Kosturinn við bankahrunið - kreppan verður stutt

Hratt bankahrun, eins og við fengum á Íslandi, er betra en langvinnt dauðastríð fjármálastofnana. Í einu vetfangi afskrifuðum við gerviauð sem var hvergi til nema á pappírunum. Eftir áfallið er að líta yfir vígvöllinn og hefja endurreisnina.

Bankaútrásin var blekking sem haldið var gangandi með ódýrum lánum og undir lokin bresku sparifé sem fékkst með undirboðum. Þegar ódýr lán buðust ekki lengur og lokað var fyrir aðgengi að evrópsku sparifé hrundu útrásarbankarnir. Mun betra var að fá þessa niðurstöðu núna, fremur en eftir nokkur ár. Vandamálin hefðu orðið stærri og erfiðari viðfangs.

Fyrsti áfanginn í endurreisninni er að setja krónuna á flot og fá verð á hana. Erlend lán til Íslands eru forsenda fyrir viðskiptum með krónu og standa vonir til að þau lán fáist í næstu viku.

 

Við búum við 18 prósent stýrivexti til að hemja verðbólgu sem gýs upp vegna þess að krónan hefur fallið. Við kunnum að glíma við verðbólgu og náum tökum á henni á næstu misserum.

 

Á meðan glíma okkar við verðbólguna er líkleg að standa yfir í ár, kannski hálft annað, eru Evrópa og Bandaríkin að búa sig undir verðhjöðnunartímabil sem gæti staðið yfir í áratug. Stýrivextir í Evrópu, þ.e. hjá evruþjóðum, eru 3,25%, í Bretlandi 3% og ein 2% í Sviss. Í Bandaríkjunum eru stýrivextir 1%. Og vaxtalækkunin er ekki komin á botninn.

Þrátt fyrir lága stýrivexti gengur erfiðlega að fá banka til að lána. Fjármálastofnanir í Evrópu og Bandaríkjunum há langvinnt dauðastríð. Vítahringur samdráttar og eignalækkunar er orðinn veruleiki. Afleiðingarnar fyrir raunhagkerfið er að kreppan mun standa lengi.

Íslenska leiðin, sem við raunar völdum okkur ekki heldur kom hún til af valþröng, er margfalt betri kostur en vandræðin sem nágrannar okkar í vestri og austri hafa ratað í. Við Íslendingar erum ljónheppnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heppnir?

Stór hluti þjóðarinnar er búinn að tapa aleigunni, skuldir heimilanna margfaldast í verðbólgunni, hér ríkis óðaverðbólga, það er landflótti að bresta á, lánstraust Íslands erlendis er núll og nix, fasteignaverð lækkar um helming eða meira og við sitjum upp með vanhæfa stjórnmálamenn og veruleikafirrta auðmenn.

Geysilega heppinn þjóð !

Ég er sammála þér að auðmenn þessa lands eiga mikla sök á máli. En sökin liggur fyrst og fremst hjá stjórnmálamönnum þessa lands, öllum flokkum, en þó mest hjá Sjálfstæðisflokknum sem keyrði þessa biluðu frjálshyggjustefnu í gegn á síðustu árum.

Hermann (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:44

2 identicon

 Happadrætti náhirðarinnar

1. vinningur.  Bankahrun.

2. vinningur.  Varanleg örorka.

3. vinningur.  Óhreinir vinnusokkar af Davíð Oddsyni.

Miðinn kostar 2 evrur. (Athugið ekki er tekið við krónum.

marco (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:53

3 Smámynd: haraldurhar

   Páll ég vissi að þú værir þröngur en hefði seint trúað því að þú værir svona þröngur.

   Þú virðist ekki gera þér grein fyrir því að meirihluti fyrirtækja og stórhluti heimila er gjaldþrota í dag.  Lítil von er um bata er við búum við ráðlausa ríkisstjórn, og fávísa stjórnendur Seðlabanka.

haraldurhar, 9.11.2008 kl. 00:52

4 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Sammála þér Páll það sem er að ske er einfaldlega að fjármagn er að laga sig að verðmætum það hlaut að ske fyrr eða síðar eg keypti mina ibúð á x milljóir hún jók verðgildi sitt um 2X  mér datt samt ekki í hug að taka lán út á hina ýminduðu verðmæta aukningu vegna þess að ég taldi hana byggða á sandi. Þetta var augljóst og þegar Seðlabankinn spáði 30% verðfalli á íbúðarhúsnæði fyrir þó nokkurur átti það að kveikja á aðvröunrabjöllum hjá fólki.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 9.11.2008 kl. 01:21

5 Smámynd: Bogi Jónsson

Það er mikið til í þessu sem þú segir Páll, þó að það virðist harkalegt þegar margir eiga um sárt að binda.

Óvissan og langvarandi "niðurgangur" er verstur, dregur kraft og þor úr fólki.

því fyrr sem við viðurkennum raunveruleikann og kyngjum því að við eigum ekki lengur það sem við héldum að við áttum, en gerum okkur grein fyrir því hvað við eigum þó eftir sem skiptir máli, þá verða hlutirnir bara á uppleið

Bogi Jónsson, 9.11.2008 kl. 01:32

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ef sannast nú að þú hafa rangt fyrir þér um lengd kreppunnar Páll (tekur að þinni sögn skamman tíma að koma í ljós) viltu þá ekki lofa að líta aðeins í eigin barm um að þér gæti skjáltast um fjölmargt fleira? - Jafnvel að þú sért ekki mjög læs á samfélagið?

Helgi Jóhann Hauksson, 9.11.2008 kl. 02:46

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú veist líklega er það ekki að allur IMF-pakkinn; 6 milljðara dollara gjaldeyrislán og vextir af því, 18% stývextir og allt annað sem felst í IMF-pakkanum er aðeins og eingöngu til að reyna bjarga krónunni - sem gæti mistekist samt. - Þá eru allar aðrara björgunarðagerðir og fjármögnun eftir.

Þó allt annað væri eins þyrfti við því auðsýnilega ekki að taka IMF-pakkann ef við hefðum ekki haft neina krónu, þá væri engri krónu að bjarga.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.11.2008 kl. 02:52

8 identicon

Fínasta tilbreyting í öllu vonleysinu að lesa svona pistil.  

Megi þú hafa rétt fyrir þér í hvívetna!

En það er nú hætt við að taki í víða á næstunni. Samt aðeins á þenslusvæðum.  Gleymist oft að stórir landshlutar er algjörlega fyrir utan sviga og ástandið ekkert betra né verra en áður nema þetta fáránlega vaxtaokur.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 11:33

9 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Jæja, svo þú segir það.
Svo virðist sem lántaka til þess að bjarga krónunni á flot aftur sé nokkuð áhættusöm aðgerð vegna þess að svo margir hrægammar muni vakta hana og láta til skarar skríða um leið og hún sýnir minnsta lífsmark.
Menn hljóta að skoða það í alvöru að umbreyta lánsfénu aldrei í íslenzkar krónur heldur fara leið hinnar einhliða myntbreytingar og hefjast strax handa við að undirbúa hagkerfi okkar þannig að það sé tækt og einhvers metið innan alþjóðakerfisins. Sem sagt, í óbeinu samráði við bæði IMF og fjármálaráð ESB.
Á meðan við viljum starfa innan frjálsra marka blandaðs markaðsbúskapar þá gilda ekki lengur hin gömlu líkön hefts ríkisbúskapar og þar með er allur grunnur íslenzku krónunnar hruninn. Neyð okkar, í allri heppninni og lífshamingjunni, er kannski orðin slík að einhliða upptaka evru virðist eina skynsama leiðin sem við höfum til frambúðar.
Það yrðu hræðileg örlög ef öll sú lántaka (IMF og allir hinir) sem beðið er eftir snýst upp í hreinar skuldir með áframhaldandi ónýtan gjaldmiðil í alþjóðlegu samhengi og án þess að verða sú björgunaraðgerð sem henni er ætlað að verða. Og í leiðinni spyr maður sig hvort himinháir stýrivextir verði þar einhver vörn eða hjálp. Og maður spyr sig líka hvort það jafngildi þá ekki formlegu þjóðargjaldþroti heppnist aðgerðin ekki.
Nei, nú er kominn tími hinna skynsamlegu ákvarðana og vanandi bera menn gæfu til að breyta rétt enda er alvaran slík að við erum fyrir löngu komin út fyrir mörk pólitískra trúarbragða, hvort sem þau eru til hægri eða vinstri.

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 9.11.2008 kl. 11:34

10 Smámynd: Kristberg Snjólfsson

Mér sýnist þú vera undir áhrifum Davíðs og co  Það hefur sýnt sig að vera með svona háa stýrivesti skilar ekki neinu nema keyra fjölskyldur og fyrirtæki í þrot. Þú og hinir örfáu sjálfstæðismennirnir sem eru orðnir eftir en þeim fer sem betur fer stöðugt fækkandi þið haldið greinilega enn að krónan virki ég hefði nú haldið að eftir svona útreið þá ættu menn að vera farnir að sjá hverslags bull það er að reyna að halda í krónuna.

