Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Undanhald Geirs leiðir til ósigurs
Skipun Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins var undanhald í kjölfar bankahruns. Í fáeina daga í nóvember virtist sem þjóðin vildi snúa bankahruninu í niðurlægjandi ESB-inngöngu. Örvæntingin í Sjálfstæðisflokknum náði slíkum hæðum að formaðurinn sá þann kost helstan að skipa nefndina og boða til landsfundar. Undanhald í meginmálum er varhugavert og síðustu daga hefur það orðið skýrara hvers mikil mistök það voru að búa til sérstakan vettvang fyrir aðildarsinna.
Geir H. Haarde forsætisráðherra boðar nýtt undanhald í áramótaávarpi. Nú á að greiða þjóðaratkvæði um það hvort við viljum sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er handónýt leið af tveim ástæðum.
Í fyrsta lagi verður illmögulegt að búa til reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu þegar vitað er að verið sé að smíða reglur um eina tiltekna spurningu. Hverskyns álitamál munu koma upp og þau verða öll metin í samhengi við þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki út frá almennum sjónarmiðum. Þá er verið að skapa hættulegt fordæmi um að sérhagsmunahópar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um sín mál. Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju, andstæðingar kvótakerfis gætu með rökum krafist þjóðaratkvæðis um sín áhugamál.
Í öðru lagi er verið að flytja umræðu og ákvarðanir frá hefðbundnum vettvangi, þ.e. stjórnmálaflokkum og Alþingi, yfir á einskinsmannsland þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokkurinn er einfaldlega að gefast upp á hlutverki sínu með því að boða til þjóðaratkvæðis um það hvort sækja eigi um inngöngu.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert umboð frá kjósendum til að breyta um stefnu varðandi aðild að Evrópusambandinu. Þeir þingmenn sem vilja sækja um aðild eiga að krefjast almennra þingkosninga þar sem stjórnmálaflokkar setja saman framboðslista og kjósendur velja framboð.
Í almennum þingkosningum kemur fram hvort þjóðin hefur áhuga á að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.
Í íslenskum stjórnmálum hafa tækifærissinnar flaggað fána Evrópu. Allt frá árinu 1995, þegar Alþýðuflokkurinn setti aðild á dagskrá, hefur Evrópusambandsaðild verið upphlaupsmál einstaklinga og flokka. Í efnahagsfárviðri sem nú geisar er þess að vænta að einhverjir láti freistast af kjánahugmyndum. Sumir gangast jafnvel stoltir við því að vera kjánar: Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingar lét hafa eftir sér að innganga í Evrópusambandið væri töfralausn á vanda þjóðarinnar.
Undanhald gagnvart tækifærismennsku og kjánaskap vekur ekki tiltrú. Ef grannt er skoðað er vandi Geirs H. Haarde og Sjálfstæðisflokksins ekki hvort sækja eigi um inngöngu eða ekki; umsókn væri banabiti formanns og flokks.
Stóri vandinn er að sannfæra þjóðina að í Sjálfstæðisflokknum séu til gildi þjóðlegrar íhaldssemi með ábyrgð, einstaklingsfrelsi og ráðdeild í öndvegi. Þjóðin hefur horft upp á það hvernig frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins varð að græðgisvæðingu og leiddi til undirferlis og efnahagslegs ofbeldis þar sem lygar og ósvífni gáfu vel í aðra hönd.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að kannast við ábyrgð sína, útskýra hvers vegna svo illa tókst til og stika út leið úr ógöngunum.
Umræðan um aðildarumsókn er flótti frá brýnum pólitískum viðfangsefnum. Undanhald leiðir til ósigurs.
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að beita sér fyrir úrlausn þeirra vandamála sem þjóðin stendur frammi fyrir og axla ábyrgð á því. Það verður svo sannarlega ekki gert með því að koma þeirri ábyrgð ásamt ábyrgðinni á stjórn landsins yfir á einhverja aðra, þ.e. embættismenn erlends skriffinskubákns sem íslenzkir kjósendur hefðu aldrei neitt um eða yfir að segja. Það væri fullkominn flótti frá raunveruleikanum og um leið yfirlýsing um að Sjálfstæðisflokknum væri einfaldlega ekki treystandi fyrir stjórn landsins. Hann væri hreinlega óstjórntækur.
Hjörtur J. Guðmundsson, 1.1.2009 kl. 14:34
Þessi tillaga Geirs er bergmál þess þegar Guðni Ágústsson lét undan ESB-öflunum í sínum flokki og boðaði þjóðaratkvæði um aðild.
Stjórnmálaflokkar sem geta ekki sett fram stefnu eða haldið henni uppi eiga ekkert erindi, eins og sannast með Framsókn og lítur út fyrir að verða örlög Sjálfstæðisflokksins.
