Gunnar Smári blaðamaður

Gunnar Smári Egilsson stundar hvítþvott á síðum Morgunblaðsins með daglegum greinum. Hann titlar sig blaðamann en hefur gengið manna lengst í blekkingum og beinum lygum í þágu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Á miðju sumri 2002 stofnuðu Gunnar Smári Egilsson og Ragnar Tómasson lögfræðingur einkahlutafélagið Frétt ehf  og keyptu rekstur Fréttablaðsins sem hafði komist í þrot undir stjórn Gunnars Smára. Þeir voru leppar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem þá var forstjóri Baugs.

Viðskiptahugmynd Jóns Ásgeirs var að láta verslanir í eigu Baugs kaupa auglýsingar í Fréttablaðinu til að festa blaðið í sessi. Baugur var almenningshlutafélag á þessu tíma og óeðlilegt, ef ekki ólöglegt, að forstjóri Baugs myldi undir einkafyrirtæki sitt.

Eftir því sem Fréttablaðinu óx ásmegin varð Jóni Ásgeiri hugleiknara að nota útgáfuna til að jafna um Davíð Oddsson forsætisráðherra. Davíð hafði gagnrýnt matvöruverslanir fyrir að lækka ekki vöruverð þegar gengi krónunnar hækkaði. Á Alþingi í janúar 2002 sagði Davíð í utandagskrárumræðum að til greina kæmi að skipta upp Baugi ef fyrirtækið misnotaði markaðsráðandi stöðu sína.

Málshefjandi var Össur Skarphéðinsson sem þá var formaður Samfylkingarinnar. ,,Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur," sagði Össur og bætti við, ,,það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda."

Í fyrsta svari sínu til Össurar fór forsætisráðherra almennum orðum um efnahagsástandið og taldi það horfa til betri vegar þrátt fyrir verðbólguskot. Össur fór öðru sinni í ræðustól og brýndi forsætisráðherra. Davíð svaraði með þeim orðum að ,,[a]uðvitað á að fylgja því eftir að stórir aðilar séu ekki að misnota aðstöðu sína. Auðvitað er 60% eignaraðild í matvælafyrirtækjum, verslunarfyrirtækjum í matvælaiðnaði, allt of há hlutdeild. Auðvitað er það uggvænlegt og sérstaklega þegar menn hafa á tilfinningunni að menn beiti ekki því mikla valdi sem þeir hafa þar af skynsemi. Auðvitað hlýtur að koma til greina af hálfu ríkisins og Alþingis að skipta upp slíkum eignum ef þær eru misnotaðar."

Jón Ásgeir tók gagnrýninni illa og gremja hans beindist að forsætisráðherra en ekki málshefjanda. Hreinn Loftsson stjórnarformaður var sendur á fund Davíðs. Þeir hittust í London. Forstjóri Baugs beit það í sig að forsætisráðherra stæði á bakvið húsrannsóknina hjá Baugi haustið áður. Honum fannst óhugsandi að lögreglan tæki Baug til rannsóknar án beinna fyrirskipana frá forsætisráðherra. Dagskrárvald Fréttablaðsins, sem Jón Ásgeir stýrði án þess að almenningur vissi að hann ætti blaðið, skyldi beitt á forsætisráðherra.

Veturinn 2003 varð til áætlun hjá Jóni Ásgeiri og Gunnari Smára ritstjóra um að binda endi á pólitískan feril Davíðs en þingkosningar voru þá um vorið. Fyrir kosningar eru stjórnmálamenn hvað veikastir fyrir. Ef tekst að draga trúverðugleika og heilindi stjórnmálamanns í efa skömmu fyrir kosningar stendur hann höllum fæti. Í hita kosningabaráttunnar er snúið að vinda ofan af rangfærslum og blekkingum.

Í aðdraganda kosninganna fengu Baugsmenn góðan liðstyrk frá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í svonefndri Borgarnesræðu tók hún málstað Baugs og gaf sterklega til kynna að málefnalegar ástæður lægju ekki að baki rannsókn lögreglu- og skattayfirvalda á fyrirtækinu.

Þann 1. mars 2003 birtist fjögurra dálka forsíðufyrirsögn á Fréttablaðinu: Óttuðust afskipti forsætisráðherra. Reynir Traustason blaðamaður var skráður fyrir fréttinni.

Í opnufrétt inni í blaðinu er sagt að Davíð Oddsson hafi vitað um Jón Gerald Sullenberger áður en hann kærði Baug og gefið til kynna að Davíð hafi staðið á bakvið aðför yfirvalda að fyrirtækinu. Tölvupóstar á milli yfirmanna Baugs og ljósrit úr fundargerðum birtust á síðum Fréttablaðsins til að renna stoðum undir fréttina. Fundur Hreins Loftssonar og Davíðs í London árið áður var kallaður ,,leynifundur" til að blása saknæmi í fréttina. Vitnað var í Jón Ásgeir og var hann eina munnlega heimildin sem getið var um í fréttinni. ,,Jón Ásgeir sagði við Fréttablaðið að hann gæti staðfest það eitt að Hreinn hefði gert stjórn Baugs grein fyrir fundinum með Davíð þar sem Jón Gerald Sullenberger hefði borið á góma."

Orðalagið ,,staðfest það eitt" átti að gefa til kynna að Jón Ásgeir hefði mest lítið komið nálægt vinnslu fréttarinnar og hann væri aðeins heimildarmaður út í bæ. Til að blekkja lesendur enn frekar stóð í niðurlagi fréttarinnar að ,,Hreinn Loftsson vildi í samtali við Fréttablaðið í gær ekkert tjá sig um þessi mál."

Jón Ásgeir er eini maðurinn sem hafði aðgang að gögnum Baugs og átti beina aðild að fréttinni með því að til hans var vitnað. Síðar kom í ljós, í hádegisfréttum RÚV þann 4. mars, að Hreinn Loftsson var einnig heimildarmaður blaðsins.

Tveir stjórnarmenn í almenningshlutafélaginu Baugi, Þorgeir Baldursson og Guðfinna Bjarnadóttir, sögðu í fjölmiðlum að trúnaðarbrestur hefði orðið og sögðu sig úr stjórninni. Með afsögn sinni sendu þau skýr skilaboð um að Jón Ásgeir bæri ábyrgð á trúnaðarbrestinum.

Í Fréttablaðinu 2. maí 2003 var loks tilkynnt hverjir væru eigendur útgáfufélagsins. Auk leppanna tveggja, Gunnars Smára ritstjóra og Ragnars Tómassonar, áttu félagið Jón Ásgeir, konan hans Ingibjörg Pálmadóttir og Jóhannes faðir hans, Árni Hauksson og viðskiptafélaginn Pálmi Haraldsson. Það var engin tilviljun að eignarhaldið var upplýst á sama tíma og Baugur var afskráður sem almenningshlutafélag.

Gunnar Smári var viljugt verkfæri Jóns Ásgeirs til óþurftarverka sem enginn heiðvirður blaðamaður myndi leggja nafn sitt við.

 

(Stytt útgáfa birtist í Morgunblaðinu 15. nóv. 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið Gunnar Smári eigið það sameiginlegt, að þið titlið ykkur báðir  blaðamenn.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 11:34

2 identicon

Eiður Guðnason er einn frekasti maður sem ég hef haft samskipti við. Hef haft samskipti við þig í gegnum þjónustustarf og finnst mér ekki mikið til þín koma, með nefið upp í loftið traðkandi á þeim sem þú kemst upp með að traðka á. Helvítis ræfill.

André (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 19:54

3 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Góð yfir ferð á málinu Páll.  Þessir fjárglæframenn áttu vísan stuðning Samfylkingarinnar

Ragnar Gunnlaugsson, 16.11.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband