Það sem sjálfstæðismenn fatta ekki

Pólitísk forsaga bankahrunsins er frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins sem aftur var íslensk innleiðing á Thatcherisma og Reaganfræðum. Þegar Davíð Oddsson, þáverandi formaður, áttaði sig á græðgisuppvakningunni var of seint í rassinn gripið. Davíð reyndi að koma böndum á peningaofbeldið. Hann gerði það táknrænt þegar hann tók út af reikningi Kaupþings þegar honum ofbauð sjálftekt forstjóra og stjórnarformanns. Hann reyndi að setja lög á fjölmiðlaöfgar auðmannanna en var gerður afturreka.

Auðjöfrar sóttu sér pólitískt bakland í Samfylkingunni þegar formaður Sjálfstæðisflokksins vildi ekki spila með. Sjálfstæðisflokkurinn var skilinn eftir í kjölsogi nýauðvaldsins. Davíð kvaddi og Geir tók við keflinu og setti sér það markmið að halda sjó.

Bankahrunið afhjúpaði öfgar frjálshyggjunnar. Eftir situr Sjálfstæðisflokkurinn og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Og hvað gerist þá? Jú, um að gera að drepa brýnum málum á dreif, tölum um Evrópu í nokkrar vikur. Evrópunefnd er sett á laggirnar og bókað að aðalefni landsfundar skuli vera umræða um inngöngu í Evrópusambandið. Útrásarglýjan víkur fyrir blekkingu frá Brussel.

Áramótaútgáfa Andríkis segir allt sem segja þarf um skynsemi Evrópuumræðunnar þegar hún tilefnir rökstyðjara ársins þingmann Sjálfstæðisflokksins:

 

Rökstyðjari ársins: Ragnheiður Ríkarðsdóttir lýsti því yfir að hún vildi ganga í Evrópusambandið. Jafnframt vildi hún að „farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð".

 

Það sem sjálfstæðismenn fatta ekki er eftirfarandi: Frjálshyggjan er dauð sem pólitísk stefna, bæði á Íslandi og Vesturlöndum. Borgaralegir flokkar, þ.e. þeir sem eru með ráði og rænu, fara í hugmyndahirslur sínar og leita að rykföllnum verðmætum. Borgaralegar dyggðir eins og ráðdeild, ábyrgð, hófsemi, þegnskapur verða viðbrögð við yfirfalli útrásarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að rekja sig tilbaka að grunngildunum og spyrja sig í leiðinni hvers vegna svona hrapallega tókst til. Á þeirri vegferð er hætt við að sumir heltist úr lestinni. Mistök á Richter-skala krefjast fórnarlamba. Valið stendur á milli þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki til í sínum ranni eða að móðurflokkur íslenskra stjórnmála falli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

... vel mælt og drengilega Páll.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:29

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

"Frjálshyggjan er dauð sem pólitísk stefna, bæði á Íslandi og Vesturlöndum" segir þú Páll. En var það ekki einmitt það sem menn sögðu um kommúnismann þegar Sovétríkin féllu fyrir tuttugu árum. Ertu viss um að sú sé staðan í dag. Líttu á táknmynd Sveins Elíasar hér fyrir ofan.

Vissulega þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka til í sínum ranni en það þurfa líka aðrir flokkar og allur almenningur að gera. Það var nefnilega enginn sem stóð fyrir utan partýið. Fólk hafði mismikið upp úr gleðskapnum en enginn fór alveg slippur út.

Það var tímabært að taka bankana úr ríkisumsjá, það sanna öll ævintýrin sem við horfðum  á rísa á kostnað almennings sem síðan þurfti að borga brúsann þegar þau hrundu með endalausum gengisfellingum. Frelsið er vandmeðfarið og þeir sem tóku við bönkunum kunnu sér ekki hóf. Regluverkið hefði mátt vera betra, en eins og þú bendir á sjálfur þá tók þjóðin sér stöðu með auðmönnunum.

Nú bítur hún í það súra epli.

Ragnhildur Kolka, 10.1.2009 kl. 14:08

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

þjóðin réði í raun engu ragnhildur og tók í raun enga stöðu aðra en þá að lesa fríblöð sem var troðið inn um lúgurnar - vandamálið er fyrst og fremst að allt í einu þótti hið blandaða hagkerfi úrelt og einstefna réði ferðinni. góð greining hjá páli.

Bjarni Harðarson, 10.1.2009 kl. 16:48

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Væri óskandi að þeir sem stýra flokknum hefðu kjark til að játa mistökin og gera fortíðina upp með sama hætti og þú lýsir í færslunni. Sama má segja um aðra flokka.

Það væri fengur í annarri færslu undir næstum því sömu fyrirsögn. Bara stytta hana um eitt orð.

Haraldur Hansson, 10.1.2009 kl. 17:38

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Já þetta er flottur pistill og verulega gaman að lesa svona greinargóð, hnitmiðuð skrif. Það er þó eitt í pistlinum sem er rangt, og það er meira að segja kolrangt: SJÁLFSTÆÐISMENN FATTA ÞETTA VÍST.

Baldur Hermannsson, 10.1.2009 kl. 19:37

6 identicon

Þetta er hárrétt hjá þér og tekur undir með Baldri sjálfstæðismenn fatta þetta víst.

Anna María (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 20:43

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú ert brattur Páll.

Enginn hefur opinberlega verið eins ákafur stuðningsmaður Davíðs Oddssonar og þú Páll, jafnvel Hannes Hólmsteinn aðal ráðgjafi Davíðs hefur ekki slegið þér við hin seinni ár.

En vel að merkja, þá er Hannes Hólmsteinn í bankaráði Seðlabankans í skjóli Davíðs, og auðvitað settur þar sem aðal hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar á Íslandi. Það er ekki langt síðan Hannes Hólmsteinn stærði sig af því í útlendu viðtali hve vel Davíð hefði tekist undir hans leiðsögn að koma á Thatcherisma á Íslandi - og trúlega gengið lengra en tekist hefði annarsstaðar.

Davíð hefur nú haft mörg ár til að raunverulega að spyrna við peningastefnu Thatcherisma ef hann vildi, og vel að merkja þá er nýfrjálshyggja og Thatcherismi hvorki stefna um fjölmiðla né Bónus, heldur um peningamagn í umferð og að auðvald sé án opinberra afskipta, eftirlits og almennra meginregla.

Með eindregnum næstum trúarkenndum stuðningi þínum við Davíð hefur þú stutt það sem Davíð skapaði og stóð fyrir og rutt hugmyndum Hannesar Hólmsteins og Thatchers áframhaldandi braut.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 23:03

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll og takk fyrir góða grein.

Mikið vildi ég að hann Baldur hefði rétt fyrir sér og landsfundur Sjálfstæðisflokksins myndi takast á við þetta sársaukafulla uppgjör, í stað þess að takast á um veruleikaflótta.  Eins myndi það breyta allri umræðunni, því í dag kæfa varðhundar frjálshyggjunnar á fjölmiðlunum allar nauðsynlegar umbóta tillögur eins og þær sem Benedikt Sigurðarson Akureyri hefur lagt fram um frystingu verðtryggingunnar.  Vegna þess að einhverjir kratískir frjálshyggjupáfar segja að það sé ekki hægt, þá eru þessi mál ekki rædd þó verið sé að aflífa heila kynslóð Íslendinga í fjárhagslegu tilliti.

Ef íhaldið tæki umræðuna og horfðist í augun á sinn ábyrgð, þá væri von að það axlaði hana líka og færi að vinna að uppbyggingu hins Nýja Íslands.  Einn liður í því gæti verið sá að fjölmiðlafólk Sjálfstæðisflokksins stöðvaði ekki alla vitræna umræðu með þöggun eða sem verra er, að fá gömlu álitsgjafana, sem höfðu rangt fyrir sér að öllu leiti í aðdraganda hrunsins, kjafta yfir alla vitræna umræðu með sínum gömlu frösum, sem sagan í dag hefur dæmt VITLEYSU, stórhættulega bæði eistaklingum, fyrirtækjum og þjóðum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2009 kl. 00:08

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hvað þá?????? Og ég sem hélt að öll gáfnaljósin væru flutt suður.......

Baldur Hermannsson, 11.1.2009 kl. 01:13

10 identicon

Ágætu bloggarar. Sem Sjálfstæðismaður gleðst ég yfir því mikla áliti sem þið hafið á flokknum mínum.

