Ókeypis peningar Framsóknartryggva

Víða í þróuðum hagkerfum Vesturlanda eru áhyggjur af vítahring verðhjöðnunar sem felur í sér almenna og langvarandi verðlækkun og veldur samdrætti í hagkerfum. Til að forðast kreppu verðhjöðnunar eru uppi hugmyndir um að seðlabankar auki peningamagn í umferð. Á hagfræðimáli heitir það quantative easing - en á mannamáli að prenta peninga.

Kreppan er alþjóðleg og síðustu daga er til umræðu að auka peninga í umferð á alþjóðavísu. Ástæðan fyrir því að margir gjalda varhug við þessum hugmyndum er sú að peningaprentun mun auka verðbólgu. 

Íslenska útgáfan af peningaprentun, kennd við Framsóknartryggva, er að fella niður fimmtung skulda almennings og fyrirtækja.

Tillagan er siðlaus vegna þess að hún hyglar óráðssíu en refsar ráðdeild.

Þeir sem telja ástæðu til að auka peningamagn í umferð á Íslandi ættu að leggja til að hver Íslendingur fengi tiltekna upphæð inn á reikning sinn. Við erum neysluglöð þjóð og engin hætta á að fólk myndi liggja á ókeypis peningum.

Málið er leyst, Framsóknartryggur, afsakið, Framsóknartryggvi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

FramsóknarTryggvi=KúlulánaTryggvi,   sami maður.

Númi (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 18:20

2 Smámynd: Þór Jóhannesson

Aldrei bjóst ég við að þessi setning færi skjalfest á athugasemdakerfi bloggsins en ég einfaldlega verð:

Ég er 100% sammála þér Páll Vilhjálmsson (í þessu máli).

Þór Jóhannesson, 17.3.2009 kl. 18:45

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég er sammála og þó ekki! Ef tillagan bjargar landinu frá þjóðar- og kerfishruni er hún góðra gjalda verð. Á meðan ekki koma fram aðrar tillögur betri (halló Samfylking - ekki nefna ESB strax) er hún ákveðin lausn þótt hún hygli óráðsíu.

Ef tillagan bjargar landinu mínu styð ég hana þótt s.k. "óráðsíumenn" hagnist. Það er mín reynsla sem fasteignasala að það séu samt fleiri fjölskyldu í vanda þar sem þetta er ákveðin lausn heldur en s.k. óráðsíumenn.

Hugsaðu samt eitt Páll. Framsóknarmenn komu með þessa tillögu. Hagfræðingurinn Tryggvi styður hana og gerði það ágætlega í Kastljósi. Tæplega hálft ár er liðið frá hruninu. HVAR ERU TILLÖGUR HINNA? Þá er ég ekki að tala um bráðabrigðatillögur eins og frystingu og greiðsluaðlögun sem lengja í hengingaról heimilanna.

Kveðja,

Muggi.

Guðmundur St Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 20:03

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Páll, var það óráðsía eða ráðdeild að geyma himinháar upphæðir ótryggðar inni á innistæðureikningum í bönkum sem voru við það að falla.  Var ekki jafn mikil áhætta fólgin í því að eiga hlutabréf í bönnkunum og eiga innistæður í bönkunum?  Ég kaus að geyma minn sparnað í húsnæðinu mínu.  Ég taldi það ráðdeild.  Það var engin óráðsía í tengslum við það.  Ríkið taldi sér fært að ábyrgjast í okkar nafni innistæður umfram almennar innistæðutryggingar upp á líklegast um 600 milljarða og bætti síðan 200 milljörðum af skattfé í að bjarga sjóðnum hans Illuga og fleiri peningasjóðum.  Var það gert af því að eigendur fjársins höfðu sýnt ráðdeild eða vegna þess að þeir höfðu tekið meiri áhættu en þeir hefðu kannski átt að taka?  Allt umfram 3 milljónir á innistæðureikningum var jafnmikið áhættufé og hlutabréf í bönkunum.  Hvorugur hópurinn átti nokkru sinni von á að tapa peningunum sínum.  Ef ekki hefðu komið til neyðarlögin, þá hefðu báðir tapað sínu, en þá kom ríkissjóður öðrum til bjargar.  Hvers vegna þessa mismunun?

En varðandi niðurfærslu höfuðstóls lána, þá er þegar gert ráð fyrir 2.800 milljörðum í afskriftum á innlendum lánasöfnum þríburanna.  Það er þegar gert ráð fyrir að hluti af þessum afskriftum verði vegna húsnæðislána.  Af hverju þarf að bíða með þessar afskriftir þar til búið er að selja húsnæðið á nauðungarsölu?  Það er mun einfaldara og ódýrara að gera það strax.

Marinó G. Njálsson, 17.3.2009 kl. 23:24

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Marinó, þú mátt ekki biðja mig að hafa álit á þínum fjármálalegu ráðstöfunum - ég hef engar forsendur til þess.

