Miðvikudagur, 15. október 2008
Samfélagssátt á grunni valddreifingar
Bankahrunið varð vegna þess að óhófleg völd söfnuðust á fárra manna hendur. Valdakjarninn hafði í fullu tré við ríkisvaldið og notaði fjölmiðla sína til að drepa gagnrýni á dreif ef hún var ekki beinlínis kæfð. Auðsáhrifin voru meðal annars þau að eftirlitsstofnanir skirruðst við að framfylgja hlutverki sínu.
Á rústum bankagjaldþrotsins þarf að verða til samfélagsátt. Liður í þeirri sátt er uppgjör við óreiðu síðustu ára. Sáttin horfir þó fyrst og fremst til framtíðar. Lykilatriði í henni er valddreifing.
Eigum í þrotabúum bankanna ber að ráðstafa þannig þær dreifist á sem flestar hendur. Endurskoða þarf löggjöf sem reisir skorður við samþjöppun á markaði og eftirlitsstofnanir verða að rækja skyldur sínar af meiri festu.
Lærdómurinn af kollsteypunni er þessi: Vald spillir, algert vald gerspillir. Við vorum hársbreidd frá því að fáeinir auðmenn næðu kverktaki á þjóðinni. Látum það ekki henda aftur.
Athugasemdir
Hvaðan úr veröldinni kemur þú eiginlega. Ég er búinn að vera að fletta í gegn um bloggið hjá þér, og ég hef sjaldan séð að eins vitleysu. Og að það sé fólk sem samsinnir þér í athugasemdum. Ég er svo hneikslaður að ég veit ekki hvað ég á af mér að gera. Það tók nú alveg botninn úr þegar þú fórst að tala um að Styrmir tæki við Morgunblaðinu aftur. Ég bara hélt að svona menn væru ekki til lengur. En það er auðvitað eins með ykkur sjálfstæðismenn af gamla skólanum og framsóknarflokknum, þið þorið ekki að selja bankanna aftur því þeir gætu lent hjá öðrum en rétta fólkinu, að ykkar mati. af sömu ástæðu eruð þið skíthræddir við alþjóða gjaldeirissjóðinn. Það er skondið að hlusta á formann framsóknarflokkin, hann reynir að gala hærra og hærra með hverjumj deginum, í von um að sjálfstæðismenn hlusti, því hann vill auðvitað vera með í útdeilingu á embættum bankanna, Það segir kannski eitthvað um greind formannsins að vonast eftir að komast að komast upp í rúm hjá sjálfstæðinu, jafnvel þó flokkurinn sé varla til lengur eftir óstjórn undanfarinna ára.
Þórhallur (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 06:49
Sæll Páll.
Kærar þakkir fyrir góða pistla. Ég er mjög sammála skrifum þínum og sérstaklega því sem þú segir um gegnsæi og valddreifingu.
Það eykur manni hins vegar ekki bjartsýni að á þessum tíma skulir allir "frjálsir" fjölmiðlar í landinu vera í eigu auðmanna. Þau tök hafa ekkert minnkað eins og sjá má. Nú þarf fólk á Íslandi á frjálsum fjölmiðlum að halda. Hvernig á uppbyggingin að geta farið fram án þeirra? Hvernig á að vera hægt að hreinsa til í kerfinu ef fjölmiðlarnir eru í eigu manna sem komu þjóðinni á vonarvöl?
Ég næ því t.d. ekki að Mogginn skuli sætta sig við að Björgólfur eigi ennþá blaðið. Og eiginlega næ ég því ekki heldur að það skuli ekki vera fjallað meira um þetta. Kannski er það vegna þess að þessir sömu menn eiga ennþá fjölmiðlana sem um er að tefla? Hvað veit ég um það.
Mér þykir þetta vont ástand. Ég hvet þig til að fjalla áfram að skrifa um fjölmiðla og þá sem eiga þá. Og líka um nauðsyn gegnsæis og valddreifingar. Þú veist greinilega um hvað þú ert að tala. Fólkið þarf að vakna.
Kærar þakkir.
Karl (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:55
Takk fyrir góð skrif.
Alveg sammála síðasta ræðumanni (Karli). Samfélagssátt getur tæplega orðið ef eignarhald á Mbl og fjölmiðlum yfirleitt er á fárra höndum þá verður frjáls umræða nánst sýndarmennska; markmiðirð að skrifa /tala um allt og ekkert - glamúrauglýingar til að halda við "dansinum kringum gullkálfinn. Hef alltaf ímyndað mér að Styrmir og Agnes stæðu fyrir ganrýni með rökum".
Með kveðju,
Sigríður Laufey
Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 11:45
Er ekki tímabært að setja synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlafrumvarpinu í rétt samhengi.
Gústaf Níelsson, 16.10.2008 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.