Ragnhildur Kolka, 1.1.2009 kl. 16:23
Því miður já Ragnhildur. Eðlilega má spyrja sig að því hver tilgangurinn sé með stjórnmálaflokkum sem treysta sér ekki til þess að móta sér afgerandi stefnu til stórra mála og standa síðan og falla með henni. Sem eru eins og laufblað í vindi þegar virkilega á reynir.
Hjörtur J. Guðmundsson, 1.1.2009 kl. 17:54
Að standa og falla með stefnum Raghildur og Hjörtur! Þetta er nú ekki viturlega mælt. Þá yrðu nú ekki miklar framfarir. Það hlýtur að vera eðli allra þeirra sem eru í stjórnmálum að aðlaga stefnu sína og flokka að því sem þeir álíta að skili fólkinu í landinu bestur lífsgæðum. Og því hljóta allir að uppfæra og fara yfir stefnu flokksins m.t.t. þróunar í heimsmálum og með aukinni þekkingu. Til þess eru landsfundir þessara flokka. Annars yrðu engar framfarir og stöðnun mundi ríkja.
Magnús Helgi Björgvinsson, 1.1.2009 kl. 20:50
Nákvæmlega Magnús, standa og falla með þeirri stefnu sem þeir telja að sé landi og þjóð til mestra heilla. Ekki dansa eftir því sem þeir halda að sér vinsælt það og það augnablikið. Samfylkingin hefur séð um það að mestu hingað til, það þarf ekki fleiri til þess.
Hjörtur J. Guðmundsson, 1.1.2009 kl. 21:47
Gísli, ég ætla ekki að leggja þér orð í mun, en þín skoðun um að skoða hvað sé í boði hljómar eins og þú viljir falbjóða fullveldið. Í mínum huga er sumt einfaldlega ekki til sölu - punktur.
Páll Vilhjálmsson, 1.1.2009 kl. 22:52
Ágreiningur á milli okkar, Gísli, er held ég ekki um kosningar heldur um fullveldi. Smáþjóðum er fullveldi mikilvægara en stórþjóðum, stærri þjóðir ganga að því meira og minna vísu. Og þótt við notum hugtakið almennt verður það sértækt um leið og við tölum um einstakar þjóðir. Fullveldi Norðmanna er t.d. sett í samhengi við aðskilnaðinn frá Svíum 1905 og hernám Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld. Fullveldi okkar er varðveisla tungumálsins, barátta fyrir heimastjórn og yfirráð yfir auðlindum.
Sennilega telja sumar þjóðir að fullveldi þeirra festist í sessi við inngöngu. Finnar, til að mynda, hafa barist við Svía í vestri og Rússa í austri um að fá að stofna til þjóðríkis. Með bandamann í Brussel gætu Finnar litið svo á að um frekari tryggingu fyrir fullveldi væri að ræða.
Við erum aftur eyþjóð á miðju Atlantshafi og vitum af biturri reynslu að óskynsamlegt er að flytja sjálfsforræðið úr landi.
Þess vegna er ekkert fyrir okkur að skoða og engin boð að gaumgæfa.
Páll Vilhjálmsson, 1.1.2009 kl. 23:26
Ég tel að ESB ætli sér Ísland sem aðildarþjóð hvað sem tautar og raular. Það verða notaðir allir nauðsynlegir fjármunir til þess að vinna þessa þjóð til fylgislags með öllum þeim meðulum sem þarf. Um þetta ætti ekki einu sinni að þurfa að deila.
Við erum aðeins 320.000 manns. Við verðum örlítið brot af mannfjölda ESB, með engin áhrif. Um það þarf heldur varla að vera mikill ágreiningur.
ESB fær með aðildinni mjög stórt landsvæði og risastórt hafsvæði með tilheyrandi auðlindum. Það er ávinningurinn sem þeir horfa til. Það verður ekkert mál að kæfa smáþjóðina í þessu sambandi.
ESB er bara bandaríki Evrópu í smíðum. Þetta er ekki staðnað bandalag þjóða heldur stórveldi í hröðum uppvexti. Þarna ræður ekki ferðinni nein sérstök manngæska heldur sérgæska. Það er engin sérstök góðvild á bak við hugmyndina að stórríki Evrópu.
Þau vandamál sem íslendingar telja að leysist með aðild að ESB eru ÖLL leysanleg af okkur sjálfum að svo miklu leyti sem það er hægt. Sum dellurök ESB sinna um t.d. lækkað matarverð er bara óskhyggja því ESB niðurgreiðir ekki flutningskostnað yfir Atlantshafið og mun ekki gera með okkar aðild.
Fullveldi er afsalað með ESB aðild. Ef svo væri ekki þyrfti ekki að hugleiða einu sinni breytingar á stjórnarskránni. Það er heldur ekki ásættanlegt að hlusta á rök Eiríks Bergmanns "Evrópufræðings" að það sé fullveldi að mega afsala sér fullveldi.