Bankakreppan okkur að kenna - ja hérna manni minn - reyndar hef ég aldrei skilið þetta frjálshyggjutal - ef það að treysta fólki til athafnafrelsins þá er það gott - en smáhnökrar á því - Íslendingar fara gjarnan lengra en til er ætlast - misnota frelsið og gera hverskonar skammir af sér - kanski vegna þess að við búum svona norðarlega - hvað veit ég um það?

En það er annað með minn öfluga flokk og forystuna hjá okkur - ótrúlega margir kenna Geir um kreppuna. Ég hef aðeins kynnst manninum og elsku drengir - það er fjarri öllu lagi að hann hafi haft vald til þess að steypa Lehmanns bankanum í USA - tel líka að hann hafi ekki haft áhuga á slíku.

En að hann hafi gert þetta --þá fer ég að gruna minn mann um græsku -getur það verið að hann hafi hrundið austurlandakreppunnu af stað - Suður Ameríkukreppunni - Evrópukreppunni - nei þetta gengur ekki GER H HAARDE hættu þessu fikti með fjármálakerfi heimsins.

Eða er hann kanski ekki svona öflugur? Er þetta ofmat andstæðinga foringjans? Að sjálfsögðu.  Ómar bindur miklar vonir við Landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það geri ég líka. Hann kemst að þeirri nuðurstöðu  að eftir fundinn leggist flokkurinn í endurreisnarstarfið - það geri ég líka.

Að fjölmiðlafólk Sjálfstæðisflokksins stöðvaði ekki alla vitræna umræðu. Ómar minn - ég veit ekki til þess að Jón Ásgeir sé sérstakur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hinsvegar skilst mér að hann eigi dágóðan hlut í fjölmiðlaflórunni á Íslandi.

Landsfundurinn mun verða harður - og það er bara í góðu lag - flokkurinn mun komast að sameiginlegri niðurstöðu.

En endilega stillið aðdáun ykkar á Geir í hóf - hann er ekki Guð - hann er ekki fulltrúi margmiljóna þjóðar - hann getur ekki einu sinni reist fólk upp frá dauðum.

Ólafur I Hrólfsson

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 02:04

11 Smámynd: Þórir Kjartansson

Alltaf gott að sjá þegar menn geta viðurkennt staðreyndir en láta ekki pólitíska blindu ráða ferðinni. Sú blinda hrjáir allt of marga og var ein af stóru ástæðunum fyrir hruninu.   Þessvegna Páll: bestu þakkir fyrir þetta innlegg.   Batnandi mönnum er best að lifa.

Þórir Kjartansson, 11.1.2009 kl. 10:32

12 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ólafur Hrólfsson á harðahlaupum undan veruleikanum eins og fyrri daginn. Auðvitað ber Sjálfstæðisflokkurinn pólitíska ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkur. Hreinræktaður aumingjaskapur  að viðurkenna ekki það. Við höfum setið í stjórn bráðum 18 ár. Allt óx þetta undir okkar handarjaðri. Ég hef kosið flokkinn allan þennan tíma og axla mína ábyrgð þótt í litlu sé.

Baldur Hermannsson, 11.1.2009 kl. 12:29

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sjálfstæðisflokkur er stétt með stétt og frelsi allra einstaklinga til að láta gott af sér leiða öllum og sér í hag. Græðgi má líkja við eyðni þeir töldu sýki sína í milljörðum eru ekki 98% þjóðarinnar sem uggði ekki um hag sinn.  Stórir hópar voru skildir útundan í græðgi yfirtöku tækisfærisinnanna. Þau sömu kalla sig sjálfa ný-frjálshyggjumenn [meinti frjálshyggjumenn sem USA hafnar svo þeir leita uppi svæði þar sem regluverki og siðferði er ábótavant]. Ein grein eða bræður þeirra eru ofurBauroK-ratar: Skrifræðis og forræðishyggju og vinna aðilar vel saman.  Þessi tegund hefur í allri sögu mannsins troðið sér inn í alla hópa til að ná áhrifum að því að þeir nenna ekki að baka brauðið sjálfir. 

Júlíus Björnsson, 11.1.2009 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband