Laugardagur, 28. mars 2009
Ferföld girðing gegn ESB-aðild
Í ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál er reist ferföld girðing gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Áréttuð er fyrri stefna flokksins um að yfirvegað mat Sjálfstæðisflokksins sé að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Lykilsetning í ályktun landsfundarins er eftirfarandi:
Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.
Þetta þýðir að ekki verður þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn fyrr en meirihluti hafi myndast á Alþingi um að sækja skuli um aðild. Til viðbótar er skýlaus krafa að skilgreind samningsmarkmið liggi fyrir. Samfylkingin hefur alltaf heykst á því að skilgreina samningsmarkmið okkar. Ástæðan er sú að í þeim samningsmarkmiðum kæmi annað tveggja fram; að Íslendingar fallist á að fiskveiðistjórnun fari til Brussel eða að engir samningar verði gerðir nema ESB fallist á að við stýrum áfram auðlindum okkar. Í fyrra tilvikinu er óhugsandi að þjóðin samþykki aðild og í seinna tilvikinu er óhugsandi að ESB hleypi okkar inn.
Ef svo fjarska ólíklega vildi til að sótt yrði um aðild þá er það krafa Sjálfstæðisflokksins að aðildarsamningur yrði lagður undir þjóðaratkvæði.
Girðingarnar fjórar eru þessar:
1. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.
2. Ef meirihluti myndast á Alþingi fyrir umsókn um aðild skal skilgreina samningsmarkmið.
3. Tillaga um aðildarumsókn og skilgreind samningsmarkmið skal lögð undir þjóðaratkvæði.
4. Aðildarsamningur yrði ávallt lagður undir þjóðaratkvæði.
Athugasemdir
Skýr og góður pistill hjá þér, Páll.
2. "girðingin", meirihluti á Alþingi, er kannski ekki trygg, ef ófyrirleitin, Evrópubandalagssækin forysta heldur á málum og afsakar sig með afstöðu annarra flokka. Orðalag ályktunarinnar:
"Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna,"
útleggur þú í næstu setning þinni svona: "Þetta þýðir að ekki verður þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn fyrr en meirihluti hafi myndast á Alþingi um að sækja skuli um aðild," en hræddur er ég um, að t.d. "breyttar aðstæður" og vilji annars flokks (Sambræðslufylkingarinnar, jafnvel Framsóknar), sem og ný stjórnarskrárákvæði um, að tiltekinn fjöldi manna (15.000 eða fleiri) geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni (t.d. "aðildarviðræður"), kunni að verða nýrri og svikulli forystu flokksins hentug afsökun og átylla til að túlka umboð sitt frá landsfundi og kjósendum mjög vítt og sleppi bara afgreiðslu Alþingis á því máli. Eftir væri raunar, fyrir Evrópubandalagsdindla flestra flokka, að losna við stjórnarskrárákvæði um tryggingu gegn fullveldisafsali til erlends veldis, og verði stjórnarskráin ekki brotin í því efni, yrði sú breyting að fara fram á lögfullan hátt á Alþingi og með nýjum, almennum kosningum og annarri meirihlutasamþykkt á Alþingi.
En það er fáu treystandi hjá íslenzkum pólitíkusum.
Jón Valur Jensson, 28.3.2009 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.