Þriðjudagur, 31. mars 2009
Atvinnumennska í vanlíðan
Sumir eru þannig að þeim líður ekki vel nema í hörmungarástandi. Þessir einstaklingar mála skrattann á vegginn og einbeita sér að eymdinni. Fjölmiðlar auka á vesöld þessara manna vegna þess að fréttaveruleikinn fer iðulega framúr hversdagslegri reynslu og tekur forskot bæði á sársauka og gleði. Frá október höfum við verið í allsherjar eymd og volæði, samkvæmt fréttum, en samt eru níu af hverjum tíu enn í vinnu og allur þorri almennings stendur í skilum.
Nú þegar íslenskt samfélag er ekki enn farið ofan í holræsið fer um vanlíðunarsinna og þeir vilja halda okkur við efnið: Við erum víst á leiðinni til helvítis.
Hugrekki er ekki einkenni atvinnumanna í vanlíðan. Þá er gott að eiga að menn eins og Egil Helgason sem birta fyrir mann nafnlaust eymdarhjal.
Athugasemdir
Orð í tíma töluð.
Baldur Hermannsson, 31.3.2009 kl. 20:41
Ég kalla þetta Eymdarást
Haraldur Baldursson, 31.3.2009 kl. 21:52
Þjóðin er í slæmum málum fjárhagslega. Þýðir ekkert að vera í afneitun gagnvart því.
Hins vegar er stundum gengið allt of langt í því að dramatísera aðstæður, sem eru ekkert "drama", nema síður sé.
Grátbólgin þula spyr börn hvort þeim þyki ekki hræðilegt að "pabbi skuli vera að fara að heiman", þegar heimilisfaðirinn ætlar að bregða sér af bæ í nokkrar vikur, jafnvel mánuði, t.þ.a. vinna í nálægu landi. Móðir og amma eftir hjá börnunum -alveg í þokkalega góðum málum.
Þrjár íslenskar námsmeyjar í London, stífmálaðar og dýrt klæddar "berjast fyrir lífi sínu" v.þ.a. þær þurfa að lifa á hrísgrjónum, baunum og pasta... Nákvæmlega námsmannafæðinu í aldanna rás !
Auðvitað þarf að sjá skóginn fyrir trjánum. Hinar öfgarnar eru svo að láta eins og ekkert hafi gerst...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 31.3.2009 kl. 23:26
Gott innlegg. Hins vegar þolir íslenskt samfélag ekki mikið atvinnuleysi og engin sérstök ástæða til þess að sætta sig við það. Atvinnuleysi er eðlilegt þegar samfélag er að færast úr einu ástandi í annað. Það gamla hafði of mikla áherslu á byggingariðnaðinn og fjármálageirann, það nýja verður að byggja á aukna framleiðslu og þjónustu á öðrum sviðum, og nýsköpun. Það er hægt að flýta þeirri þróun t.d. með lækkun vaxta. Þá bregður svo við að raunstýrivextir eru 22%. Það er hægt með hvatningu, en lítið fer fyrir henni, og það er hægt með því að birta aðgerðaráætlun en hún hefur heldur ekki komið fram. Hluti af samdráttarstigi er háð hugarástandi þjóðarinnar og neikvæðni og svartsýni, eykur á vandann.
Sigurður Þorsteinsson, 31.3.2009 kl. 23:52
Atvinnuleysi er um það bil helmingi meira en tölurnar gefa til kynna. Megnið af örorkunni er dulbúið atvinnuleysi. Við höfum bestu heilsugæslu í heiminum en hvergi eru jafn margir skráðir öryrkjar og einmitt hér.
Baldur Hermannsson, 1.4.2009 kl. 00:02
Þetta er rétt hjá þér Páll. Hvað er Egill líka að birta nafnlausar greinar fyrir hugleysingja. Þótt margt megi gagnrýna hér á landi megum við ekki gleyma okkur í algerri eymd og volæði. Þá getum við allt eins öll flutt til Kanada strax.
Guðmundur St Ragnarsson, 1.4.2009 kl. 00:46
Norsk frænka mannsins mín ákvað að koma til Íslands um síðustu helgi til að sjá með eigin augum hvað um væri að vera á Íslandi. Allar fréttir í Noregi og á Íslandi voru um vesöldina, raðir til að fá mat, raðir til að fá atvinnuleysisbætur, raðir til að fá föt á börnin, o.s.frv. Á Íslandi sá hún engar raðir og enn voru fleiri fínir jeppar á götunum en hún sér í Noregi og fjölskyldan öll var í nokkuð góðum málum. Allir höfðu mat og vinnu en gerðu minni kröfur til veraldlegra gæða. Hún ákvað að hætta að trúa fréttum og koma áfram reglulega til Íslands til að sjá með eigin augum hvernig ástandið er. Hún gerir sér fullkomna grein fyrir því að ekki er endilega allt sem sýnist, hún hefur unnið í lögreglunni í Osló í fjöldamörg ár, en fréttum treystir hún ekki.
Katrín Frímannsdóttir (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.