Mennska og raunpólitík

Eftir ágjöf undanfarinna daga er eðlilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri, vilji hrista af sér pusið og stíga ölduna þótt meirihlutaskútan sé sokkin. Það er líka mennska af hálfu formanns flokksins, Geirs H. Haarde, að hvetja flokksmenn í höfuðborginni til að snúa bökum saman og láta kjurt liggja.

En það er ekki raunpólitík, og við búum í raunpólitískum heimi.

Þær hamfarir sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur orðið fyrir eru af mannavöldum. Og ef engar verða afleiðingarnar fyrir borgarstjórnarflokkinn þá er veruleikanum gefið langt nef. Stjórnmálaflokkur sem hagar sér þannig býður heim næsta stórslysi.

Annað hvort þarf Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að axla sín skinn eða afgangurinn af borgarstjórnarflokknum.

 


mbl.is Samstarfsslitin útrætt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Jón Sigurðsson kallaði þetta "bernskubrek" og sagði að það þyrfti að fyrirgefa þeim og halda áfram.  Kannski á maður bara að hlæja að þessu og halda áfram.  Það er líklega rétt hjá blessuðum karlinum.  Þetta á hins vegar eftir að valda mörgum andvökunóttum hjá þessum hópi og það eru mörg "ef" í huga þeirra þessa dagana.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 19.10.2007 kl. 01:07

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nú er svo, að ég veit auðvitað ekkert um lífsgöngu þína en ég bið þig skoða eina spurningu frá mér, setta fram í einlægni og ells ekki til þess að rýra þig né aðra þá sem lesa.

Ættir þú trúnaðarvin, til áratuga, sem þú fælir það verkefni að vera,,þinn maður" í samningu uppkasts að samningi um mál, sem litðið væri á sem undirbúningsskref í lengra ferli og með þeim manni væri lögfróður maður úr kunningjahópi þínum innan úr þeim flokki, sem stæði að málinu ásamt og með samstarfsflokki.-----Hverjar eru líkurnar á, að þú teldir þér búna gildru og að eitthvað gæti verið í þessum skjölum, sem kæmi þér illa pólitískt?  Og því aðalspurningin:  Læsir þú hverja síðu út í hörgul?

Ef svörin eru á lausu, þá bið ég þig birta þau, annars svari hver fyrir sig ---og láti SAMVISKU SÍNA RÁÐA.

Með mikilli vinsemd

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 19.10.2007 kl. 15:29

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Bjarni og þakka þér athugasemdina og aðrar

Borgarstjórinn fyrrverandi gerði mistök. Þau mistök, eftir því sem best verður séð, eru ekki framin með einbeittum brotavilja heldur fólust þau einkum í að treysta mönnum sem ekki stóðu undir traustinu. Og einmitt af því að um nána samverkamenn var að ræða verður ábyrgðin meiri.

Hér er dómgreind og pólitísk ábyrgð til umræðu. Svo ég svari þér beint: Væri ég í sporum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar myndi ég segja af mér sem oddviti og borgarfulltrúi og gefa mér langan tíma til að hugsa um eftirfarandi spurningu: Er ég búinn með pólitíska skammtinn minn?

Hitt er svo annað mál, eins og ég reyni að segja í færslunni að ofan, að viðbrögð Vilhjálms eru mannleg. Maður hefur samúð með honum vegna ófærunnar sem hann rataði út í. En mennska og réttar pólitískar ákvarðanir er oft sitthvað.

Lifðu heill.

Páll Vilhjálmsson, 19.10.2007 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband