, efnistök þess, stíll og viðhorf sé, allt saman og hvað fyrir sig, tilefni til endalausrar skrumskælingar og skopstælingar í fjölmiðladeild Háskólans, menn þar nefni blaðið ekki til annars en viðvörunar, þar sé vítið sem beri að varast.

Gunnlaugur Þorleifsson 

Gunnlaugur Þorleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 20:02

4 Smámynd: Andrés Magnússon

Þegar DV-feðgar hrintu Fréttablaðinu úr vör kom ég örlítið að undirbúningnum af greiðasemi við minn gamla félaga Gunnar Smára Egilsson, sem stóð í því ásamt Einari Karli Haraldssyni. Þó ég hafi aðeins fengið nasasjón af fyrirtækinu var ljóst að þetta var ekki gert af miklum efnum. En ég fékk eindregið á tilfinninguna að þetta væri gambítur hjá feðgunum, að þeirra markmið væri aðeins að velgja Morgunblaðinu nægilega undir uggum til þess að Árvakur keypti Fréttablaðið af markaði. Soldið mafíulegt "business plan". En Árvakur beit ekki á og Fréttablaðið fór á hausinn. Vandinn var sá að Smári hafði séð ljósið í þessum fyrirætlunum, fór á stúfana og fann nýja eigendur til þess að endurreisa blaðið undir nýrri og hreinni kennitölu, þó þeir yrðu af einhverjum ástæðum að liggja í algeru þagnargildi. Árvakursmenn gerðu þau mistök að taka þá samkeppni ekki alvarlegar en fyrri tilraunina og hafa sjálfsagt nagað sín handarbök inn að kjúkum vegna þess síðan.

Andrés Magnússon, 9.12.2006 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband