Miðvikudagur, 1. apríl 2009
Stjórnlagaþing er rugl
Almenningur heldur uppi 63 þingmönnum til að setja lög og fara þeim höndum um stjórnarskrá er hæfa þykir hverju sinni. Ef þessir þingmenn geta ekki, kunna ekki eða þora ekki að leggja til nýmæli eða breyta gildandi lögum eiga þeir að segja af sér þingmennsku og taka sér annað fyrir hendur.
Það tekur ekki tali að þingheimur afsali völdum Alþingis í hendur samkundu sem hvorki hvílir á hefðum né lögmætum grunni. Málatilbúnaður meirihlutans er lýðskrum af verstu sort og mun ekki leiða til annars en niðurgreiddra trúðsláta.
Kominn er tími til að stemma stigu við októberhruninu. Víst fór margt úrskeiðis og langan tíma tekur að vinda ofan af vitleysunni sem látin var viðgangast um árabil. En það er að fara úr öskunni í eldinn að boða til samkundu af því tagi sem frumvarpið mælir fyrir.
![]() |
Frumvarpið ekki afgreitt út úr sérnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég ætla að taka undir þessa skoðun hjá þér. Það er hægt að kalla eftir hugmyndum um breytingar á stjórnarskránni, bæði frá sérfræðingum og síðan almenningi. Það er hægt að kynna slíkar hugmyndir og greina þær. Þess vegna nota sjónvarp eða vefmiðil til þess að koma hugmyndum á framfæri.
Sigurður Þorsteinsson, 1.4.2009 kl. 00:24
Stjórnlagaþingið er annað stóra málið fyrir okkur sem þjóð og hitt er að sækja um aðild að ESB. Þar hafið þið það piltar mínir og það eru ansi margir sammála mér.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.4.2009 kl. 01:58
Í stjórnarskránni er fjallað um völd þingsins, ríkistjórnarinnar og fl. Það er ekki rétt að þeir menn, sem eiga að fara með völdin, ákveði hvað tilheyri þeirra valdsviði. Hins vegar ættu ekki að vera nema u. þ. b. 15 manns sem sitja þetta stjórnlagaþing og semja hina nýju stjórnarskrá. Eftir því sem sauðirnir verða fleiri þeim mun vitlausari verður niðurstaðan (sbr. alþingi).
Einar Þorbergsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 11:02
Rétt.
Stjórnlagaþing er ódýr aðferð vanhæfra stjórnmálamanna til að kaupa sér tímabundnar vinsælir og flýja ábyrgð.
Þorri almennings sér ekki í gegnum þennan spuna. Lætur spillta spunameistara Samfylkingarinnar leiða sig á asnaeyrum.
Á Íslandi er það alltaf fólkið sem lætur blekkjast - aftur og aftur og aftur.
Karl (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 12:47
Er þá ekki bara rándýt lýðræði rugl?
Bobbi (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 14:13
Kæra Hólmfríður, það eru bara enn fleiri þér ósammála.
Björn, er það ekki lýðræði að leyfa þjóðinni að kjósa um svo stórt mál sem ESB er, en Sandfylkingin, sem talar fjálglega um lýðræði, er á móti lýðræðinu í reynd.
Að hlaupa til og breyta stjórnarskránni núna eins og málum er háttað í þjóðfélaginu í dag, er ekki heillvænlegt. Ég held að þjóð og þing sé ekki í því ástandi sem til þarf til að taka yfirvegaðar ákvarðanir.
Bestu kveðjur,
Tómas Ibsen Halldórsson, 1.4.2009 kl. 16:42
Heyrðu Páll.
Alþingismenn sækja umboð sitt til þjóðarinnar. Samfélagssáttmálinn sem við byggjum þá tilhögun á er að stofni til frá 1874, var gefinn af danska konunginum og byggir að miklu leyti á þeirri tilhögun sem viðhöfð var í Danmörku á þeim tíma. Ríkisvaldið er runnið frá fólkinu í landinu og hvers vegna í veröldinni má þjóðin þá ekki setja nýjan grunn að nýju skipulagi, m.a. fyrir alþingismenn? Sjálfstæðismenn standa nú og baula í þinginu m.a. vegna hugmynda um stjórnlagaþing. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir telja sig vita betur og vilja hafa vit fyrir þjóðinni. Hvers vegna? Jú, til að passa að þeir sjálfir tapi ekki spóni úr sínum aski, til að þeir sjálfir hafi völdin áfram.
Veistu, það finnst bara einn flokkur í þinginu sem ekki vill fara þessa leið og mér finnst ekkert mikið þó nokkrir sjálfstæðismenn lúti valdi þjóðarinnar í þessu máli. Þó fyrr hefði verið. Sá tími að sjálfstæðismenn séu upphaf og endir alls, er liðinn.
Þess vegna er beinlínis hlálegt að lesa hrokafullar yfirlýsingar eins og frá þeim sem segja þjóðina ekki "í ástandi" til að taka yfirvegaðar ákvarðanir. Ef þjóðin hefur einhvern tíma verið í formi til að taka yfirvegaðar ákvarðanir, gefa upp á nýtt og taka slaginn við gömlu valdastofnanirnar, eins og þá sem býr í Valhöll, þá er það núna.