Almennt lít ég svo á að óráðssía sé að koma sér í þannig skuldir að maður ráði ekki við þær. Ég hef fulla samúð með ungu fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og lendir í yfirstandandi hremmingum. Mér skilst að reynt sé að koma til móts við þennan hóp með sértækum aðgerðum og er það vel.

Þeir sem áttu í peningamarkaðssjóðum töpuðu einhverjum tugum prósenta af sinni eign þar. Ég átti smápening í einum slíkum sjóði, hjá SPRON, og þær krónur rýrnuðu.

Ég hef ekki stóra skoðun á því hvort réttmætt sé að ríkið hafi sett peninga inn í þessa sjóði til að draga úr tapinu. Ég einfaldlega þekki málið ekki nógu vel.

Gagnrýni mín á tillögur Tryggva byggir á því að mér finnst að fólk eigi að borga skuldir sínar. Punktur.

Páll Vilhjálmsson, 17.3.2009 kl. 23:42

6 identicon

Góðan dag

Ég veit ekki ennþá hverjum ég er sammála en vil þó segja það að óráðssía er ekki alltaf eins.  Undanfarin ár voru mjög sérstök.  Margir sem nú eru orðnir óráðssíumenn tóku bara lán sem voru á afar hagstæðum kjörum (t.d. erlend) og töldu sig geta borgað þau.  Bankastjórar sögðu að allt væri í himnalagi.  Stjórnmálamenn, greiningardeildir, næsti maður, sögðu að allt væri í himnalagi.  Mér finnst ekki hægt að brennimerkja þær þúsundir eða tugþúsundir sem óráðssíumenn.  Tíðarandinn var sérstakur og það er ekki að undra þótt fólk hrifist með.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er m.a. sá að ef almenningur er keyrður niður og látinn þræla fram í rauðan dauðann við að greiða skuldir sem hafa verið lengdar og fiffaðar þannig að aldrei næst að klára þær, þá fyllast allir vonleysi.  Þá er hætta á að hjólin snúist afar hægt í mjög langan tíma.  Ef fólk getur hins vegar séð glætu og einhvern áfangastað þá eykst bjartsýni og eitthvað fer að gerast.  Ég er ekki viss um að fólk muni umsvifalaust snúa sér að neysluruglinu aftur, heldur má alveg vona að menn noti skynsemina í meira mæli.  Það er rétt að þetta kann að vera að mörgu leyti óréttlát aðferð fyrir marga, en við þurfum sannarlega ráð sem virka og góð ráð eru stundum dýr. 

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 07:52

7 identicon

Því er ósvarað hér hvers vegna ríkið átti að koma fyrir mína hönd til hjálpar þeim sem áttu markaðsbréf og innistæður í bönkum sem erlendar greiningarstofnanir mátu sem gjaldþrota.

Hvernig er hægt að segjast ekki "þekkja málið", en tala jafnframt um tugþúsundir þeirra sem fóru hina öruggu leið (að kaup sér íbúð) sem óráðssíufólk?

Er það óráðssía að kaup íbúð og missa síðan vinnuna?

Það þarf að gera greinarmun á óráðssíu og force majeur. Við erum í miðjum jarðskjálfta. 

Doddi D (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 10:20

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Er þá ekki bara best að bjóða þeim sem vilja 20% niðufærsluna, en hinir geta bara haldið áfram að borga af lánunum sínum.  Besta mál.  Innistæðueigendur voru ekkert spurðir hvort þeir vildu þiggja gjöf ríkisstjórnarinnar eða ekki.

Marinó G. Njálsson, 18.3.2009 kl. 17:02

9 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Jú, Marinó, það er hægt. En hvað eigum við að segja við þá sem koma næstir, t.d. námsmenn, sem vilja fá niðurfellingu á námslánum? Nám er jú fjárfesting, ekki síður en húsnæðiskaup.

Páll Vilhjálmsson, 18.3.2009 kl. 18:14

10 identicon

Eitt þarf að hafa í huga.  Öll sú vinna og tími sem fer í að meta 70% landsmanna (sem vilja láta reyna á hvort ekki sé forsenda til að færa niður lán).  Þessi tillaga snýr að því í raun að frysta vísitölu við einhvern tímapunkt á síðasta ári og segja sem svo að slíkt högg og varð sé betur komið á herðum samfélagsins alls en einstakra aðila.

Þetta er síðan aðeins hluti höggsins því enginn mun fara varhluta að því eftir sem áður. 

Ég er alveg sammála ykkur um, að það er grútfúlt að þeir sem sannanlega eyddu og spreðuðu um efni fram og hefðu lent í vandræðum einir og hjálparlaust án hruns,  skuli fá skuldir lækkaðar.  Hitt er svo annað að þeir sem þannig létu munu lenda í vandræðum þrátt fyrir 20% lækkun skulda. 

En gott væri nú ef einhver lumaði á betri hugmynd

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband