Fimmtudagur, 23. október 2008
Bankahrunið og EES-samningurinn
Íslensku bankarnir sóttu inn á evrópska markaði í skjóli EES-samningsins sem Jón Baldvin Hannibalsson seldi Íslendingum á sínum tíma. Regluverk samningsins leyfir að smáþjóðabankar eins og þeir íslensku fari í útrás til Evrópu og sæki þangað sparifé almennings án þess að hafa á bakvið sig tryggingar í samræmi við áhættu.
Bankar stórþjóða eru í allt annarri stöðu en bankar smáþjóða einfaldlega vegna þess að þar er ríkiskassinn stærri. Þrátt fyrir evru og Seðlabanka Evrópu er ríkissjóður heimalands banka bakhjarlinn.
Bankahrunið sýnir í hnotskurn veikleika Evrópusambandsins og regluveldisins þar á bæ. Samræmdar reglur henta ekki ósamræmdum þjóðum. Ísland er ekki Þýskaland og verður aldrei.
Þeir sem tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu skauta létt yfir grundvallaratriðin í málinu en hengja sig í smáatriði. Núna er reynt að hrúga upp smáatriðum sem mæla með inngöngu Íslands. En það er alveg sama hversu sú hrúga verður stór: Ísland á ekki heima í Evrópusambandinu.
Athugasemdir
Þetta er nú ótrúleg einföldun á flóknu máli og sýnir mikla vanþekkingu á heildarmyndinni.
Edvard (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 12:50
Eins og Gordon Brown sagði og hefur þó rétt fyrir sér um, var það á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að setja bönkunum reglur og fylgja þeim eftir með eftirliti og agaviðurlögum. Nú er það sögð aðal krafa IMF að Ísland setji reglur um bankastarfsemi sem sé í samræmi við það sem tíðkast í öðrum vestrænum löndum - hvað merkir það?
Tilskipun frá ESB er vægasta lagaform af fjórum og felur ríkisstjórn aðildarlands að útfæra og setja í reglur eða lög með sínum hætti einhverja almenna ákvörðun.
T.d. eins og ef gefin væri út tilskipun af ríkisstjórn Íslands til foreldra um að börn yrðu að vera í fötum þegar þau færu í skólann en það væri svo foreldranna að finna út úr framkvæmdinni og hugsa upp einstök atriði málsins svo sem hvers konar föt hentuðu hverju sinni og hvenær og hvernig börnin væru klædd í fötin.
Þó EES hafi opnað leiðir var það á ábyrgð okkar að setja viðeigandi reglur og fylgja eftir með viðeigandi eftirliti og gera viðeigandi prófanir á starfseminni til að vita hvort reglum væri fylgt og öll skilyrði uppfyllt. - Augljóslega var svo ekki gert.
Helgi Jóhann Hauksson, 23.10.2008 kl. 13:34
Fólk er að horfa á þetta kolrangt. Hér öskra allir á stjórnmála menn af hverju þeir settu ekki strangari lög og takmörkuðu útrásina. Það sem við eigum að spyrja okkur er af hverju í ósköpunum var ekki ríkið búið að skera á ábyrgðina milli sín og bankanna (innistæðureikninga)???
Það á alls ekki að hefta stækkun fyrirtækja það á bara ekki að vera ábyrgjast viðskipti manna úti í bæ fyrir hendur skattgreiðenda.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 16:18
Með smágúgli fann ég út að fjármálaeftirlitið íslenska hefur verið grimmt á að passa að dularfullir netbankar útlenskir settu ekki hérna upp bækistöðvar. Því spyr ég sem fávís kona: Af hverju passaði fjármálaeftirlit Bretlands ekki betur upp á sína þegna? Klikkuðu þeir ekki á lögbundnu hlutverki sínu? Þessari spurningu hef ég séð oftar en einu sinni á breskum vefsvæðum. Einnig er afar mikið hæðst að því að lánshæfismat íslensku bankanna hafi verið svona hátt, það voru engar forsendur fyrir því segja fjármálarýnar.
það klikkuðu fleiri á verðinum en Íslendingar. Þetta lánsfjármat getur líka hafa verið eitthvað blöff sem íslenska ríkið tók þátt í að halda við.
REgluverk eykst nú kannski ekki mikið við EBE. Við erum að nota það regluverk núna.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.10.2008 kl. 16:30
Þakka þér þennan pistil Páll
Já það er yfirleitt skautað fram hjá grundvallaratriðum og smáatriðin sett í poppkornsvélia. Svo er borðað á meðan á sýningunni stendur - glampandi evrur þjóta yfir skjáinn og poppið flýtur og einfeldningarnir klappa.
Þeir sem gerðu sér ekki grein fyrir því að evra er fyrst og fremst pólitískt verkfæri, og ekki hagstjórnarverkfæri, ættu að fatta það núna. Hún á að breiða út þetta nýja ríki sem er í smíðum. Þetta er ekki öfugt eins og margir halda. Evran er ekki árangur sameiningar og samstöðu, hún er alger andstæða þess. Hún á að lemja ESB saman.
Það nýjasta er svo að Sarko fer fram á að hrifsa völdin í ESB næstu 18 mánuðina með þeim rökum að Tékkum sé ekki treystandi fyrir formennsku næsta árið í "svona alvarlegu ástandi" (markaðurinn hefur ekki trú evru) og ráðherrar í Þýskalandi krefjast þess nú að Sviss verði sett á svarta listann vegna þess að þeir neita að innrétta samfélag sitt með hásköttum eins og sósíalistar gera í ESB. Því á að svartlista Sviss núna ásamt Íslandi. Listinn yfir þá sem makka ekki rétt.
Vertu velkomið kæra Sviss, velkomið með okkur Íslendingum á lista hinna útskúfuðu í Evrópu. Við erum á hryðjuverkalista ESB og Sviss á hinum "hálf-opinbera" lista yfir þá sem makka ekki rétt. Bráðum verður þetta öllum opinnbert.
Opinberunin
Hið Opin Bera
Gunnar Rögnvaldsson, 23.10.2008 kl. 20:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.