Laugardagur, 24. janúar 2009
Eftir reiðina kemur ... hvað?
Það er fjórði mánuður í reiði. Mótmælin á Austurvelli og víðar voru útrás fyrir reiði sem stafaði af fjármálahruninu og beindist að stjórnvöldum. Stærsti sigur reiðinnar fékkst í gær: Það verða kosningar í vor.
Hverju mun það skila að vera reiður fram að kosningum? Mun reiðin hjálpa til við að setja saman valkosti til að bera fram í þingkosningum? Hjálpar reiðin dómgreindinni? Er íslenskt samfélag betra reitt en í yfirvegun?
Í fjármálahruninu töpuðust peningar, mikið af þeim. Aðrar afleiðingar eru skuldsetning einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Gjaldþrot og atvinnumissir verða hlutskipti margra.
Það þarf að glíma við efnahagslegar afleiðingar hrunins samtímis sem endurreisa þarf stjórnmálamenningu þjóðarinnar.
Þessi vinna verður ekki unnin í reiði.
Athugasemdir
Nú þegar ákvörðun liggur fyrir um kosningar í maí þá verða kjósendur og mótmælendur að velta fyrir sér hvað tekur við. Er eitthvað betra í boði? Ég held ekki og þá verðum við í sömu sporum og í dag, ef ekki verr settir Íslendingar. Reyndar held ég að Sjálfstæðisflokkurinn verði að fara í endurhæfingu og hefði gott af að fara í frí. Þeir koma þá betri til baka.
Annað sem hugað verður að. Þau erlendu fyrirtæki sem hafa verið að hugleiða atvinnurekstur á Íslandi setja t.d. strax allar framkvæmdir í bið fram yfir kosningar. Þessi fyrirtæki forðast lönd þar sem stjórnarfar og stjórnmál eru óstöðug. Það er augljóst að ef Vinstri græn komast til valda (Steingrímur J forsætisráðherra) verður hætt við öll áform um virkjanir og þar með orkufrekan atvinnurekstur. Fyrirtækin verða þá fljót að forða sér og hætta við framkvæmdir. Þau hafa ekki áhuga á að starfa í óvissu. Hafa VG einhverjar lausnir í atvinnumálum? Málflutningur þeirra einkennist af neikvæðni og andstöðu við allar breytingar. Hafa VG upp á eitthvað að bjóða? Þetta verða kjósendur að hafa í huga þegar kemur að kosningum.
Guðmundur Óskarsson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 15:02
Ég tek undir þessa pælingu hjá þér, Páll. Reiðin er niðurrifsafl sem skilar aðeins óreiðu. Fólk þarf að vinna sig út úr reiðinni svo það geti farið að byggja upp. Því miður hefur þeim sem standa að mótmælafundum ekki hugkvæmst að leggja eitthvað af mörkum til umræðunnar. Þetta eru meira einhvers konar hallelúja samkomur á neikvæðum nótum. Síbylja endurtekninga.
Fjórum mánuðum eftir hrun hefði mátt búast við að einhverjum hugkvæmdist að setja fram uppbyggilega hugmynd. En mér sýnist menn bara vera að grafa sig dýpra í skotgrafirnar og hættir að reyna að kíkja upp yfir barminn.
Ragnhildur Kolka, 24.1.2009 kl. 15:26
Gott innlegg hjá þér frændi, eins og oft áður.
Örn Grétarsson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 15:45
Það sem þú og aðrir velunnarar Daviðs Oddssonar skilja ekki er að það verður engin sátt um ríkisstjórnina fyrr en stjórnendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verða látnir sæta ábyrgð. Það er stærsta krafan í samfélaginu.
Ég vona innilega að Þorgerður Katrín noti tækifærið sem forsætisráðherra og hreinsi út úr þessum stofnunum. Geir getur það ekki vegna þess að hann og Davíð eru of miklir vinir. Sem þýðir í raun að Geir er vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum til að fjalla um Seðlabankann.
Kveðja, Kaldi
Valdimar (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.