Það eru tvær aðalástæður fyrir því að menn vilja sækja um aðild. Í fyrsta lagi efnahagsleg hagnaðarvon og í öðru lagi einhver undarleg minnimáttarkennd.
Ég tel engan tilgang í að ræða aðild að ESB. Gengnar og komandi kynslóðir eiga það inni hjá okkur að vernda sjálfstæði landsins sem var svo torfengið fyrrum.
Ég er ekki á móti ESB aðild vegna einangrunarlöngunar, þvert á móti, vil ég aukna samvinnu allra þjóða heims og tel eineltisklúbb 27 þjóða ekki eftirsóknarverðan millileik í bættum samskiptum allra þjóða heims.
Ísland getur vel leyft sér að vera leiðandi í því að stuðla að frjálsum viðskiptum um allan heiminn ekki síst til að gera vanþróaðri ríkjum betri möguleika á að lífskjör í heiminum jafnist frá því nú er.
Aðild að ESB er skv. ofansögðu allt of skammsýn aðgerð í því að bæta heiminn.
Haukur Nikulásson, 2.1.2009 kl. 03:13
Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi mynd er búinn að vera. Þeir sem hafa borið hann uppi fjárhagslega eru fylgjandi aðild að ESB og þeir eru mjög valdamiklir. Trúlega er meirihluti flokksmanna á móti aðild og hann mun klofna í þessu máli.
Næstu kosningar munu snúast um ESB málið og þá er ekki smuga að Sjálfstæðisflokkurinn komi heillegur að því máli. Það hljóta flestir að sjá nú þegar.
Haukur Nikulásson, 2.1.2009 kl. 03:21
Nokkuð er athugasemdin hér á undan vanstillt, en orðin sem þar eru tekin úr pistlinum vekja undrun. Ef eitthvað gott gæti hugsanlega komið út úr umbrotum dagsins er það aukin áhersla á beint lýðræði. Það er erfitt að vera ósammála forsætisráðherra um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og mál til komið að brjóta niður þann margeflda mótstöðumúr við þátttöku almennings við mótum löggjafarvaldsins og þess vegna framkvæmdavaldsins. Þarna sést inn í kviku feðravaldaðs forræðishyggjumanns.
Kristján B. Jónasson, 2.1.2009 kl. 10:48
Ragnar Örn og Kristján B. annars vegar og undirritaður hins vegar erum ekki á einu máli um þjóðaratkvæðagreiðslur. Eins og stundum er spurning hvort hér sé raunverulegur ágreiningur eða misskilningur. Ég ætla að reyna að útskýra afstöðu mína.
Að mínu viti geta þjóðaratkvæðagreiðslur gert sig þegar álitamálin eru vel skilgreind og hafa fengið eðlilega umræðu í almennri pólitískri umræðu. Dæmi: Ef umræða væri um að hækka sjálfræðisaldur í 22 ár, nú eða lækka hann í 16 ár, væri einhver sem bæri slík sjónarmið fram og fengi ef til vill áheyrn hjá stjórnmálaflokkum, í fjölmiðlum eða fólki eins og Agli Helga eða Herði Torfa sem eru orðnir dagskrárvald í samfélaginu. Að einhverjum tíma liðnum, nokkur misseri eða ár eftir atvikum, með tilheyrandi tékki í skoðanakönnunum og almennri umræðu, og að því gefnu að álitamálið kristallaðist þannig að hægt væri að forma einfalda já eða nei spurningu væri hægt að hafa um það þjóðaratkvæði.
Ef við ætlum á hinn bóginn að hafa reglulega þjóðaratkvæðagreiðslur um þessi eða hin málin sem stærri eða smærri hópar bera fram í samfélaginu þá held ég að fljótlega færi að bera á stjórnleysi. Menn gleyma því auðveldlega að nennustig lýðræðis er ekki ýkja hátt; fólk hættir að gefa lýðræðinu gaum ef það þarf sí og æ að greiða atkvæði sitt í stærri eða smærri málum. Og, vel að merkja, stórmál í hugum sumra, til dæmis aðskilnaður ríkis og kirkju, er tittlingaskítur í augum annarra.
Ef þjóðfélagið verður sneisafullt af einsmálshópum sem fær sínar reglulegu þjóðaratkvæðagreiðslur nennir venjulegt fólk ekki að sinna kallinu. Fólk mun alltaf hafa þann rétt að kjósa ekki. Við verðum fljótlega komin í þá stöðu að smáhópar get keyrt sín mál í gegn með sex prósent fylgi við einhvern málstað vegna þess að ekki nema tíundi hver kjósandi hefur fyrir því að greiða atkvæði
Bein lýðræði í formi þjóðaratkvæðis getur verið góður kostur. En aðeins í undantekningartilfellum.
Páll Vilhjálmsson, 2.1.2009 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.