FL group eykur gjaldþolið með sjóðum TM

FL group keypti í gær mestallt hlutafé Tryggingamiðstöðvarinnar til að komast yfir sjóði félagsins. FL group stendur höllum fæti vegna misheppnaðra fjárfestinga undanfarin misseri og þarf á sjóðum Tryggingamiðstöðvarinnar að halda.

Hannes Smárason forstjóri FL group sagði í fréttum Útvarps að Tryggingamiðstöðin verið rekin sem dótturfélag FL group sem þar með stýrir fjármagnsflæði tryggingafélagsins. Hannes viðurkenndi að hér væri um stefnubreytingu að ræða þar sem FL group er fjárfestingafélag sem lifir á því að kaupa og selja verðbréf. Forstjórinn kom ekki með neina skýringu á því hvers vegna hann ætlar að reka tryggingafélag á meðan hann höndlar með bréf í American Airlines og Commerzbank.

Með því að komast yfir digra sjóði Tryggingamiðstöðvarinnar kaupir FL group sér tíma sem félagið sárvantar í niðursveiflu verðbréfamarkaða síðustu vikna. Hlutabréfamarkaðurinn sýndi í gær velþóknun á yfirtökunni. Bréf FL group lækkuðu ekki nema um 0,4 prósent á meðan bréf annarra fjármálafyrirtækja lækkuðu á bilinu 2-4 prósent.

FL group hefur, bæði innan og utan landsteinana, orð á sér fyrir skammtímahugsun í fjárfestingum sínum. Hluthafar í Finnair hafa lagst gegn því að íslenska fjárfestingafélagið komist í ökumannssætið í stjórn finnska flugfélagsins. Finnarnir vilja sjá félagið dafna til lengri tíma og það kallar á aðrar áherslur en hákarlakapítalisma.

Með yfirtöku á Tryggingamiðstöðinni eykst gjaldþol FL group. Aftur er ólíklegt að starfsfólk og viðskiptavinir tryggingafélagsins horfi fram á bjarta daga. Það er vafa orpið hversu lengi núverandi einkunnarorð verða í heiðri höfð:

Tryggingamiðstöðin er framsækið og metnaðarfullt fyrirtæki sem býður starfsfólki sínu góða vinnuaðstöðu. Hjá TM starfar um 130 manna samhentur hópur sem hefur það markmið að veita góða þjónustu á mannlegum nótum þar sem þörfum hvers og eins er mætt af sanngirni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

Góður pistill hjá þér.

Sævar Einarsson, 18.9.2007 kl. 07:25

2 identicon

Þá er að leita sér að öðru tryggingafyrirtæki!!!

Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 07:29

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góður hákarlakapítalismapistill!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.9.2007 kl. 10:18

4 identicon

Ekki svo gleyma því að Glitnir, sem greiddi fyrir stóran hlut á kaupunum í TM, fékk í staðinn hálfónýt bréf í FL!!

Xavier (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 10:59

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Fjárfestingastarfsemi er stór hluti rekstrar tryggingafélaga, sem reyna að ávaxta bótasjóði sína með sem árangursríkustum hætti.  Það er því ekki undarlegt að FL Group sjái sér ávinning í því að eiga tryggingarfélag enda margt líkt í starfseminni.

P.S. Annars ætti blaðamaðurinn og ritstjórinn Páll að vita að sögnin að vanta tekur með sér þolfall en ekki þágufall.  Sem sagt "... sem félagið vantar..." en ekki "...sem ?félaginu vantar...".

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.9.2007 kl. 01:21

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Takk fyrir leiðréttinguna Vilhjálmur. Félagið er komið í rétt fall.

Páll Vilhjálmsson, 19.9.2007 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband