Þunnildi Baldurs

Baldri Kristjánssyni finnst það sniðug hugmynd að skipta út íslensku fyrir ensku. Fyrir afstöðu sinni færir hann rök sem mígleka svo ekki sé meira sagt. Ægir þar saman sögulegu bulli, innantómum líkingum og kámugri hugsun.

Í fyrstu málsgrein pistilsins segir Baldur

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu hvað er hugsað á Íslandi, um hvað er talað, hvernig fólkið er innréttað.

Að svo miklu leyti sem við vitum hvað hugsað er á Íslandi þá vitum við það vegna þess að það hefur verið sagt upphátt á íslensku í ræðu eða riti. Maður með þýsku að móðurmáli sem byggi hér og hugsaði upphátt gæti aldrei hugsað án móðurmálsins þótt hann kynni lýtalausa íslensku. Það er ekki til nein hugsun sem ekki á sér móðurmál. Jafnvel stærðfræðingar sem fást við óhlutbundna hugsun glíma við hana í samhengi tungumálsins. Maður getur ímyndað sér að á Íslandi byggi þjóð sem ekki talaði íslensku en hún væri ólík þeirri sem hér býr.

Ef Baldur er að reyna að segja að það skipti engu máli hvaða þjóð byggir þetta land, sem er allt önnur umræða, þá ætti hann að ropa því út úr sér.

Í annarri málsgrein segir Baldur

Málið er samskiptatæki en getur einnig verið kúgunartæki þar innifalið tæki til að einangra og útiloka.

Hér vill Baldur líta á tungumálið sem verkfæri. Gott og vel, hann er ekki einn um það. En ef maður skiptir út tungumálinu og setur í staðinn annað verkfæri þá fær maður alltaf sömu útkomuna: Skófla er þénugt tæki til að grafa skurð, en skóflan getur líka orðið að vopni til að berja á fólki - og hefur raunar oft verið notuð sem slík. Ef maður setur trúarbrögð í jöfnuna kemur það sama út. Trúarbrögð eru tæki manns til að skilja tilveru sína en þeim hefur oft verið beitt til einangrunar og útilokunar. Líkingamál Baldurs er merkingarlaust orðahröngl.

Þá er komið að söguafskræmingu Baldurs. Í þriðju málsgrein segir hann

Ég sé ekki betur en að Írum vegni bærilega þó þeir tali ensku. Óvíða hef ég kynnst meiri þjóðerniskennd en í Úkraínu. Minni hluti Úkraínumanna talar þó úkraínsku, meirihlutinn rússnesku. Í bæjum og þorpum nálægt landamærum eru þorp þar sem eingöngu er notast við tungumál nágrannaríkja.

Um Írland þarf ekki að hafa mörg orð. Enska yfirstéttin valtaði yfir tungu og menningu Íra með þeim afleiðingum að Íraland var evrópskt þriðjaheimsríki langt fram eftir síðustu öld. Þótt þeim vegni ágætlega núna er hæpið að þeir vegsami nýlendutímabilið og þakki enskum, ekki fremur en að eftirlifendur fjöldamorða þakki morðingjunum lífgjöfina.

Úkraínskt ritmál er tímasett við lok 18du aldar. Landið var ekki til sem slíkt, þær sneiðar sem Litháar, Pólverjar og Rússar bitust um voru á miðöldum og frameftir kallaðar Rútenía. Pólverjar þvinguðu sínu máli á íbúana og Rússar sínu. Í samfélögum gyðinga var töluð jiddíska og þýska var útbreidd. Að sjálfsögðu er þjóðerniskennd Úkraínumanna því marki brennd að þeir vita ofboð vel um tungumálahrærigrautinn. Orð Baldurs um landamæratungur í Evrópu eiga við öll landamæri meginlandsins. Maður skyldi halda að prestur sem situr Þorlákshöfn hefði hugboð um að Ísland er eyja.

Næstu fimm málsgreinar koma hér í kippu:

Almenn rökvísi segir manni að betra sé að tilheyra stórum málhópi en smáum. Óheppilegt er að eyða lífi sínu innan veggja tungumáls sem fáir botna í. Maður á möguleika að skilja fleiri og fleiri átta sig á tali manns í réttu hlutfalli við stærð málhólfs.Aðgangur að bókmenntum og listum eykst í réttu hlutfalli við stærð málsvæðis. Sé maður vís er gott að sem flestir heyri. Sé maður fávís hefur maður gott af að heyra sem flest.

Hér er Baldur virkilega komin á flug um óravíddir sem hann einn kann að nefna. Ætli bandaríski meðaljóninn skilji fleiri og hafi fleiri áheyrendur en, tja, meðalnorðmaðurinn, Svíinn eða Íslendingurinn? Og ætli að hann lesi fleiri bækur? Arabíska er stórt málssvæði en ekki eru miklar fréttir þaðan af bókmenntasköpun. Fávís maður getur heyrt býsna margt en skilið fátt. Þess vegna er hann fávís:

Nú er ég ekki að mæla með því að íslenskunni sé kastað. Jafnvel þó hún sé fremur stirt mál eins og reglan er með tungumál sem eru notuð af fáum.

„Betra að augun deyi en hjartað," eru einkunnarorð heimaseturs Baldurs og skiljanlegt að heilinn er hvergi nefndur. Það fer svo lítið fyrir honum.

Hér er slóðin á pistil Baldurs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Ekki oft sem mér verður bumbult af hlátri. Þú ert auðvitað hæfilega óforskammaður eins og stundum áður en mér er skemmt.

Stöndum með Íslenskunni.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 24.9.2007 kl. 22:23

2 identicon

Heill og sæll, Páll !

Tek undir, með Rögnvaldi. Síra Baldur er er einfaldlega einn léttadrengja Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur; og froðusnakka fylkingar hennar.

Hefi annars litlu, við þína ágætu grein að bæta. Vel fram sett: og hnitmiðuð. Kannski Sigurjón Landsbankastjóri, ásamt Baldri klerk taki nú að ástunda farandkennzlu, í enskunni þeirra.

Mbk. / Óskar Helgi Helgason

   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 22:42

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sammála.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 25.9.2007 kl. 00:32

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Amen.

Baldur Fjölnisson, 25.9.2007 kl. 12:59

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Leitt að lesa hér af litlum trúnaði sr. Baldurs við þjóðtunguna. Og sjáið hér, hvernig þessi "fjölmenningarhyggja" gengur út í afkáralegar öfgar í sífelldri afsökun og sjálfsásökun íslenzks áhanganda hennar: "Málið er samskiptatæki en getur einnig verið kúgunartæki, þar innifalið tæki til að einangra og útiloka." Þetta er farið að nálgast þráhyggju, sýnist mér, og var þó Baldur vel innréttaður frá fornu fari.

Jón Valur Jensson, 25.9.2007 kl. 15:57

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Afsakið að ég minnist á viðstadda í þriðju persónu en þó ég hafi sagt amen á eftir efninu hérna er það ekki 100 prósent og mér finnst ástæðulaust að kaffæra glóbalista á borð við nafna. Þeir fylgja ákveðnum tíðaranda sem er skapaður af gamalli og afar öflugri maskínu og við eigum alveg endilega að ræða við formælendur hennar á málefnalegum forsendum. Páll er með bestu bloggurunum hérna og getur verið sérlega eitraður ef því skiptir og skil ég vel að nafna svíði undan því. En þá er bara að vanda sig betur næst. Þetta eru nú ekki einræður í kirkjunni hérna. Virðingarfyllst.

Baldur Fjölnisson, 25.9.2007 kl. 22:54

7 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það er víst erfitt að nálgast þetta á mannúðlegan og pólitískan hátt en við erum núna stödd á massífri upplýsingaröld sem algjörlega byggist á sölumennsku, neyslu, afþreigingu og peningum. Þetta er fyrsta kynslóðin sem er algjörlega fjandans sama um forfeður sína og getur raunar ekki beðið eftir að þeir drepist og henni er líka algjörlega sama um framtíðina og það sem afkomendur hennar taka við. Á meðan við sjáum þetta þróast keppast síkópatar við að kóa með súrrealískt vitlausum terror hollywoodsjóum sem eiga að réttlæta endalaus stríð um græðgi og rányrkju sem er tíðarandinn í dag. Helstu ruglustrumparnir sem halda fram þessarri siðvillustefnu eru síðan í beinu sambandi vð guð að eigin sögn sem aftur gerir presta og preláta að heldur vandræðalegum skotmörkum á kjaftarásum. Q.E.D.

Baldur Fjölnisson, 26.9.2007 kl. 00:00

8 identicon

Smá stílæfing Páll.. en væri ekki rétt að blaðamaðurinn sjálfur fari rétt með gæsalappirnar utan um beinar tilvitnanir í mál klerksins sem þú er að rífa á hol í einhverjum hártogunum.. Kveðja

LBJ (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband