Laugardagur, 3. janúar 2009
Réttlæti og verðmæti
Fréttir af skilanefndum bankanna eru fáar og strjálar. Þær fréttir sem berast eru ekki góðar. Milestonebræður áttu að fá upp í hendurnar reksturinn sem þeir keyrðu í þrot með loforði um bónus ef vel gengi. Með óljósum rökum um björgun verðmæta átti að afhenda fífldjörfum auðmönnum rekstur sem þeir keyrðu í þrot.
Skilanefndir bankanna eru í vinnu hjá þjóðinni sem á skuldirnar. Áður en nefndirnar hugsa um peningaleg verðmæti ættu þær að hafa tvennt annað í huga.
Í fyrsta lagi að það er ekki góð forvörn að verðlauna áhættu. Þjóðin er í núverandi vanda vegna þess að auðmenn tóku óheilbrigða áhættu í sínum rekstri. Með því að gefa þeim reksturinn á silfurfati og skilja skuldirnar eftir er hvatt til áhættu. Fjármálaleg fíflska er beinlínis verðlaunuð.
Í öðru lagi er það spurningin um réttlæti. Drápsklyfjar eru núna lagðar á almenning vegna útrásardraums auðmanna sem varð að þjóðarmartröð. Í uppgjöri við auðmennina þarf þjóðin að sjá að réttlætið nái fram að ganga. Og það er ekkert réttlæti í því að auðmenn haldi forræðinu á rekstri sem kominn er í þrot.
Athugasemdir
Það er einmitt þetta sem þarf að hamra á: af hverju eiga mestu skuldararnir að fá mestu aflausnina? Er réttlæti í því? Menn sem tóku milljarða og ætluðu að kaupa hálfan heiminn, þar standa nú berstrípaðir og hafa dregið heila þjóð niður í hyldýpi. Menn sem allir héldu að vera snillingar. Svo kemur í ljós að þetta var allt feikn og forgengileiki, heimskunnar óráð. En þar sem þeir standa berstrípaðir og úthrópaðir ætlar ríkisvaldið með Geir og Ingibjörgu fremst í flokki að koma þeim til hjálpar og afskrifa allt dásemdar draslið. Á sama tíma skulda ég nokkrar milljónir í íbúð sem ég keypti fyrir allnokkru. Ekki var ég að flengjast um heimsbyggðina með annarra manna peninga til að kaupa hálfan heiminn. Fæ ég aflausn fyrir að gera það sem ríkið hvatti fólk til að gera með lífssparnað sinn: fjárfesta í eigin húsnæði? Hver er munurinn á milljón hjá mér og milljarði hjá auðjöfrum? Sennilega sá að skilanefndin kann ekki að telja svo lágt.
Helgi (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 12:37
Veist þú Páll hve háar "drápsklyfjarnar" eru í reynd ?
Þær tölur sem ég hef heyrt verða stöðugt hærri.
Það vita það allir sem hér búa að skuldir auk vaxta geta orðið það háar að það er ekki hægt að ná að greiða skuldina niður.
Það eru því einhverjar líkur á því að við náum aldrey að greiða skuldina - og hvað þá ? Þessi möguleiki þarf að vera uppi á borðinu nú og hann þarf að ræða.
Hákon Jóhanesson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.