Eftir flóðið

Við fáum stórt lán frá útlöndum og atvinnuleysi verður minna en í fyrstu var óttast. Fullsnemmt er að fagna varnarsigri en fréttirnar gefa von um að það sjái fyrir endann á hamförum síðustu þriggja vikna.

Ef rétt reynist að skilyrðin fyrir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu ekki íþyngjandi og að við fáum samhliðalán nokkurra ríkja er eins og verið sé að bjóða Íslandi aftur inn í félagsskap siðmenntaðra þjóða. Til skamms tíma er þess að vænta að gjaldeyrismarkaður hér á landi verði starfhæfur og yrði það marktækur áfangi.

Bankahrunið var fjárhagslegt áfall sem kallar á efnahagslegar ráðstafanir. En hrunið var líka andlegt skipbrot sem peningar plástra ekki. Drambið í undanfara hrunsins var ekki þjóðarinnar, heldur lítils hóps manna sem héldu að þeir væru hafnir yfir efnahagsleg lögmál.

Útrásarprinsarnir töluðu í nafni Íslands á erlendi grundu og fulltrúar almannavaldsins, forseti, ráðherrar og þingmenn léðu prinsunum lögmæti þjóðarinnar með því að stilla upp á ráðstefnum og mannamótum auðkýfinganna. Við getum ekki þvegið hendur okkar af þessu liði en jafnframt er engin ástæða til að sitja þegjandi undir málglamri um að þjóðin sé þeim samsek.

Íslenska þjóðin fór ekki á útrásarfyllerí. Fólk flest lifði sínu lífi sem best það kunni, tók lán og borgaði skattana.

Á hinn bóginn leyfði þjóðin að útrásarprinsarnir yrðu fánaberar hennar. Aðeins fáeinir kverúlantar geta gert tilkall til þess að hafa opinberlega andæft gullæðinu. Núna getum við ekki snúið okkur til andstöðuhóps sem tók markvissa og meðvitaða afstöðu gegn vitleysunni.

Útrásarfirringin brenglaði verðmætamat okkar. Það mun taka nokkurn tíma að ná áttum á ný. Á meðan skulum við gjalda varhug við töfralausnum um nýja stóriðju í hverjum fjórðungi eða inngöngu í Evrópusambandið. Förum ekki úr öskunni í eldinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Frekar með ólíkindum ef einn af sjúkdómsvöldunum, andvaraleysi okkar gagnvart regluverki EES og þeim spilaborgum sem hægt var að byggja upp í skjól þess, á að teljast lækningin. Þannig hljóta þeir sem vilja ota okkur inn í ESB að skilgreina stöðuna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.10.2008 kl. 08:26

2 identicon

Takk fyrir pistla þína, Páll.

Það er algjört lykilatriði að ákveðnir aðilar komist ekki upp með það að þetta sé allt allri þjóðinni að kenna. Það er einfaldlega lygi eins og þú bendir á.

Það er þörf á hreinsun en hún þarf að fara fram á réttum forsendum. Þess vegna er svo hörmulegt að "frjálsu" fjölmiðlarnir skuli vera ónýtir. Uppkjörið þarf að beinast að ríkisstjórn, flokkum, eftirlitsaðilum, stjórnmálamönnum, forseta íslands og sjálfum fjölmiðlunum. Hvernig er þetta hægt við núverandi aðstæður á Íslandi? Hverjir ætla t.d. að sýna fram á tengsl stjórnmálamanna og flokka við útrásarglæpalýðinn?

Karl (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 08:39

3 Smámynd: Púkinn

....sjái fyrir endann á hamförum síðustu þriggja vikna.

Gersamlega óraunhæf bjartsýni.   Mun líklegra að ástandið eigi eftir að versna verulega áður en það fer að skána....

Púkinn, 21.10.2008 kl. 11:02

4 identicon

Frábær grein og greining á því sem á undan er gengið.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 15:53

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ef eitthvað er öllum að kenna þá leiðir augljóslega af því að engum sérstökum er um að kenna og með þeim áróðri er reynt að deyfa almenning á meðan restin af eignum hans er hirt.

Þjóðarbúið er algjörlega gjaldþrota. Ríkissjóður var fallít áður en hann skipti um kennitölur á gjaldþrota bönkum og tók á skattgreiðendur skuldbindingar þrotabúa þeirra. Seðlabankinn er vita gjaldþrota og ónýtt lið þar situr uppi með ónýta pappíra frá gjaldþrota fjármálakerfi. Orkugeirinn er löngu fallít með risaskuldir og vonlaus sovésk stakhanovævintýri í þágu erlendra húsbænda ráðamanna hér.

Gjaldþrota búi verður ekki bjargað með frekari lánveitingum. Þetta vita lánadrottnar. Þess vegna höfum við séð ráðamenn hlaupa úr einu víginu í það næsta. Fyrst neituðu "vinir" okkar að moka peningum í þessa hít, síðan áttu Rússarnir að vera að gefa sig og það voru bara einhverjir pípudraumar úr förgunarúrræðum við Arnarhól og nú á það að vera IMF. Þetta er álíka og hórur sem eru komnar á botninn og farnar að reyna að trekkja á hundraðkall hjá útigangsmönnum. Án þess að ég vilji á neinn hátt gera lítið úr útigangsmönnum.

Nei, við þurfum ekki lán heldur beina efnahagsaðstoð eins og önnur efnahagsleg basketkeis með gjörónýtt lið við stjórn hafa fengið. Það er því miður engin leið framhjá því. Þetta er aðeins fyrsta þjóðargjaldþrotið af mörgum og kannski er hægt að amk. milda önnur komandi stórgjaldþrot með því jafnvel að koma í veg fyrir þetta.

Baldur Fjölnisson, 21.10.2008 kl. 19:19

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

jaldþrot íslenska þjóðarbúsins er hið fyrsta af mörgum slíkum sem munu hellast yfir algjörlega fallít alþjóðlegt fjármálakerfi á næstu misserum. Kerfið er samtengt og samvirkandi og hefur verið keyrt vísvitandi á hausinn á síðustu áratugum, af sérstökum og einbeittum brotavilja síðustu tvo áratugina eða svo. Alþjóðavæðingin svokallaða gulltryggir að allt kerfið rúllar saman á hausinn. Heimurinn er fyrir löngu margyfirveðsettur og þess vegna hafa stöðugar "björgunaraðgerðir" seðlabanka og ríkisstjórna ekkert að segja. Trilljón dollarar hér og þar eru á við að borga þúsundkall inn á milljón króna skuld. Afleiður og skuldatryggingasamningar og "ábyrgðir" kerfisins á því að eigið kerfi standist eru upp á amk. 20falda verga heimsframleiðslu og sennilega miklu meira, enginn veit það fyrir vissu og óvissan um þetta speglast greinilega í krampakenndum og hrynjandi mörkuðum um allan heim og fleiri þjóðagjaldþrotum sem vofa yfir.

Vandræðagangurinn með Ísland snýst því öðru fremur um fordæmi. Hvernig á síðar að bregðast við gjaldþroti Bretlands? Og hvað með stóra fílinn í dagstofunni, sjálf Bandaríkin? Hverjir eiga að beila það út? Kannski geimverur á öðrum plánetum? Góðar stundir.

Baldur Fjölnisson, 21.10.2008 kl. 21:06

7 identicon

Fékk í athugasemdir á síðuna mína eftirfarandi en legg ekki mat á sannleiksgildið en ef rétt þá eiga hlutirnir enn eftir að versna.....

Ég var að lesa eyjan.is þar kemur fram að :
Fékk til mín mann í gær sem er að vinna fyrir stóra erlenda kröfuhafa bankanna. Hann sagði að lögfræðilega stæðist ekki að slá skjaldborg utan um íslensku bankanna t.a.m. vegna íslensku gjaldþrotalaganna og eignarréttarákvæða mannréttindasáttmálans og að þessir aðilar væru hér til þess að hefja vinnu við að nálgast eignir bankanna sem felast í skuldabréfum á orkufyrirtæki og sjávarútveg og heimilin í landinu og aðalmarkmiðið væri að ná töglum á fasteignum, skipum og þar með kvótanum og ónýttum auðlindum sem standa á bak við veðin með því að rifta þessari sjaldborgarleið. Hin leiðin fyrir þessa erlendu kröfuhafa er að fara í skaðabótamál við ríkið út af þessum gjörningi sem stenst ekki lög og þá eru allar skuldbindingar bankanna undir við erlenda kröfuhafa og krafan því sú að ríkið bæti allar skuldbindingar.
Það er nokkuð ljóst að skjaldborgarleiðin var mjög vitlaus aðgerð og vanhugsuð....

hummmm...

Ragnhildur (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 21:21

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Misheppnað leikaraval í deyfandi tragikómíku hefur skipulega svæft lýðinn og mun áfram hámarka tjón hans í þágu þeirra sem hafa kostað þessa misheppnuðu leikara á sviðið. Snertilending? Tímabundinn mótvindur? Bankakerfið stenst öll álagspróf? Þetta dót hefur verið fyrirtaks gagnvísar og verður vafalaust áfram. En hvers vegna þurfum við að borga einhverju ónýtu dóti múltipening fyrir að tryggja að við þurfum ekki annað en að vera á 180 gráða öndverðum meiði við það til að vera sjálfvirkt stöðugt með pálmann í höndunum málefnalega? Er ekki slíkt kerfi löngu komið yfir á verksvið geðlæknisfræðinnar?

Baldur Fjölnisson, 21.10.2008 kl. 21:51

9 identicon

Ragnhildur hvar er hægt að lesa þessa grein? Ertu með slóðina?

Sólveig (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband