Miðvikudagur, 22. október 2008
Blaðamaðurinn krýpur
Blaðamannafélag Íslands krýpur fyrir þeim sem þjóðin hefur skömm á. Björgólfur Guðmundsson fyrrum Landsbankaeigandi og Jón Ásgeir Jóhannesson Baugsstjóri leggja útgáfur sínar, Morgunblaðið og Fréttablaðið, í eitt púkk með þegjandi blessun samtaka blaðamanna.
Blaðamaðurinn heitir félagsritið sem á að vera vettvangur fyrir faglega umræðu blaðamanna hér á landi. Í nýjasta heftinu er sagt frá sameiningu blaðanna tveggja.
Og hvernig segir fagrit íslenskra blaðamanna frá stærsta samruna í sögu blaðaútgáfu hér á landi sem, vel að merkja, tryggir algjöra einokun á blaðamarkaði?
Jú, gott fólk, fagrit íslenskra blaðamanna birtir orðrétta fréttatilkynningu sameinaðrar útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Punktur og basta.
Blaðamannafélag Íslands ætti að velja útgáfu sinni nafn sem er meira viðeigandi: Ferfætlingurinn.
Athugasemdir
Ertu ekki búinn að átta þig á því Páll minn að fjölmiðlafólkið er veikasti hlekkurinn í þjóðmálaumræðunni á Íslandi. Svo sérkennilegt sem það nú er.
Gústaf Níelsson, 22.10.2008 kl. 00:26
Fjölmiðlar hafa sett ofan vegna vegna slakrar gagnrýninnar umræðu enda erfitt um vik þar sem þeir eru í eigu valdamikilla manna. Samt óþarfi fyrir blaðamannafélagið að birta samrunann án athugasemda; reyna ekki að sýna frjálsri hugsun örlitla virðingu. Já, ferfætlingur er nafn við hæfi.
Með kveðju, Sigríður Laufey
Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 01:19
mbl.is | 22.10.2008 | 07:47
Fjölmiðlafrelsi mest á Íslandi
Frelsi fjölmiðla er mest á Íslandi, í Noregi og Lúxemborg samkvæmt nýrri skýrslu, sem samtökin Blaðamenn án landamæra hafa gefið út. Neðst á listanum yfir 167 ríki er Kína, sem hélt m.a. ólympíuleikana í sumar.
Skuldari (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 07:56
Fréttin um fjölmiðlafrelsið er eins og lélegur brandari. Hver semur svona skýrslur? "Frjálsu" fjölmiðlarnir á Íslandi eru í eigu glæpamanna sem komið hafa þjóðinni á hausinn.
Það er líka rétt sem Páll segir um Blaðamannafélagið. Hvernig getur þessi félagsskapur látið þetta ganga yfir án þess að tjá sig um málið og álykta? Þetta er alveg ferlegt. Fjórða valdið á Íslandi er ónýtt. Fjárglæframenn hafa eyðilagt það með dyggri aðstoð Baugs, samfylkingarinnar og forsetans. Auðmenn, Björgólfur og Jón Ásgeir veittu fjórða valdinu síðan náðahöggið og þar með mikilvægum hluta lýðræðisins í landinu. Ætli þess finnist nokkur dæmi að þjóðkjörinn forseti hafi gerst sekur um sambærilega skemmdarstarfsemi á vesturlöndum?
Karl (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:14
Ég held að það blað á Íslandi sem hampar vitleysingunum sem settu okkur á hausinn verði illa lesið. Því jú það er hinn venjulegi Jón sem les blöðin og vill ekki fá fréttir af þeim nema þegar kemur að því að stinga þeim inn
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:25
Fyrir mitt leyti vil ég fremur hafa aðeins eitt óháð dagblað sem stæði undir heiðri 4.valdsins en tvö málpípudagblöð. Ef einhver hefði frumkvæði að stofnun eða yfirtöku dagblaðs í því skyni verður eflaust enginn skortur á stuðningi almennings.
Kolbrún Hilmars, 22.10.2008 kl. 14:46
Sammála Kolbrúnu að hluta til. Til lengri tíma litið er varla hægt að samþykkja aðeins eitt frjálst dagblað hér á landi. En eitt svoleiðis blað væri skárra en það sem boðið er upp á núna. Eiginlega væri allt skárra en þetta ástand. Ég bara skil ekki hvernig það getur gengið að blöðin séu í eigu þeirra manna sem komið hafa þjóðinni á kné. Næ þessu bara ekki.
Karl (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 15:13
Ég held Páll að það sé viss skýring á þessu með fréttatilkynninguna. Sameiningin er nýafstaðin til þess að gera en prentferli svona rita stundum erfitt, eins og þú veist. Ég sé fyrir mér að Blaðamaðurinn hafi allveg verið að því komið að fara í prentsmiðju þegar þessi viðburður gerðist. Að á síðustu stundu hafi einhverju efni verið fleygt út og þessu komið - svona til að hafa eitthvað um þetta og engan tíma til að vinna neitt upp.
Ég er ekki hér í vörn fyrir Blaðamannafélagið, en get ímyndað mér að svona hafi þetta verið. Mér er kunnugt um að verið sé að undirbúa Pressukvöld um allar hræringarnar undanfarið; áhrif kreppunnar og breytingarnar á eignarhaldsmálunum (samþjöppun og fleira). Veit að það er ríkjandi áhugi og umræða og þess vegna get ég best trúað þessu með útgáfu-tímafaktorinn.
En þú mátt auðvitað trúa því sem þú vilt, Páll.
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 22:26
Sæll Friðrik Þór
Tilgáta þín stenst ekki. Í sama tölublaði er þriggja síðana úttekt á stuttri ævi 24 stunda sem var lagt niður þegar tilkynnt var um samruna Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Fagritið gaf sér tíma og pláss að ræða endalok fríblaðsins en hvorki tíma né rúm að tala um tilræðið við faglega og frjálsa fjölmiðlun sem sameiningin er.
Lifðu heill
páll
Páll Vilhjálmsson, 22.10.2008 kl. 22:58
Kann að vera Páll, þótt ekki geti ég flokkað andsvarið sem sönnun. "Blaðamaðurinn" er annars bara einn maður að ég hygg í sjálfboðavinnu og að öðru leyti önnum hlaðinn maður, Birgir Guðmundsson. Og ég hygg að nokkrir dagar hafi nú liðið milli þess sem ljóst var að 24 stundir hyrfu og formlega var gengið frá og staðfest að 365 rynni inn í Árvakur.
Ef Blaðamannafélagið er að fara að halda Pressukvöld um einmitt þau mál sem þú nefnir þá er allavega ekki hægt að tala um total áhugaleysi og þöggun. Líkast til yrði efniviður þess Pressukvölds efniviður í næsta "Blaðamann". Ég leyfi mér að vera bjartsýnni en þú, en auðvitað tek ég heilshugar undir að sameining 365 og Árvakurs er ekki gott mál. og mig grunar að fleiri ótíðinda sé að vænta.
Friðrik Þór Guðmundsson, 23.10.2008 kl. 00:09
Ég leyfi mér að spyrja, hversu mörg ykkar voru á móti ,,fjölmiðlafrumvarpinu'' á sínum tíma? Hver ykkar gagnrýndu Davíð Oddson fyrir það að fylgja því máli eftir? Hvernig var umræðan í okkar ''frjálsu fjölmiðlum'' daganna á undan og eftir að Ólafur Grímsson neitaði að staðfesta lögin? Hversu margar samsæris kenningar fóru af stað í tengslum við frumvarpið? Hvar standið þið núna? Hafið þið horft í eigin barm?
Það er alltaf gott að vera vitur eftir á og geta sagt yfir borðið ,,I told you so'' !
Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 02:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.