Helga Sigrún Harðardóttir, 1.4.2009 kl. 20:57
Stjórnlagaþing er eitt mikilvægasta málið í dag.
Það verður að tryggja að valdasjúkir og spilltir stjórnmálamenn geti ekki haldið þjóðinni í gíslingu eins og gerst hefur síðustu ár.
Gæta verður þess að stjórnmálaflokkarnir og klíkur þeirra komi hvergi nærri Stjórnlagaþingi.
Stjórnmálaflokkur er eins og hvert annað félag sem berst fyrir ákveðnum hagsmunum eins og t.d. íþróttafélög, skákklúbbar, hundavinafélög etc.
Stjórnmálaflokkarnir hafa þannig ekkert með stjórnarskrána að gera.
Stjórnlagaþing á að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar séu settir í öndvegi en á ekki að vera hagsmunagæsla fyrir spillt stjórnmálaöfl.
Markmiðið er að semja stjórnarskrá sem tryggir lýðræði og jafnræði í þjóðfélaginu.
Jón (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 21:43
Þjóðin mun ekki sitja stjórnlagaþingið, heldur fulltrúar hennar. Á Alþingi sitja nú þegar fulltrúar þjóðarinnar og eftir tæpan mánuð verður nýtt þing kosið.
Alþingi starfar samkvæmt lögum og hefðum. Með því að alþingismenn boða núna til stjórnlagaþings eru þeir að segja að þeir hafi gefist upp á hlutverki sínu.
Stjórnlagaþing er aðferð til að þyrla upp moldviðri. Þingmenn sem standa að frumvarpinu eru í hlutverki brennuvarga sem koma daginn eftir eldsvoða til að kveikja aftur í rústunum.
Páll Vilhjálmsson, 1.4.2009 kl. 22:03
Þegar kemur að kosningum á svona þing eru stjórnmálaflokkarnir hvort eð er einu samtökin sem geta/kunna/munu/... bjóða fram fulltrúa. Hver er þá tilgangurinn. Og mikið voðalega liggur á þessu...má þetta þing þá ekki frekar bíða í svona 5 ár eða svo...þá höfum við kannski efni á þessum munaði....
Haraldur Baldursson, 1.4.2009 kl. 22:24
Mikið rosalega er ég sammála þér Páll.
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 01:42
Ég sé mig tilknúinn til að leiðrétta þig Páll. Þú ritar: "Þjóðin mun ekki sitja stjórnlagaþingið, heldur fulltrúar hennar. Á Alþingi sitja nú þegar fulltrúar þjóðarinnar og eftir tæpan mánuð verður nýtt þing kosið."
Sjáðu nú til. Á Alþingi sitja fulltrúar stjórnmálaflokka. Ef þú hefur búið á Íslandi síðustu áratugi veist þú (væntanlega) að tiltrú almennings á fulltrúa flokkanna á þing (les: þingmenn) er hverfandi. Um 10% landsmanna hafa trúa á alþingismönnum og störfum þeirra á þingi.
Að sama skapi ættir þú að vera meðvitaður um að bankar, útrásarvíkingar,ríkisstjórn, Alþingi, Seðlabankinn og fme eru gerendur í bankahruninu. Þjóðin kallar á nýja stjórnarskrá, nýtt lýðveldi og virkt lýðræði. Það er fullreynt að afgreiðslumenn á kassa á Alþingi megna ekki að breyta einu né neinu.
Við þurfum að gera landið að einu kjördæmi, taka upp eitt atkvæði einn maður og afnema flokksræðið. Heldur þú að þú skiljir þetta Páll minn?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 16:10
Páll. Þó fyrr hefði verið. 65 ára langri tilraun stjórnmálaflokka til breytinga á stjórnarskrá hlýtur að ljúka hér. Hefðirnar sem þú vísar í eru að megninu til neitunarvald Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og hann reynir að búa sér til samningsstöðu nú með óþolandi og óverjandi málþófi og skemmtiatriðum á kostnað skattborgara.
Ætli menn að byggja hér sanngjarnara og lýðræðislegra samfélag en það sem nú er við lýði þá verður það ekki byggt á neitunarvaldi Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisvaldið er runnið frá fólkinu í landinu, ekki Sjálfstæðisflokknum, þó margir fulltrúar hans haldi því fram þessa dagana. Yfir 70% þessa sama fólks vill fá að kjósa sína fulltrúa á stjórnlagaþing. Ekki stjórnmálamenn frá flokkum sem hafa haft s.l. 65 ár til að lagfæra gamla sáttmálann frá danska konunginum.
Sjálfstæðismenn telja sig hins vegar þess umkomna að hafa vit fyrir fólkinu í landinu og hafna öllum skilgreiningum öðrum en að valdið eigi upptök sín í Valhöll. Ansi er ég hrædd um að þeir fari flatt núna...
Helga Sigrún Harðardóttir, 4.4.2009 kl. 01:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.