Mánudagur, 30. mars 2009
Eitt mál og einn foringi Samfylkingar
Samfylkingin ætar að reka einfalda kosningabaráttu. Innganga í Evrópusambandið er eina málið sem flokkurinn ætlar að beita sér fyrir. Til að reka máli á opinberum vettvangi er fengin Jóhanna Sigurðardóttir sem ætlaði að hætta í stjórnmálum en lét til leiðast að bjarga Samfylkingunni frá vígaferlum um forystu.
Jóhanna hefur aldrei verið eindregin talsmaður inngöngu okkar í Evrópusambandið. Á meðan Ingibjörg Sólrún, Össur, Björgvin, Árni Páll og fleiri tónuðu inngöngustefið hélt Jóhanna sér til hlés og ræddi helst um sín hjartans mál í félagsmálaráðuneytinu. Á meðan Jóhanna talar um Evrópu þarf hún í það minnsta ekki að tala um efnahagsmál sem fara henni ekki sérstaklega vel í munni.
Tæpur mánuður er til kosninga og einföld kosningabarátta Samfylkingarinnar gæti heppnast ef engin önnur mál ná að yfirskyggja töfralausnina. Fyrir síðustu kosningabaráttu reyndi Samfylkingin að gera Evrópumál að helsta kosningamálinu en varð gerð afturreka vegna þess að enginn annar flokkur vildi taka undir. Sama er upp á teningunum í dag. Enginn annar stjórnmálaflokkur vill inngöngu í ESB. Steingrímur J. býður farveg fyrir Evrópumálin en það er kurteist afsvar.
Samfylkingin samþykkti á landsfundi fyrir sex árum, þ.e. fyrir þarsíðustu kosningar, að flokkurinn ætti að skilgreina samningsmarkmið okkar í mögulegum viðræðum um inngöngu. Enn þann dag í dag hefur Samfylkingin ekki skilgreint þessi samningsmarkmið.
Evrópusinnuðu ritstjórarnir Ólafur Stephensen á Morgunblaðinu og Þorsteinn Pálsson á Fréttablaðinu munu eflaust láta undir höfuð leggjast að rukka Samfylkinguna um skilgreind samningsmarkmið. Það kæmi í ljós að keisarinn er klæðalaus. Í Evrópuumræðu kunna fjölmiðlar eins og Morgunblaðið og Fréttablaðið að breiða yfir - ekki afhjúpa.
Athugasemdir
Umbylting á fiskveiðistjórnunarmálinu er ekki með minna vægi innan Samfylkingarinnar en ESB hvorutveggja stór mál og brýn fyrir þjóðina.
Sævar Helgason, 30.3.2009 kl. 15:46
Ég er þér sammála Páll Samfylkin mun setja ESB sem eina málið. Önnur mál munu ekki vekja áhuga þeirra. Að örðu leiti mun barátta þeirra verða eins og R-listans forðum. Þau munu hirða góðu molana frá xD með því að samsinna þeim og allri gagnrýni verður mætt með sakleysislegum axlar-ippingum. Skjólið sem vinstri- og Baugslínu-sinnuð pressan veitir er svo gott að xD mun ekki geta rispað brynju bullsins hjá xS.
Sævar. Hvað fisk varðar er xS eingöngu með hugann við hvort hann er soðinn eða steiktur.
Haraldur Baldursson, 30.3.2009 kl. 16:55
Með Framsókn og Sjálfstæðisflokk utan stjórnar eru kvótagreifanir í báðum flokkum án hjálpar. Miklar líkur eru á að mjög verulegar breytingar verði gerðar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á næsta kjörtímabili. Enda orðin fyllilega tímabært. Framsal á kvótanum er upphafið að því hruni sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur verða núna axla sína ábyrgð á. Þeir hafa því nægan tíma til að snæða sína soðningu - kæri Haraldur
Sævar Helgason, 30.3.2009 kl. 21:08
Fatta ekki alveg þetta rugl um isma og Evrópu eða ekki Evrópu. Hvað er best fyrir fólkið, þjóðina?? Hefur einhver spáð í það. Þetta röfl um allan andskotann, sem ekki skiftir máli fyrir venjulegan Íslending, eyðileggur alla umræðu....!!!
Snæbjørn Bjornsson Birnir (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 23:33
HAraldur, Baugsmenn eru allir flokksbundir Sjálfstæðisflokksmenn og eiga sér langa flokkssögu þar og aðeins þar.
Gjaldþrot Samson er uppá 190 milljarða króna og Landsbankinn rak Icesave-reikingana samt skiptist enn umræðan og athyglin á þessa flokksmenn Sjálfstæðisflokksins eftir því hvort Davíð taldi þá í sínu liði eða til andstæðinga sinna.
Helgi Jóhann Hauksson, 31.3.2009 kl. 02:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.