Kristberg Snjólfsson, 9.11.2008 kl. 11:35

11 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Páll,

hvernig getur þú fullyrt að kreppan verði stutt????

Hvaða tími er "stuttur" í þínum huga?

Hvernig ætlar þú að standa við það loforð?

Verður hægt að sækja þig til saka ef það mun ekki standast?

Er þetta ekki bara lýðskrum?

Svör óskast hér, eða með nýjum pistli, sem ber í sér ábyrgð á fullyrðingum.

Viðar Eggertsson, 9.11.2008 kl. 13:54

12 identicon

Það getur vel verið að kreppan á íslandi verði styttri en annarstaðar þar sem bankar deyja hægar en hér. Þetta er kanski eins og að segja að sá sem fær hjartaslag og deyr strax sé heppnari en sá sem á í löngu dauðastríði úr krabbameini.

En það breytir ekki því að þótt lífskjörin á liðnum árum, sem voru byggð gervipeningum, að þessir gevipeningar urðu að alvöru lánum, oft verðtryggðum til 40 ára. Og þessi lán hækka og hækka. ÞAnnig að þó verðbólgan náist niður um mitt næsta ár situr fólk sem tók þessi lán uppi með hækkunina út greiðslutíma lánsins. En þar sem þú bendir réttilega á að þarna var um gervipeninga að ræða, eru lánin þá ekki gervilán.

Gulli (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 14:04

13 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Viðar og þakka þér athugasemdirnar.

Í pistlinum er ég að reyna að segja að líkur eru til þess að kreppan standi stutt yfir, hálft annað ár eða svo. Helsti óvissuþátturinn er hvernig okkur tekst að ljúka samningum um erlend lán. Líklega skýrast þau mál á næstu tveim vikum.

Erlendis er kreppa skilgreind sem samdráttur í þjóðarframleiðslu tvo ársfjórðunga í röð. En kreppa er ekki einvörðungu hagfræðilegt hugtak. Í mínum huga er kreppa á Íslandi ef atvinnuleysi er ríkjandi og kreppan því meiri sem atvinnuleysið er meira og langvinnara.

Við munum vinna okkur út úr kreppunni á skömmum tíma vegna þess að bankarnir hrundu en atvinnulífið almennt ekki. Og þótt sum önnur fyrirtæki fari á hausinn vegna þess að undirstöður þeirra eru ekki traustar hef ég enga trú á að um fjöldagjaldþrot verði að ræða. Atvinnustarfsemi sem ekki er hluti af útrásinni ætti að komast á réttan kjöl þegar gjaldeyrisviðskipti komast í horf.

Skuldsett heimili verða áfram í vanda. En eins og ég skil aðgerðir ríkisstjórnarinnar verður ungu fólki sérstaklega liðsinnt með skuldbreytingu á lánum. Hvorki ég né þú Viðar erum unglingar. Ef fólk á okkar aldri, í kringum fimmtugt, er með allt niðrum sig fjárhagslega ætti það kannski að líta í eigin barm.

Ég get ekki lofað að kreppan verði stutt, ekki frekar en að þú getur lofað að hún verði langvinn. Og ef ég er lýðskrumari fyrir að hafa aðra skoðun en nú er tísku þá verður svo að vera.

Verður hægt að saksækja mig ef ég hef rangt fyrir mér? Ég veit það ekki Viðar. Þú ert handgenginn leikbókmenntum og þar er til texti sem segir engar lögbækur banna að bakari sé hengdur fyrir smið.

Páll Vilhjálmsson, 9.11.2008 kl. 14:20

14 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Páll,

svör þín bæta við enn meiri fullyrðingum, sem erfitt er að standa við. Ég sé að þú ert ekki sakhæfur og mun því ekki krefjast þess að þú sért ábyrgur orða þinna.

Viðar Eggertsson, 9.11.2008 kl. 18:30

15 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Viðar

Heldur klént hjá þér að bjóða upp á samræður en slengja svo fram sakhæfi og ábyrgð, eins og það séu orðaleppar sem einhverju máli skipta þegar almennir borgarar ræðast við.

Páll Vilhjálmsson, 9.11.2008 kl. 18:39

16 identicon

„Við kunnum að glíma við verðbólgu...“ Kanntu annan?

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband