Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Morgunblaðið birtir ekki fréttir
Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins er áhugasamur um að Ísland gangi inn í Evrópusambandið. Í ritstjórnargreinum sér þess glögg merki hvert hugur ritstjórans stendur. Til skamms tíma var það yfirlýst stefna Morgunblaðsins að þrátt fyrir að ritstjóri hefði þetta eða hitt áhugamálið væri fréttamat blaðsins og fréttaflutningur faglegur og lyti almennum sjónarmiðum um hvað teldist fréttnæmt og hvað ekki.
Í gær birtist frétt í norskum fjölmiðlum um niðurstöðu könnunar á vilja Norðmanna til að ganga í Evrópusambandið. Fréttin var sögð í Útvarpinu og Eyjan var með tengil á fréttina. Morgunblaðið sagði ekki fréttina.
Norska skoðanakönnunin staðfesti yfirgnæfandi andstöðu Norðmanna við inngöngu í Evrópusambandið. Hér er tengill á fréttina í norsku dagblaði.
Er Morgunblaðið orðið safnaðarrit fyrir Evrópusinna?
Athugasemdir
Þetta er nú varla frétt. Afstaða Norðmanna sveiflast til og frá og hefur alltaf gert.
Bobbi (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 10:39
Norðmenn geta leyft sér að standa utan ESB vegna olíuauðs síns. En Norðmenn eru að sigla inn í mikil vandræði og mun norska krónan verða fyrir árásum vegna fjármagnsflótta og spákaupmennsku á næstunni.
Það er mikil kreppa að fara í gang um alla veröld og hefur olíuverð hrunið og mun verðið lækka enn meira vegna minnkandi eftirspurnar.
Þá munu lönd eins og Noregur og Rússland lenda í miklum vandræðum vegna þess að olíuauður þessara landa hefur verið notaður sem gjaldeyrisvarasjóður fyrir löndin og þar með baktrygging rúblunnar og krónunnar.
Einnig hafa bæði Norðmenn og Rússar tapað stjarnfræðilegum upphæðum á falli hlutabréfa á árinu, er t.d. Norski olíusjóðurinn búinn að tapa mjög stóra hluta eigna sinna á falli hlutabréfa.
Hvað gerist við slíkar aðstæður? Jú, erlendir fjárfestar flýja þá viðkomandi lönd og fara með fjárfestingar sínar í stærri mynteiningar eins og evru eða dollar.
Við slíkar aðgerðir minnkar gjaldeyrisvarasjóður Noregs og Rússlands mikið og gjaldmiðlar þeirra verða fyrir áhlaupi.
Við það minnkar verðgildi þeirra og gengið sígur, eða hrynur.
Þá fer verðbólgan á kreik vegna hækkunar á innfluttum vörum og kjör fyrirtækja og almennings rýrna mikið.
Til þess að verja krónuna og rúbluna þurfa svo seðlabankar þessara landa að hækka vexti til þess að reyna að lokka fjárfesta til þess að fara ekki úr landi með sínar fjárfestingar.
Afstaða Norðmanna byggist mikið á þjóðernissinnuðum skoðunum en ekki raunhæfu mati.
Ég leyfi mér að fullyrða að skoðun Norðmanna eigi eftir að breytast mikið nú þegar að olíuverð hrynur og efnahagur Norðmanna verður fyrir áfalli vegna þess.
Kv.
Hermann
Hermann Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 11:39
Norðmenn hafa verið að miklum meirihluta andsnúnir aðild að Evrópusambandinu samkvæmt skoðanakönnunum samfellt síðan Frakkar og Hollendingar höfnuðu Stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæði 2005.
Hjörtur J. Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.