Ingibjörg Sólrún og Evrópurannsóknir

Rannsóknir í merkingunni vísinda- og fræðirannsóknir rannsaka það sem er eða hefur verið. Það er ekki hægt að rannsaka framtíðina. Einfaldlega vegna þess að í ókominni tíð er ekkert hægt að athuga, vega eða meta. Maður getur spáð fyrir um framtíðina en ekki rannsakað hana.

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formanni Samfylkingarinnar liggur svo á að afsala fullveldi Íslands til Brussel að hún skáldar upp heila fræðigrein, væntanlega undirgrein hagfræðinnar, til að blekkja fólk til fylgis við Evrópusambandsaðild.

Á forsíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 3. desember er bein tilvitnun í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á flokksstjórnarfundi: ,,Og við verðum að skoða af fullri alvöru aðild að Evrópusambandinu, því flestar rannsóknir benda til þess að upptaka evru myndi - þegar fram líða stundir - stuðla að auknu jafnvægi í okkar efnahagsmálum, styrkja rekstarskilyrði fyrirtækja og bæta verulega kjör heimilanna í landinu." (leturbr. höfundar)

Notkun viðtengingarháttar er athyglisverður, ,,...upptaka evru myndi...", vegna þess að hann undirstrikar bábiljuna sem formaðurinn hefur í frammi. Það er til skemmtisagnfræði í viðtengingarhætti (hefði Hitler ekki komist til valda; hefði Jón Sigurðsson ekki fæðst). Ingbjörg Sólrún býður upp á ímyndaðar framtíðarrannsóknir í viðtengingarhætti. Geri aðrir betur.

Vísindarannsóknir geta ekkert sagt um það hvað yrði ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Á hinn bóginn hafa ýmsir háskólakennarar áhuga á því að Íslendingar sæki um aðild. Einn þeirra er Baldur Þórhallson sem stýrir Alþjóðamálastofnun við Háskóla Íslands. Baldur skipulagði ráðstefnu 24. nóvember s.l. um stöðu Íslands í utanríkismálum og tengsl við önnur Evrópuríki. Í anda frjálsrar akademískrar orðræðu gætti Baldur þess að bjóða engum aðildarandstæðingi að flytja erindi á ráðstefnunni.

Ingibjörg Sólrún gæti hafa ályktað sem svo að fyrst enginn talaði gegn aðild Íslands á ráðstefnunni þá hlyti akademían að vera fylgjandi aðildarumsókn. Það væri hægt að fyrirgefa slík glöp með því að Ingibjörg Sólrún vill trúa. Hún vildi jú á sínum tíma trúa því að Jón Ólafsson, sem kenndur er við Skífuna, væri holdtekja heilbrigðra viðskiptahátta. En hvernig í veröldinni formaðurinn lagði trúnað á ímyndaðar rannsóknir um hvað yrði ef Ísland færi inn í Evrópusambandið er á huldu.

Spurningin sem almenningur þarf að svara í vor er þessi: Eiga kjósendur að treysta formanni Samfylkingarinnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband