Miðvikudagur, 18. mars 2009
Hverjum er treystandi fyrir bankarekstri?
Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar segist vilja einkavæða bankana sem fyrst. En hverjum er treystandi fyrir bankarekstri á Íslandi? Fyrir nokkrum vikum var á dagskrá að útlendingar kæmu að bankarekstri hér en fátt segir af þeirri ráðagerð. Þá voru uppi meldingar frá atvinnulífinu að stofna banka en loftið fór úr þeirri blöðru.
Fyrirsjáanlega mun ríkið reka bankastarfsemi hér um nokkra hríð. Til að gefa svigrúm fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað ætti að leyfa sparisjóðunum að fara lóðbeint á hausinn. Það þjónar engum tilgangi að ríkið reki þrjá banka og endurfjármagni bullrekstur sparisjóðanna í ofanálag. Þeir sparisjóðir sem keyrðu sig í þrot eiga ekkert tilkall til almannafjár.
Athugasemdir
Því miður er einka(vina)væðing bankanna ekki fýsileg í bráð; hvorki sanngjörn né eðlileg í ljósi atburða síðustu mánaða. Það sér hver heilvita maður, sem vill.
Ég skrifaði um þetta smá hugleiðingu hér.
Hins vegna er áhugavert að sjá einstaklinga stíga á stokk og boða einkavæðingarboðskapinn nú á sama tíma og ekki er enn búið að koma bönkunum á réttan kjöl. Sýnir hvað sumir geta verið örvæntingarfullir, gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann og úr takti við það sem er að ske hér.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 22:12
Mér hefur alltaf fundið hann hálf kostulegur þessi aumingjans kauphallarforstjóri þegar hann hefur á undanförnum árum verið að dásama hlutabréfamarkaðinn og vísitöluna sem rauk upp úr öllu valdi. Alltaf var hann með skýringarnar á reiðum höndum aumingjans maðurinn. Hann er eins og "hrópandinn í eyðimörkinni"
Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 23:35
Góður pistill. Það hefur alveg gleymst í öllu þessu peningatali að með falli bankanna féll líka traust og trúverðugleiki þeirra sem þar unnu. Þeirra starfsferilskrá er gölluð söluvara og ansi er ég hræddur um að útlendingar hafi lítinn áhuga að koma hingað. Stærð hagkerfisins miðað við stærð vandamálanna gengur ekki upp fyrir þeim. Það eru stærri lönd með minni vandamál sem eru mun áhugaverðari fyrir þá. Það er allavega ljóst að á meðan kr. er hér koma útlendingar ekki. Á meðan verða bankarnir stjórnað og reknir af flokksgæðingum eins og í gamla daga. Nú þarf að senda efnilegt ungt fólk út í starfsþjálfun hjá bönkum á Norðurlöndunum og læra þar hvernig alvöru bankar eru reknir.
Andri Geir Arinbjarnarson, 19.3.2009 kl. 08:01
ég tek alfarið undir orð Haraldar hér að ofan,manni virðist einsog þessi svokallaða "kauphöll"vera alveg gjörsamlega ótrúverðugt spillingar apparat sem ekki var með neitt eftirlit né metnað gagnvart "fyrirtækjum"sem þar voru skráð,ég er nokkuð viss um að þeir hefðu tekið mafíunni fagnandi inná íslenskan markað bara ef þeir hefðu kallað sig COSA NOSTRA, hlægilegt fyrirbæri þetta omex eitthvað,hvílíkt snobb.
árni aðals (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 08:57
Andri, það voru að mestu strákar (ungir menn) sem hvolfdu bönkunum. Og líka að mestu eru penigagróðaníðingar landsins strákar (ungir menn). Glapræði verður það ef ungt fólk verður þjálfað og aftur látið stýra bönkunum. Strákar ættu ekki að stýra bönkunum fremur en öðrum mikilvægum stofnunum. Og kannski ekki neinu bara. Eldri menn eru oftast hæfari við stjórnun, ekki minna lærðir, og síðast en ekki síst oftar en ekki vitrari og með víðtækustu þekkinguna. Hættum að hilla ungu fólki og víkja eldra og hæfu fólki til hliðar. Aðalráðgjafi Bandaríkjaforseta er á níræðisaldri.
EE elle (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 12:51
Þ. e. hylla.
EE elle (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 12:55
Þeir eiga að sjálfsögðu ekkert tilkall til almannafjár eftir að þessir málamyndaeigendur hirtu sparisjóðina og stungu þeim í eigin vasa! Ætlar ríkið virkilega að fara að bjarga þeim eignum þessarra manna?
Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 14:22
eflaust væri réttast að einkavæða en hér er bara ekki nokkrum manni treystandi - svo við bítum í það súra áfram
Jón Snæbjörnsson, 19.3.2009 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.