Miðvikudagur, 11. mars 2009
Leiðavísir fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík
Sjálfstæðismenn í Reykjavík velja sér þingmannsefni í prófkjöri næstu daga. Tekinn hefur verið saman listi yfir þá frambjóðendur sem eru ekki tilbúnir til að segja okkur til sveitar hjá Brusselvaldinu og hafna aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í samanburði við afstöðuna til Evrópusambandsins eru öll mál lítil og léttvæg í íslenskri pólitík nú um stundir.
Við verðum innan fárra ára búin að gleyma útrásarvitleysunni og bankahruninu. Ef við skyldum hins vegar láta svíkja okkur inn í Evrópusambandið munu börn okkar og barnabörn formæla okkur - fordæmingin sem kemur þar á eftir verður ekki sögð á íslensku.
Hjörtur Guðmundsson setti saman listann um fólkið sem er treystandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Athugasemdir
Sérkennilegur listi og óþarflega margbrotinn, en samkvæmt honum vill enginn inngöngu. Til hvers er hann þá gerður?
Gústaf Níelsson, 12.3.2009 kl. 00:18
Íslensk þjóðremba og þjóðernishyggja hefur verið ódeig við að hella hræðslu- og lýgiáróðri yfir þjóðina í hvert sinn sem ESB aðild kemst til umræðu og því miður hefur það í 15 ár komið í veg fyrir að aðild okkar að efnahagslegu varnarbandlagi Evrópuþjóða - ESB hafi komist á dagskrá íslenskra stjórnmála með þeim afleiðingum sem nú blasa við okkur.
Ef við hefðum haft fast land undir fæti með evru og skjól af ESB-aðild hefði „stormurinn“ ekki haft þær afleiðingar sem nú blasa við okkur þó hann hefði gengið yfir eftir sem áður.
Enginn vafi er t.d. að hér ætti Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ekkert erindi með valdi sínu, skilyrðum og ofurlánum til bjargar krónunni ef okkur hafði borið gæfa til að ganga til liðs við ESB og taka upp evru.
Ábyrgð þeirra sem ekki vilja einu sinni að þjóðin fái að komast að hvað er í boði við samningaborð ESB er því skuggaleg. Þeir eru allir hásetar hjá Ahab skipstjóra á skútu hans í blindum eltingleik skipsstjórans við einkahgsmuni sína, hégóma og einkagróða.
Sjá kvikmyndaauglýsingu sem einhver breytti og setti á netið:
Helgi Jóhann Hauksson, 12.3.2009 kl. 00:34
Já, Páll, það var hið mesta þarfaverk Hjartar J. Guðmundssonar að birta þennan lista í dag – ég væri búinn að þakka honum þar, ef hann hefði haft opið á athugasemdir. Og sannarlega tek ég undir þín orð í pistli þessum.
Lif heill!
Jón Valur Jensson, 12.3.2009 kl. 00:41
Helgi, þá vil ég frekar íslenzka þjóðrembu og þjóðernishyggju en einhvers konar Evrópusambandsþjóðrembu sem verið er leynt og ljóst að reyna að skapa innan sambandsins.
Þess má geta að listinn er settur saman samkvæmt upplýsingum sem Vilborg Hansen aflaði.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 11:15
Svo ferst þér Helgi að tala um hræðsluáróður t.a.m. með skírskotun þinni í Ahab skipstjóra sem er reyndar bara hlægileg :)
Þess utan má minna þig á að nú þegar hafa tvö Evrópusambandsríki, Lettland og Ungverjaland, þurft aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þess að Evrópusambandið gat aðeins veitt þeim takmarkaða aðstoð og ekkert í samræmi við þarfir þeirra. Nú er útlit fyrir að þriðja ríkið þurfi aðstoð sjóðsins, Rúmenía, og búist er við að þau verði mun fleiri og þ.m.t. evruríki.
Þess má annars geta að í Viðskiptablaðinu í dag er áhugaverð umfjöllun í dag um það hvernig evran og Evrópusambandið eru að ganga að Lettum dauðum efnahagslega.
Svo minni ég á viðtal Ríkissjónvarpsins á dögunum við Kenneth Rogoff, hagfræðiprófessor við Harvard, sem sagði einfaldlega að aðstæður hér á landi væru mun verri ef við hefðum verið með evru og að það jafngilti efnahagslegum sjálfsmorði að taka hana upp á meðan verið væri að koma efnahagslífi landsins í lag á ný.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 11:21
Gústaf, sumir vilja taka skref í átt til inngöngu (og sumir þeirra vilja vafalaust bara inn), aðrir ekki.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 11:25
Góð svör hjá þér Hjörtur.
Að lokum legg ég til, að við kjósum ekki EBé-manninn Bjarna Benediktsson á landsfundi né neins staðar.
Jón Valur Jensson, 12.3.2009 kl. 12:24
Það er vægast sagt furðuleg afstaða að segjast á móti einhverju en vera engu að síður reiðubúinn að opna á það. Það gengur einfaldlega ekki upp. Þeir sem vilja fara í viðræður um inngöngu í Evrópusambandið eru ekki á móti inngöngu. Það er ekki flóknara en það. Og það er í bezta lagi broslegt að bera því við að fá þurfi botn í málið. Í fyrsta lagi liggur þegar fyrir í langflestum tilfellum hvað innganga hefði í för með sér fyrir okkur Íslendinga og það er ekki gæfulegt á heildina litið. Í annan stað hafa Norðmenn hafnað inngöngu í Evrópusambandið tvisvar. Hefur fengist botn í málið þar? Hefur umræðan þar í landi verið afgreidd? Nei, hún hefur haldið áfram sem fyrr.
Þeir sem vilja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið eiga að vera heiðarlegir og viðurkenna að þeir séu hlynntir inngöngu. Ef þeir eru ekki hlynntir inngöngu eiga þeir ekki að vera að opna á eitthvað sem þeir eru á móti. Það er einfaldlega allt annað en trúverðugt.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.3.2009 kl. 12:33
Mjög athyglisverður listi. Og nú stefnir allt að því að efsti maður D í Reykjavík
verði ESB-sinni og formaðurinn líka skv skoðanakönnunum. Enda segir vara-formaður flokksins að flokkurinn muni opna á aðildarviðræður og þá ESB-umsókn eftir landsfund. Minni á framboð L-listans, sem er borgaralegt framboð allra þjóðfrelsis, fullveldis- og sjálfstæðissinna sem er EINA framboðið sem HAFNAR ALFARIÐ aðildarviðræðum og umsókn að ESB.
Framboð sem stendur öllum SÖNNUM ESB-andstæðingum opinn og í raun
kallar á þá til liðs sem allra fyrst.
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 12.3.2009 kl. 13:41
Benedikt:
Sem betur fer hef ég enga trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn snúi bakinu við sjálfstæði þjóðarinnar þó þar innandyra séu sumir á þeirri línu eins og víðast annars staðar. En Benedikt telur væntanlega að Samfylkingunni sé treystandi til þess að semja um inngöngu í Evrópusambandið ef til þess kæmi einhvern tímann. En ef flokkurinn sem slíkur hefur sömu afstöðu til málsins og Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsir í Morgunblaðinu í dag þá þarf engar viðræður.
"Það eru nefnilega gjarnan sömu einstaklingar og sömu flokkar sem hafna því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og þeir sem vilja einnig að Íslendingar fái sérstaka og ívilnandi meðferð í alþjóðlegu loftslagssamningaviðræðunum sem nú standa yfir. Þetta eru öfl sem virðast líta svo á að Íslendingum sé ekki bara betur borgið á jaðri alþjóðlegs samstarfs, heldur eigi þeir beinlínis rétt á því að fleyta rjómann, fljóta með, njóta sérmeðferðar og undanþága. Ég er ekki þeirrar skoðunar."
Sennilega gerir Þórunn sér aðeins grein fyrir þeirri staðreynd að þegar allt kemur til alls er í raun ekkert um að semja við Evrópusambandið, annað hvort er gengizt undir skilyrði inngöngu í það eða ekki.
Hjörtur J. Guðmundsson, 13.3.2009 kl. 10:02
EBé-dindill er hún,
oft til Brussel fer hún,
og áhyggjur af Íslands hag
engar ber hún.
...
Þetta er nú ekki sett fram sem fullyrðing um neinar stareyndir, heldur sem mín tilfinning, og þarna endurspeglast vissulega mitt gildismat.
Jón Valur Jensson, 13.3.2009 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.