Ráðherrann, Evrópa og einkamál

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gaf Evrópusambandsaðild og upptöku evru undir fótinn í lóðbeinu framhaldi af hruni bankanna. Eins og við var að búast varð nokkur fjölmiðlaumræða í kjölfarið. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að eiginmaður menntamálaráðherra, sem var í stjórnendahópi Kaupþings, hafði tapað stórfé þegar bankinn var þjóðnýttur. Í framhaldi er upplýst að aflétting persónulegra ábyrgða stjórnenda bankans kunni að varða við lög.

Menntamálaráðherra er varaformaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins sem jafnframt hefur verið kjölfestan í stjórnkerfinu um áratugaskeið. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði sér varkára og íhaldssama stefnu gagnvart Evrópusambandinu. Grundvöllur stefnu Sjálfstæðisflokksins er að hagsmunir gömlu iðnríkjanna í Evrópu, sem mynda kjarnann í sambandinu, séu aðrir en hagsmunir Íslands.

Þjóðin hefur verið sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópuumræðunni. Enginn stjórnmálaflokkur hefur gengið til kosninga með aðild á dagskrá. Samfylkingin dró tilbaka áherslur sínar í Evrópuumræðunni fyrir síðustu kosningar. Samfylkingin notar hins vegar Evrópumál til að berja á samstarfsflokknum og skapa sér sérstöðu í umræðunni.

Íslenskir útrásarvíkingar töluðu ekki um evru og Evrópusambandsaðild fyrr en halla tók undan fæti og einboðið að efnahagslegt örendi þjóðarinnar væri þrotið vegna útþenslunnar. Útrásaraðallinn var eins og langt leiddur fíkill. Hann þurfti sterkari efni, evru í stað krónu.

Hvorki evra né Evrópusambandsaðild bjarga okkur úr efnahagslegum ógöngum. Yfirstandandi þrengingar munu ganga yfir á fáum árum. Evrópusambandsaðild er aftur á móti ákvörðun um framtíð Íslands til næstu áratuga. Slík ákvörðun verður ekki rædd af yfirvegun í núverandi ástandi.

Það er ábyrgðarhluti af varaformanni Sjálfstæðisflokksins að gefa Evrópusambandsaðild undir fótinn við þær kringumstæður sem nú ríkja. Stjórnmálamenn verða að aðgreina einkamál sín frá opinberum málum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í ljósi allra þessa upplýsinga þá skilur maður núna af hverju Þorgerður var svona pirruð útí Davíð Oddsson! Það voru ekki hagsmunir kjósenda sem hún var að hugsa um, nei það var Davíð að kenna að þau hjónin voru að tapa peningum.

Spái því að Þorgerður verði næsti formaður Samfylkingarinnar, farið hefur fé betra!

Sig (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 20:19

2 identicon

    Kjölfestan gott og vel. En þegar kjölurinn liggur grafinn í djúpann sand er það  fyrsta sem skynsamur maður gerir er að varpa kjölfestunni fyrir borð. Því skipið þarf fyrir alla muni að komast á flot, því annars ónýtist það.

Vilhjálmur Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 21:42

3 identicon

Sammála þér Páll. Að auki verður ekki hjá því komist að benda á að menntamálaráðherra hafði stöðu sinnar vegna mun betri aðgang en aðrir að upplýsingum um raunverulega stöðu Kaupþings. Það má jafnvel halda því fram að hún hafi tekið þátt í yfirhylmingu. Alla vega er ljóst að hagsmunir hennar og almennings geta ekki farið saman.

Hún á að segja af sér. Ef ekki eiga kjósendur að afþakka frekari forystu hennar.

Karl (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 09:04

4 identicon

Þetta er auðvitað pólitískt áfall fyrir Þorgerði og veikir stöðu þeirra sjálfstæðismanna sem litu til forystu hennar um að stefna á ESB aðild.  Hins vegar er óþarfi að ætla að Þorgerður sé óheiðarleg og að áhugi hennar á ESB-málum hafi stafað af þörf fyrir að tryggja sparifé fjölskyldunnar.  Hún talaði bara fyrir munn margra af yngri kynslóð sjálfstæðismanna.  Nú þarf það fólk að finna sér nýjan forystumann. 

Hriflungur (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 11:29

5 identicon

Séð í baksýnisspeglinum skilur maður betur að Þorgerður talið hlýtt um Evru og ESB hérna um daginn.  Það sama verður sagt um óvild hennar í garð Davíðs, manninum sem hóf hana til vegs og virðingar í pólitík á sínum tíma.  Hér réðu einfaldlega persónulegir sérhagsmunir (persónulegur harmleikur??) hennar og eiginmanns hennar ferðinni.

Erlendis (í alvöru lýðræðisríkjum) myndir ráðherra sem hefði svona fjárhagslegra sérhagsmuna að gæta, þurft að víkja úr embætti.  Skýringin er einfaldlega sú að viðkomandi ráðherra hefur innherjaupplýsingar sem gagnast geta þriðja aðila, hér eiginmanni ráðherra sem stundar veðmál með fjárhagslega gerninga.

Því er Þorgerður er einfaldlega ekki trúverðugur stjórnmálamaður né leiðtogi lengur.  Hún er einfaldlega ekki gjaldgeng lengur. 

Hjálmar Þ. Loftsson (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband