Þjóðfélag á hreyfingu

Mótmæli hér, borgarafundur þar, gagnrýnispistlar í blöðum og andmæli á netinu; almenningur á Íslandi lætur í sér heyra sem aldrei fyrr. Bankahrunið, krafan um makleg málagjöld og ótti vegna efnahagslegrar óvissu eru hvatar sem hreyfa við fólki. Þegar þjóðfélag fer á hreyfingu fara þeir líka á sjá sem vilja beita ólgunni fyrir vagn sinn.

Evrópusinnar reyndu að virkja mótmælendur í þágu málstaðarins og varð nokkuð ágengt í fyrstu. Heldur hefur dregið úr þeim byr sem Brusselskútan fékk í seglin fyrst eftir hrunið. Fólk sýndi ekki tiltrú á þeim sem lofuðu betri tíð með blóm í haga Evrópusambandsins.

Fyrsta alda mótmælanna krafðist þess að ráðamenn sættu ábyrgð. Davíð Oddsson Seðlabankastjóri var hentugt skotmark og fékk hann það óþvegið. Baugsmiðlar reru undir enda var búið í haginn fyrir andúð á Davíð í fjölmiðlafárinu fyrir fjórum árum. Þorsteinn Pálsson stýrir atlögunni að Davíð núna þegar Gunnar Smári Egilsson er fjarri. Næst voru það ráðherrar, einkum þeir yfir fjármálum og viðskiptum, sem áttu að taka pokann sinn. Þegar þeir sátu sem fastast var krafa um kosningar sett á oddinn. Vantraust á ríkisstjórnina var fellt á þingi og líkur á að slagorðið kosningar strax hverfi í bili.

Mótmælin eru þó ekki líkleg til að fjara út. Skriðþungi þeirra er orðinn of mikill. Aðventan er ekki heppileg til andófs en eftir svikalogn jólanna verður nægt eldsneyti í uppsteyt. Nýtt ár heilsar með auknu atvinnuleysi og vísitöluhækkun lána.

Ríkisstjórnin er í þröngri stöðu. Ofaná bankahrun bættist óeining milli ríkisstjórnarflokkanna. Í Samfylkingunni grefur um sig klíkumyndun vegna yfirvofandi forystukreppu.

Takist ríkisstjórninni ekki að móta trúverðuga stefnu til endurreisnar á næstu vikum verður Evrópustefnan ekki til umræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar heldur stefnuskrá fyrir vorkosningar.


mbl.is Húsfyllir í Háskólabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er aumt til þess að vita að Þorsteinn Pálsson hefur skipað sér á botn Baugsveitunnar með þeim vafasömu ritstjórum og félögum Reyni Traustasyni og Gunnari Smára Egilssyni.

joð (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 23:18

2 identicon

Því miður er þetta sennilega rétt hjá þér, Páll. Ég tek eftir því að hér og þar eru menn innan Samfylkingar teknir að tala um ráðherraskipti og jafnvel leiðtogaskipti. Þá er nafn Árna Páls Árnasonar oftast nefnt sem segir manni hver uppspretta umræðunnar er.

Sjálfstæðisflokkurinn mun þurfa að búa sig undir kosningar í vor. Það held ég að sé alveg ljóst. Núverandi forusta flokksins er því miður algjörlega óhæf. Það skapa tækifæri fyrir framapotara.

Allt tal um vald fólksins er meira og minna blekking, runnin undan rifjum fólks sem ætlar sér stóra hluti á hinu nýja Íslandi. Þótt allir flokkar taki þátt í þeim spuna er VG einna verstir. Þeir standa fyrir því að krakkar grýta alþingishúsið um hverja helgi og hvöttu líka til árásar á lögreglustöðina. Og þetta er fólkið sem almenningur vill fá til valda.

Kannski er þó einna merkilegast að auðmennirnir sem komu þjóðinni á kné, þessir 30 menn sem hafa niðurlægt heila þjóð og gera hana gjaldþrota ráða ennþá öllum "frjálsum fjölmiðlum" í landinu. Hvernig getur þetta gerst?

Karl (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband