Auðmenn krefjast flýtimeðferðar

 

Auðmenn með Jón Ásgeir Jóhannesson Baugsstjóra í broddi fylkingar krefjast flýtimeðferðar hjá skilanefndum bankanna. Bankarnir voru vart komnir í þrot þegar Jón Ásgeir flutti til landsins Philip Green, viðskiptafélaga sinn, sem vildi fá Baugsgóss bankanna með 95% afslætti.

Plottið hjá Jóni Ásgeiri gengur út á að afgreiða málið með hraði, stórum afslætti og sem fæstum spurningum. Hann veit manna best að þegar verður byrjað á því að rekja í sundur fléttuverk eignatengsla hans og viðskiptafélaga mun ýmislegt skrítið koma í ljós.

Jón Ásgeir var kominn út í horn með viðskiptaveldi sitt seinni hluta árs 2007. Erlendir bankar neituðu að lána Baugi og því varð að blóðmjólka þau íslensku fyrirtæki sem Baugur réð yfir, meðal annars FL-group, Tryggingamiðstöðina og Glitni.

Í fjármálum eru til margar hókus pókus aðferðir og Jón Ásgeir kann þær flestar. Haustið 2007 var björgunaráætlun Baugs komin á fulla ferð enda mikið í húfi. Í fjölmiðlum birtust óskiljanlegar fréttir um fjármálagerninga í nafni Glitnis og FL-group. Um miðjan nóvember sagði Morgunblaðið frá undarlegum viðskiptum með hlutabréf félaganna fyrir á annan tug milljarða.

Huldumenn stóðu að þessum viðskiptum í skjóli kennitalna félaga sem enginn þekkti hvorki haus né sporð á. Eitt þessara félaga er Stím ehf. sem eignaðist tæpt eitt prósent í Glitni síðast liðið haust. Hluturinn var kominn í tæp fimm prósent í febrúar á þessu ári en lækkaði síðar. Milljarðarnir sem Stím efh. keypti hlut sinn fyrir voru fengnir að láni hjá Glitni. Þegar Glitnir fór í þrot var Stím tuttugasti stærsti hluthafi bankans.

Skilanefnd Glitnis mun komast að því að verðlausar tryggingar voru settar fyrir láni bankans til Stím ehf. Nefndin mun spyrja bankastarfsmenn hvers vegna kennitölufélag fékk slíka fyrirgreiðslu. Í framhaldi þarf að ákveða hvort málinu skuli vísað áfram til frekari rannsóknar.

Nema, auðvitað, að skuldapakki Baugs í bönkunum verði seldur með hraði án spurninga.

Flýtimeðferðin sem auðmenn vilja fá hjá skilanefndum er til að fela óhreina mjölið í pokahorninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefanía

Áhugavert.... Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsis.

Stefanía, 20.10.2008 kl. 01:25

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Banki má ákveða sjálfstætt hverslags tryggingar hann tekur fyir láni. Eða hvort hann lánar algjörlega tryggingarlaust. Huldumenn þeir sem Jón Ásgeir notar til að "trixa" eru bara tveir....þeir redda síðan fullt af nöfnum..

Óskar Arnórsson, 20.10.2008 kl. 14:18

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Reiðin sem nú kraumar í þjóðinni á eftir að sjatna. En ekki fyrr en uppgjör við banka- og útrásarmafíuna og ábyrgð stjórnmálamanna og opinberra stofnanna hefur átt sér stað.

Gálginn, gapastokkurinn og fallöxin bíða þeirra. Í einni eða annarri mynd.

Góðar greinar hjá þér.

Ævar Rafn Kjartansson, 20.10.2008 kl. 15:46

4 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

við íslendingar erum stundum of fljótir að gleima - verður það raunin nú, labba þeir í burt með milljarðana okkar hnarreistir

Jón Snæbjörnsson, 20.10.2008 kl. 16:38

5 identicon

Velkominn aftur. Ég var farin að velta fyrir mér hvort þú myndir geta setið þegjandi hjá. Hvort heldur vegna hinna hálvarlegu vandamála sem á Íslandi dynja, forsetakosninganna hér vestra eða World Series. Allt nauðsynleg málefni að tjá sig um.

Flott skrif eins og venjulega. Ég saknaði að heyra ekki í þér og þínum skoðunum. Ég er þér ekki alltaf sammála, en það skiptir engu. Þú byggir mál þitt upp vel og það er allt sem ég þarf til að njóta svona skrifa.

Katrín Frímannsdóttir (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 17:46

6 Smámynd: Orgar

Orgar, 20.10.2008 kl. 18:19

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Merkileg ljósmynd sem Egill Helgason birti á blogginu sínu í dag. Takið eftir textanum á bakvið feðgana:

image001.jpg

Hrannar Baldursson, 20.10.2008 kl. 19:42

8 Smámynd: haraldurhar

   Það væri ekki´síður áhugaverð skif frá þinni hendi ef þú færir einning yfir þá merku hluti er Jón Ásgeir hefur komið í framkvæmd.  Mér leiðast yfirleitt hælbítar.   Mitt mat er það að koma Baugi í gegnum lausafjárkrísuna, er eitt stærsta hagsmunamál okkar allra er þetta land byggja.

haraldurhar, 20.10.2008 kl. 23:59

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þetta eru mennirnir sem kunna á að stjórna. Þeir höfðu ekki efni á því á þessum tíma að bíða eftir vísagreiðslum í einn mánuð. Mjög flott hjá þeim.

Baugsmenn eiga eftir að koma aftur tvöfalt sterkari enn nokkru sinni..

Óskar Arnórsson, 21.10.2008 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband