Sunnudagur, 23. september 2007
Tungumálið og tonn af heimsku
Málið verður nærtækara þegar við hugum að okkar eigin tungumáli. Við, sem tölum íslensku, berum ábyrgð á málinu gagnvart samtíma okkar, gengnum kynslóðum og óbornum. Öxlum við ekki ábyrgðina gerir enginn annar það fyrir okkur. Það er hægt að grafa unda tungumáli á ótal vegu. Ein leið væri að taka erlent tungumál upp í stjórnsýslunni og gera það jafngilt því sem fyrir er.
Íslenska er ekki töluð vegna þess að hún er fallegri eða mikilvægari en aðrar tungur. Eitt tungumál er hvorki betra né verra en annað tungumál. Kínverska verður ekki betra tungumál þótt fleiri tala það en þýsku; franska ekki betri en enska þrátt fyrir að vera hljómfegurri.
Íslenska er töluð vegna þess að hér höfum við búið í þúsund ár og ræktað með okkur tungutak landnámsmanna. Enginn tók ákvörðun um svo skyldi vera, ekki frekar en að nokkur Norðmaður hafi ákveðið að þarlend tunga skyldi aðlaga sig að orðfæri nágranna í suðri. Aftur var markvisst unnið að því frá 19du öld að verja og efla vestnorskar mállýskur og klæða í búning sem heitir öfugmælinu nýnorska.
Skilgreining Helga Hálfdanarsonar hér að ofan var flutt á ráðstefnu Vísindafélags Íslendinga í Norræna húsinu fyrir tuttugu árum. Á sömu ráðstefnu flutti Þórarinn Eldjárn erindi og velti fyrir sér hvers vegna hérlendir höfundar þraukuðu á íslensku.
Svarið vita auðvitað allir. Það er vegna þess að móðurmálið er móðurmálið. Þeir eru fáir sem geta skipt um mál án þess að missa um leið tengslin inn í sjálfa sig. Tungumál er oft kallað tæki, en ekki er þar með sagt að það sé eins og hvert annað áhald, sem er hægt að leggja frá sér að vild og taka upp nýtt. Tungumál tjáir sögu, menningu, sameiginlegan grundvöll heillar þjóðar.
Í nokkur hefur hefur fáeinum Íslendingum vegnað vel í fjársýslu og byggt upp auð sem skráður er í kauphöllum. Glýjan af þessum auð fær suma til að tapa glórunni og leggja til að enska sé tekin upp sem stjórnsýslumál. Til að auðvelda samskipti". Skítt með söguna, menninguna og það góss; það sem skiptir máli er að auðvelda fjársýslumönnum samskipti.
Í heimskasta heimi allra heima yrði slíkur tillöguhöfundur ekki lengi varaformaður. Hann yrði formaður til lífstíðar og þyrfti ekki að múta 500 manna fundi með flatbökum og bjór til að fá þúsund atkvæði í vegtylluna.
Athugasemdir
Vel mælt og tek heils hugar undir!
Magnús Þór Hafsteinsson, 23.9.2007 kl. 18:29
Innilega sammála,ekki hægt að orða þetta betur.
Ari Guðmar Hallgrímsson, 23.9.2007 kl. 20:22
Hey, heyr.
Halldór Egill Guðnason, 24.9.2007 kl. 11:14
Þetta eru athyglisverðar umræður um tungumál Palli og minnir mig á sorglegar uppákomur sem ég varð oft vitni að í Singapore þegar ég bjó þar. Í Singapore er enskan viðskipta og stjórnsýslu. En flestir hafa þó annað móðurmál, helst einhverja kínverska mállýsku, malasísku eða tamíl. Stjórnvöld hafa skilning á þessu og leggja mikið upp úr að menn alist upp tvítyngdir. En eitthvað virðist þetta hafa skolast til hjá sumum foreldrum. Ég varð margoft vitni af því þegar ung börn voru að tala við foreldra sína (oftast af kínversku bergi brotnir) á vægast sagt hroðalegri ensku. Ekki var enskan einungis máfræðilega röng heldur var orðaforðinn mjög þröngur og takmarkaður. Ástæðan er einföld, foreldrarnir töldu líklega að þeir væru að gera barninu "greiða" með því að tala bara við það á ensku. En þar sem foreldrarnir hafa annað móðurmál en ensku kenna þau börnunum bjagaða og þrönga ensku. Það sorglega er að þetta verður "móðurmál" barnanna, þau kunna ekkert annað.
Ég er búsettur í Bretlandi og tala ágæta ensku. Konan mín er enskumælandi og synir okkar hafa búið allan sinn aldur í London. En mér dettur ekki til hugar að tala ensku við börnin, enskan er ekki mitt móðurmál. Ef ég tala ekki móðurmál mitt við börnin mín þá takmarkar það auðvitað samskipti okkar um alla ævi. En þar sem ég held mig fast við að tala bara íslensku við börnin þá eru þau þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tvö móðurmál (eða móður og föðurmál í þessu tilfelli). Mér finnst þessi draumur margra um einhverskonar pidgin ensku á Íslandi einfaldlega vera sorglegur.
Guðmundur Auðunsson, 27.9.2007 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.