Miðvikudagur, 17. október 2007
Hversu flókið er að gera verðkönnun?
Eina rétta aðferðin til að gera verðkönnun er að fara út í búð eins og hver annar neytandi og kaupa samkvæmt fyrirfram ákveðnum lista. Kassakvittunin er samanburðarverðið.
Verðlagseftirliti ASÍ ætti að vera í lófa lagið að gera fólk út af örkinni að kaupa 35 - 40 vöruliði. Gera má ráð fyrir að út úr því fáist 20 - 25 vöruliðir sem eru sambærilegir og hægt er að gera á verðsamanburð.. (Afföllin skýrast af því að ekki eru allir vöruliðir til í öllum búðum, einingarpakkningar ekki þær sömu o.s.frv.)
Verðlagseftirlit ASÍ á ekki að spyrja kóng eða prest hvort heimilt sé að gera verðkönnun. Framtak ASÍ er lofsvert og synd og skömm ef algjörlega óþörf nærgætni gagnvart hagsmunum verslunarinnar skuli eyðileggja verðsamanburð.
Til að gera langa sögu stutta: Fulltrúar ASÍ eiga að haga sér eins og neytendur þegar þeir gera verðsamanburð. Kaupa vöruna og nota kassakvittun til að gera samanburð.
Athugasemdir
Sammála þér. Mér finnst undarlegt svo ekki verði meira sagt, hvernig ASÍ stendur að þessu. Viðvaningslegt.
Halla Rut , 17.10.2007 kl. 01:11
Sanngjörn aðferð við verðkönnun er einmitt að kaupa bara vörurnar eins og hver annar kúnni. Með því móti má svo bera saman vörurnar þegar komið er í hús og gefa þær síðan til félagasamtaka sem á þurfa að halda eins og Morgunblaðið hefur gert síðustu misseri. Og auk þess sem vörurnar þurfa að vera algjörlega sambærilegar þá þarf fólk að vera á nákvæmlega sama tíma í búðunum. Að þessum skilyrðum uppfylltum er þetta eina sanngjarna leiðin til að gera verðkönnun þ.e.a.s. upp á niðurstöðu þegar neytendur eru hafðir í huga.
Ragnheiður (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 09:19
Til fróðleiks
Staðan er sú að smásöluaðilar stíla inn á að kaupa af heildsölum sömu vöruna í öðrum stærðum en keppinauturinn. T.d. eru oft á tíðum vörur í öðrum stærðum í Bónus en í Krónunni. Er þá oftast að muna einhverjum grömmum á hverri vöru og auk þess geta pakkningar verið mismunandi utan um sömu vöruna. Þá er annað strikamerki á vörunni á milli búða vegna þessa mismunar. Það getur því þurft mjög margar prufur til að finna samanburðarhæfa vöru. Einnig er vara hlutfallslega dýrari í litlu magni og því ekki hægt að bera almennilega saman 1 kg af sykri eða 250 gr.
Hefðbundið búðakassakerfi hefur aðeins takmarkaðan stafafjölda fyrir heiti hverrar vöru og æði erfitt getur reynst að lesa úr þeim þar sem oft er um skammstafanir er að ræða. Þá birtast ekki strikamerki vöru á kassastrimli.
Ef varan er ekki sú sama á milli búða er ekki hægt að bera hana saman og þetta vita verslunarmenn. Ef ekki er almennilega hægt að lesa úr strimlinum þá er erfitt að bera saman og þetta vita verslunarmenn.
Ég hugsa að það sé sama hvaða aðferðum er beitt við verðlagseftirlit það verður alltaf erfiðaðara en leikmenn gera sér grein fyrir því verslunarmenn reyna hvað þeir geta til að gera verðsamanburðinn erfiðan.
Af þessum sökum hafa verið settar niður verklagsreglur um hvernig eftirlitið skuli fara fram. Er þetta gert í þeim tilgangi að: (i) eftirlitið skili sem réttustum upplýsingum (ii) komast hjá hindrunum verslunarmanna (iii) komast hjá skaðabótaskyldu sem leitt getur af kolröngum samanburði
Manípú (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.