15 ár frá svarta miðvikudeginum

Fimmtán áru eru frá því að Bretland hætti þátttöku í evrópska myntsamstarfinu, ERM. Myntbandalagið, gjarnan kallað snákurinn, var forspil að sameiginlegum gjaldmiðli ESB-landanna. Bretland dró sterlingspundið úr samstarfinu eftir metveltu í spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði.

Um miðjan september 1992 töldu Bretar að evrópska myntsamstarfið væri fullreynt, eftir aðeins tveggja ára reynslu. Ólíkur hagvöxtur innan Evrópusambandslandanna kallaði í breytilega vexti innan svæðisins en með ERM var lítið svigrúm til þess.

Reynsla Breta af myntsamstarfinu hefur bólusett þá gegn öllum hugmyndum um að taka upp evru í stað pundsins. Svarti miðvikudagurinn 16. september 1992 er reyndar æ oftar sagður blessun fyrir breskt efnahagslíf sem hefur staðið sig mun betur en efnahagslíf meginlandsþjóðanna, sem flest eru evru-lönd.

Meginlandsþjóðirnar eru þó mis vel á sig komnar. Þýskaland er loksins að sjá stígandi verð fasteigna og vill líklega halda í háa vexti á meðan Frakkar og þó enn frekar Spánverjar stynja þungan undan vöxtunum. Þjóðverjar skila afgangi á sínum fjárlögum en Spánverjar ekki. Weimar-tímabilið greypti í vitund Þjóðverja að verðbólga leiðir til þjóðfélagsupplausnar. Rómanskar þjóðir eru afslappaðri í afstöðu sinni. Evrópski seðlabankinn er í Frankfurt og lýtur þýskum aga.

Frakkar reyndu í síðustu viku að efna til umræðu um aukin pólitísk áhrif Evrópska seðlabankann en fengu kuldalegar móttökur hjá Þjóðverjum.

Fyrir tveimur árum vildu sumir stjórnmálamenn á Ítalíu fá líruna sína tilbaka og farga evrunni. Í bili tókst að setja lok á umræðuna.

Vandamálið við evruna er að hún er bandalagsmynt margra þjóða sem hafa ekki ákveðið sig endanlega hvort stefna eigi að stórríki Evrópu eða vera áfram ríkjabandalag þar sem þjóðir afsala sér fullveldi á afmörkuðum sviðum í nafni sameiginlegra hagsmuna.

Það mun taka áratugi fyrir Meginlandsevrópu að komast að niðurstöðu. Það er alls ekki víst að evran taki þátt í þeirri vegferð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð greining.

Ég hef alltaf gaman af að lesa góðar greinar um myntbandalög.

Eirný Vals (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband