Hagfræðingarnir fatta ekki vald

Vald er sleipt hugtak sem hagfræðingarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga fatta ekki. Greining þeirra á bankahruninu tekur mið af formlegu valdi laga, reglna og eftirlitsstofnana en sagan er ekki einu sinni hálfsögð með tilvísun til formlegs valds.

Augljós mótsögn er í frásögn þeirra félaga um skort á aðhaldi stofnana gagnvart bönkum, þar sem þeir kenna lítilli fagmennsku um værð hins opinbera um leið og þeir vísa á háskóladeildir sem mærðu útrásarhagkerfið. Ef fagmennska á einhvers staðar heima þá er það í háskólum, þar sem þeir Jón og Gylfi starfa. Háskólarnir voru ásamt eftirlitsstofnunum, ráðuneytum, þingmönnum, fjölmiðlum og forsetanum í klappstýruliði útrásarinnar.

Valdið sem bankarnir bjuggu yfir var í fyrsta lagi fengið með innlendri einkavæðingu og í öðru lagi með ódýru erlendu lánsfé. Íslensk stjórnvöld, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sérstaklega, bera ábyrgð á einkavæðingunni og hvernig hún gekk fyrir sig. Einkavæðingin lagði grunninn en spilaborgin var reist með erlendu lánsfé sem EES-samningur Alþýðuflokks Jóns Baldvins Hannibalssonar (‘við fengum allt fyrir ekkert´) tryggði aðgang að.

Glýjuvald bankanna batt og blindaði alla sem komu nálægt. Þrátt fyrir litlukreppu árið 2006 þegar hrikti í stoðum bankakerfisins var vald bankanna slíkt að hvorki hósti né stuna heyrðist frá eftirlitsstofnunum, stjórnvöldum eða fjölmiðlum - eina undantekningin var þegar Styrmir Gunnarssonar ritstjóri Morgunblaðsins ræksti sig.

Greining á bankahruninu sem ekki gerir óformlegt vald bankanna og útrásarauðmanna að miðlægu atriði er harla lítils virði.

Eflaust eru Jón og Gylfi prýðilegir fræðimenn á sviði hagfræði. En um leið og sérsviði þeirra sleppir eru félagarnir úti að aka. Þeir ráðleggja okkur inngöngu í Evrópusambandið með þeim rökum að það skapi traust á alþjóðavettvangi. Umsókn okkar um inngöngu væri yfirlýsing um að við treystum okkur ekki sjálf til að fara með eigin mál. Og án sjálfstrausts erum við eins og hverjir aðrir aumingjar sem engir aðrir myndu treysta.


mbl.is Veðjuðu á endurlífgun hagkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Nú vantar ekki sjálfstraustið í seðlabankastjóra, sem einnig var kokhraustur forsætisráðherra þegar allir afleikirnir voru leiknir og komið hafa þjóðinni í þær hremmingar sem hún stendur frammi fyrir.

Dramb er falli næst. Gettu hver fellur næst...

Sigurður Ingi Jónsson, 10.2.2009 kl. 00:09

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Voru það ekki nemendur þeirra og starfsbræður sem fylltu bankana.?

Ragnar Gunnlaugsson, 10.2.2009 kl. 09:11

3 identicon

Er ofurvald auðhringanna á Íslandi ekk næsta ritgerðarefni þeirra?

Mér fannst þeir gera kerfishruninu ágæt skil að öðru leyti.

TH (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 09:40

4 identicon

Þjóðaremban varð Íslendingum að falli.  Hún var notuð til að kæfa alla gagnrýni erlendra sérfræðinga.  Allt var öfund útlendinga í garð yfirburðafólks frá Íslandi.  Greiningadeildir bankana störfuðu eins og áróðursmálaráðuneyti.  Sterkasta tromp þeirra var að gera útlenda sérfræðinga tortryggilega - á meðan íslensku viðskiptasnillingarnir sönkuðu að sér hálfgjaldþrota fyrirtækjum á uppsprengdu verði og borguðu með lánsfé úr eigin bönkum.

Sigurjón (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 11:32

5 identicon

Sigurjón,

Vel mælt og vel metin atburðarrás.  Okkar fólk svaf svo sannanlega svefninum langa og rúmlega það.  Maður hefði haldið að með okkar svokölluðu ofurmenntuðu þjóð ( sem haldið hefur verið fram í ansi langan tíma að hún sé) þá réðu menn við það að koma í veg fyrir allsherjar hrun þjóðarinnar?.  Þetta fólk sem sagt skyldi ekki að of miklar skuldir gætu sligað okkur. 

En af hverju mættu ekki þessir mætu ( erlendu sérfræðingar ) með viðlíka ráðgjöf til annarra þjóða í vesturheimi?.  Eða gerðu þeir það og var ekki hlustað á þá þar frekar en hér?. Fjármála kerfi heimsins eru rústir einar.  Allir bankar eru gjaldþrota eða tæknilega gjaldþrota eins og vinsælt er að segja.  Með viðeigandi dómínó áhrifum í kjölfarið á efnahag viðkomandi þjóðar.

itg (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband