Íslensk verðbólga og erlend verðhjöðnun

Stýrivextir í Bandaríkjunum og Englandi eru nálægt núlli og hálft annað prósent á evrusvæðinu. Hér eru stýrivextir 18 prósent. Umræðan austan hafs og vestan er að koma verði í veg fyrir verðhjöðnun með því að framkalla verðbólgu þar sem seðlabankar dæla fjármagni í hagkerfið í þeirri von að efnahagsstarfsemi taki við sér. Hér heima eru vexti háir til að styrkja gengið og vinna gegn verðbólgu.

Samdrátturinn sem hófst með ónýtum lánum og vaxandi tregðu lánastofnana til að veita fyrirgreiðslu verður að vítahring þar sem almenningur dregur saman neyslu sem aftur hægir enn á efnahagsstarfsemi; fyrirtæki draga saman seglin og segja upp fólki. Verðhjöðnun í skuldsettu efnahagskerfi er talin feigðarflan og þess vegna er réttmætt að nánast prenta peninga til að auka efnahagsumsvifin.

Í hálfan mannsaldur hafa Íslendingar ekki átt í vandræðum með að eyða peningum og hagvaxtarskeið verið kröftugri en ella vegna neyslugleði almennings. Erfitt er að sjá fyrir sér ástand þar sem landinn heldur svo fast um pyngjuna að til vandræða horfi fyrir efnahagskerfið.

Peningaaustur í hagkerfin austan hafs og vestan mun fyrr heldur en seinna valda verðbólgu. Hættan sem seðlabankar eru tilbúnir að taka er að verðbólga aukist hratt þegar viðsnúningi er náð og hjólin snúast á ný.

Íslenska hagkerfið mun ekki festast í vítahring verðhjöðnunar. Við munum ekki þurfa að prenta krónur til að gefa hagkerfinu startskot þótt þeir verði eflaust nokkrir sem um það biðja - bara svona til að tala eins og spekingar í útlöndum. Samdrátturinn sem blasir við varir fram á næsta ár. Á þeim tíma liggur fyrir hverjar skuldir ríkissjóðs verða og hvernig við högum endurgreiðslu þeirra. Um það bil sem erlendra verðbólguáhrifa fer að gæta, á fyrri hluta næsta árs, hækkar afurðaverð á útflutningi okkar og atvinnulífið leitar eðlilegs jafnvægis.

Jöfn og þétt vinnsla úr núverandi samdrætti er háð skilyrðum. Mikilvægast er að við kjósum ekki yfir okkur stjórnmálaflokk sem vitað er að leiðir aðeins hörmungar yfir mannlíf á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það eru til tvær gerðir Íslendinga. Hinir ódrepandi bjartsýnismenn og "hinir". Það verður ekki sagt um Pál að hann sé í "hinum" hópnum. "Þetta reddast maður" og hingað til hefur okkur ekki tekist að kjósa yfir okkur stjórnmálaflokk sem leiðir aðeins til hörmungar yfir mannlíf á Íslandi. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki klúðrað þessu big tæm þó hann reyndi kannski í alvöru...en núna þegar allt er í rauninni að lagast og var reyndar aldrei svo slæmt þá rís upp einhver ? stjórnmálaflokkur og ætlar virkilega að leiða hörmungarnar yfir landið sem Sjálfstæðismönnum tókst ekki.... þetta eru miklar fréttir. Verður ekki að afhjúpa þennan fúla flokk?

Gísli Ingvarsson, 11.3.2009 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband